Spurning

Hvernig eru útgjöld Evrópusambandsins fjármögnuð?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Útgjöld Evrópusambandsins eru að langmestu leyti fjármögnuð með beinum framlögum frá aðildarríkjunum. Framlögin taka mið af vergum þjóðartekjum ríkjanna, virðisaukaskattstofni, innheimtum tollum og sykurframleiðslu. Stærstu og best stæðu aðildarríkin borga þannig mest í sjóði sambandsins. Ríkin sem greiddu mest í sjóði ESB umfram móttekin framlög árið 2010 voru Þýskaland, Bretland, Frakkland og Ítalía og stærstu nettóþiggjendurnir voru Pólland, Spánn, Grikkland og Ungverjaland.

***

Árleg fjárlög Evrópusambandsins byggjast á svonefndum fjárhagsramma sem yfirleitt er gerður til sjö ára í senn. Yfirstandandi fjárhagstímabil er frá 2007 til 2013 og eru heildarútgjöld á tímabilinu áætluð um 975 milljarðar evra eða rúmar 154 billjónir íslenskra króna (miðað við gengið í nóvember 2011), en ein billjón er þúsund milljarðar eða 1.000.000.000.000 krónur.

Samhliða gerð fjárhagsrammans er tekin ákvörðun um með hvaða hætti sambandið skuli afla tekna sinna á tímabilinu en Evrópusambandið fjármagnar útgjöld sín að fullu með eigin tekjum. Þar af eru um 99% fjármögnuð með beinum framlögum frá aðildarríkjunum sem, á tímabilinu 2007-2013, taka mið af þremur tekjustofnum:

  1. Innheimtir tollar og gjald á sykurframleiðslu. Tekjur sambandsins af þessum þáttum eru kallaðar hefðbundnar eigin tekjur en þær voru innleiddar sem tekjustofn árið 1970. Aðildarríkin greiða 75% af tollum og aðflutningsgjöldum til sambandsins en 25% af gjöldunum halda þau eftir til að standa undir kostnaði við innheimtuna. Sykurgjald felur í sér sérstaka álagningu á fyrirtæki sem framleiða sykur en gjaldið er notað til að fjármagna endurgreiðslur á útflutningi umframframleiðslu sykurs. Framkvæmdastjórn ESB ákveður árlega upphæð gjaldsins og byggir mat sitt á framleiðslumagni og neyslu sykurs innan ESB og meðaltali áðurnefndrar endurgreiðslu.
  2. Virðisaukaskattstofn. Almennt gildir að virðisaukaskattframlag aðildarríkjanna er 0,3% af virðisaukaskattstofni hvers ríkis, en stofninn getur þó að hámarki numið 50% af þjóðartekjum. Fjögur lönd hafa samið um lægra virðisaukaskattframlag á yfirstandandi fjárhagstímabili, þau eru Austurríki (0,225%), Þýskaland (0,15%), Holland (0,1%) og Svíþjóð (0,1%).
  3. Vergar þjóðartekjur. Mismuni á fjárveitingum sambandsins, samkvæmt fjárlögum, og mörkuðum tekjum er mætt með árlegu framlagi sem tekur mið af vergum þjóðartekjum aðildarríkjanna. Öll ríki greiða sama hlutfall af þjóðartekjum en hlutfallið sjálft er breytilegt frá ári til árs, eftir því hve miklu munar á fjárveitingum og mörkuðum tekjum. Stærstur hluti útgjalda Evrópusambandsins, um 75%, er fjármagnaður með þjóðartekjuframlaginu.

Í eftirfarandi töflu má sjá hve stórt hlutfall af hverjum tekjustofni ríkin þurfa að greiða til sambandsins og hversu stórt hlutfall hver tekjustofn er af heildartekjum sambandsins, miðað er við árið 2011:

Tekjustofn Hlutfall sem aðildarríki greiða Hlutfall af tekjum ESB
Innheimtir tollar og gjald á sykurframleiðslu 75% af tollum 13,26%
Virðisaukaskattstofn 0,3% 10,9%
Vergar þjóðartekjur 0,7538% 74,72%
Samtals 98,88%

Aðrar tekjur sambandsins eru meðal annars settar saman úr sköttum á laun starfsmanna stofnana ESB, framlögum frá ríkjum utan ESB til ákveðinna samstarfsáætlana og innheimtum sektum fyrir brot á samkeppnislögum sambandsins. Samanlagt nema þær rétt um 1% af heildartekjum sambandsins.

Síðastliðin fimm ár hafa samanlögð framlög aðildarríkja til sambandsins verið að meðaltali 1,12% af vergum þjóðartekjum þeirra í heild. Samkvæmt reglum ESB getur þetta hlutfall að hámarki verið 1,23% á yfirstandandi fjárhagstímabili. Töluverður munur er hins vegar á því hversu hátt hlutfall af þjóðartekjum hvert og eitt aðildarríki greiðir til sambandsins þegar allt er tekið saman.

Aðildarríkin fá á hinn bóginn öll hluta framlaga sinna til baka í formi styrkja, svo sem til landbúnaðar og byggðamála, en sá hlutur er misstór eftir því hversu vel stæð ríkin eru. Þau aðildarríki sem best standa greiða yfirleitt meira til sambandsins en þau fá til baka, eru nettógreiðendur, á meðan þau ríki sem lakara standa fá yfirleitt hærri framlög til baka en þau greiða, eru nettóþiggjendur.

Í eftirfarandi töflu má sjá upplýsingar um nettóframlög aðildarríkjanna í milljónum evra og milljörðum króna og hversu stórt hlutfall framlagið er af vergri landsframleiðslu þeirra. Þá er sýndur íbúafjöldi hvers aðildarríkis og framlag á hvern íbúa, bæði í evrum og í íslenskum krónum. Miðað er við gengið 3. nóvember 2011 þegar ein evra var um 158 íslenskar krónur.



Smellið á töfluna til að stækka hana.

Þýskaland er stærsti nettógreiðandi sambandsins með rúma 9 milljarða evra í nettóframlag árið 2010. Bretland og Frakkland koma næst á eftir með rúma 5,5 milljarða evra í nettóframlag, því næst Ítalía með 4,5 milljarða evra, Holland með 1,8 milljarð evra og loks Belgía með 1,47 milljarða evra. Stærstu nettóþiggjendur úr sjóðum ESB árið 2010 voru Pólland með 8,4 milljarða evra, Spánn með rúma 4 milljarða evra, Grikkland með 3,6 milljarða evra, og Ungverjaland með 2,75 milljarða evra. Sé miðað við höfðatölu voru Belgía, Svíþjóð, Þýskaland, Danmörk og Holland stærstu nettógreiðendur sambandsins, og Eistland, Litháen, Grikkland, Lettland og Ungverjaland stærstu nettóþiggjendur.

Óvíst er hvernig tekjuöflunarkerfi komandi fjárhagstímabils, fyrir árin 2014-2020, mun líta út. Í nýlegum drögum að ákvörðun um tekjuöflunarkerfi eru lagðir til tveir nýir tekjuflokkar, annars vegar skattur á fjármagnshreyfingar (sjá umfjöllun um Tobin-skatt) og hins vegar sérstakur ESB-virðisaukaskattur, sem ætlað er að koma í staðinn fyrir núverandi tekjur ESB af hlutdeild í virðisaukaskattstofni aðildarríkjanna og til lækkunar á hlut ESB í þjóðartekjum aðildarríkjanna. Hugmyndirnar eru þó mjög umdeildar meðal aðildarríkjanna en eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvaða reglur gilda um fjárlagagerð ESB? krefst ákvörðun um tekjuöflunarkerfi sambandsins samþykkis fulltrúa allra aðildarríkja í ráðinu.

Þetta svar var uppfært í júlí 2012.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 8.11.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvernig eru útgjöld Evrópusambandsins fjármögnuð?“. Evrópuvefurinn 8.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61024. (Skoðað 28.3.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela