Spurning

Hvers vegna hafa endurskoðendur ESB ekki viljað undirrita bókhald sambandsins?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins ber ábyrgð á endurskoðun á reikningum ESB. Með Maastricht-sáttmálanum frá árinu 1992 var réttinum gert að láta Evrópuþinginu og ráðinu í té sérstaka yfirlýsingu um að reikningar væru réttir og að þau viðskipti, sem að baki þeim byggju, væru lögmæt og rétt að formi til. Í þeim yfirlýsingum hefur hann frá upphafi lýst því yfir að reikningar sambandsins væru að mestu réttir. Hann hefur hins vegar ekki fengist til að staðfesta lögmæti og reglufestu þeirra viðskipta sem að baki þeim bjuggu, sökum þess að reglur ESB og samningsskilyrði hafi oft og tíðum verið brotin. Til að þess konar staðfesting fáist þurfa 98% bókhalds hvers stefnuflokks að vera rétt bókfærð.

Framkvæmdastjórn ESB, sem ber lagalega ábyrgð á bókhaldi sambandsins, hefur bent á að nær ómögulegt sé að standast strangar kröfur réttarins að öllu leyti. Frávik megi að mestu rekja til mistaka við flókna pappírsvinnu en aðeins mjög lágt hlutfall heildarútgjalda sambandsins megi rekja til fjársvika.

***

Samkvæmt Evrópuskrifstofu um aðgerðir gegn svikum mátti rekja 0,16% af heildarútgjöldum ESB til grunaðra fjársvika á starfstímabilinu 2000-2007.

Evrópusambandið hefur lengi verið gagnrýnt fyrir óáreiðanlegt bókhald sem valdi spillingu og óráðsíu í fjármálum sambandsins. Í því sambandi er vert að hafa í huga að 80% þess fjár sem ESB úthlutar er varið innan aðildarríkjanna sjálfra, þar sem dagleg umsýsla þess fer einnig fram. Skekkjur geta til dæmis varðað kostnaðarliði sem fullnægja ekki reglum sambandsins, kostnaðarliði sem var í raun aldrei stofnað til, og kostnaðarliði sem ekki voru rétt út reiknaðir. Endurskoðunarrétturinn áréttar að stór hluti af skekkjum komi til vegna takmarkaðrar þekkingar aðildarríkjanna á flóknum reglum sambandsins. Hann álítur engu að síður að fjársvik eigi sér einnig stað og að aðildarríkin sjálf beri þar mesta ábyrgð, þar sem svikin eigi sér stað heima fyrir en ekki á vettvangi Evrópusambandsins.

Rétturinn sendir öll fjársvikamál til Evrópuskrifstofu um aðgerðir gegn svikum (European Anti-Fraud Office, OLAF), en skrifstofan er sjálfstætt stjórnarsvið innan framkvæmdastjórnarinnar. Samkvæmt skrifstofunni mátti rekja 0,16% af heildarútgjöldum ESB til grunaðra fjársvika á starfstímabilinu 2000-2007, sem jafngilti 290 milljónum evra.

Dregið hefur verulega úr skekkjum í bókhaldi ESB síðastliðin ár og almennt hefur Endurskoðunarrétturinn komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdastjórnin sé að taka á vandanum.

Framkvæmdastjórnin reynir jafnan að draga úr gagnrýni Endurskoðunarréttarins, sem er oft og tíðum pólitískt viðkvæm. Það gerir hún meðal annars í ársskýrslum réttarins þar sem henni gefst færi á að gera athugasemdir við umsögn réttarins, lið fyrir lið. Að mati framkvæmdastjórnarinnar er nær ómögulegt að uppfylla þau skilyrði sem Endurskoðunarrétturinn miðar við, og eru í raun mun strangari en þau sem beitt er við eftirlit einstakra ríkja með eigin fjárútlátum. Þá bendir framkvæmdastjórnin á að Endurskoðunarrétturinn byggi mat sitt á hlutfallslega litlu úrtaki, – nokkur hundruð verkefnum af milljónum verkefna í heildina, sem gefi ekki rétta mynd af stöðunni. Loks taki rétturinn ekki mið af því að framkvæmdastjórnin endurheimti hluta af þeim fjármunum sem hefur verið illa varið (e. mis-spent) árin á undan. Þar komi inn í myndina að framkvæmdastjórnin starfar á margra ára grundvelli í senn en Endurskoðunarrétturinn einungis á ársgrundvelli. Þá bendir framkvæmdastjórnin á að einungis sé hægt að rekja mjög lágt hlutfall heildarútgjalda sambandsins til fjársvika. Sjá umfjöllun um viðleitni framkvæmdastjórnarinnar til að bæta bókhald sambandsins í svari við spurningunni Hefur ESB gert eitthvað til þess að bókhald þess verði áreiðanlegra?

Næsta skýrsla Endurskoðunarréttarins, fyrir árið 2010, kemur út í nóvember 2011. Sjá umfjöllun um skýrslu ársins 2009 í svari við spurningunni Hvað segir ársskýrsla ESB fyrir árið 2009 um bókhald sambandsins?

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:
Bókhald ESB virðist ekki fært með viðurkenndum stöðlum. Einhverra hluta vegna vilja endurskoðendur ekki undirrita það. Um hvað snýst málið nákvæmlega?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 5.10.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvers vegna hafa endurskoðendur ESB ekki viljað undirrita bókhald sambandsins?“. Evrópuvefurinn 5.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60659. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela