Spurning

Hvernig er byggðastefna ESB framkvæmd?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Byggðastefnu Evrópusambandsins (e. Regional Policy) er ætlað að auka jafnvægi milli svæða og efla efnahagslega og félagslega samheldni innan sambandsins (174. gr. sáttmálans um starfshætti ESB). Byggðastefnan er framkvæmd með styrkjum úr uppbyggingarsjóðum sambandsins (e. Structural Funds) sem eiga meðal annars að styrkja grundvöll fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, auka menntun og færni, efla samkeppnishæfni svæða og stuðla þannig að auknum hagvexti og lífsgæðum innan aðildarríkja ESB. Í svari við spurningunni Hvað er byggðastefna Evrópusambandsins? má lesa um það hvernig fjármunir byggðastefnunnar skiptast á milli aðildarríkja og svæða en hér verður fjallað um framkvæmd stefnunnar.

***

Framkvæmd byggðastefnunnar er á sameiginlegu forræði ESB, aðildaríkjanna og svæða innan ríkjanna. Í stuttu máli má segja að fyrir hvert sjö ára tímabil gefi ESB út almennar reglur og leiðbeiningar um hvernig fjármunum byggðastefnunnar skuli varið en aðildarríkin sjálf, og einstök svæði, ákveða endanlega til hvaða verkefna þeir renna í raun.Evrópusambandið gætir þess að það fari ekki framhjá borgurum sambandsins hvaða verkefni njóta stuðnings úr uppbyggingarsjóðunum enda eru þau áþreifanlegri og nær borgurunum en flest annað sem kemur frá ESB. Þannig undirgangast styrkþegar ítarlegar reglur um upplýsingaskyldu þar sem meðal annars er kveðið á um hvenær, hvar, í hvaða stærð, og með hvaða bakgrunni þeim beri að nota merki sambandsins.

Til grundvallar leiðbeiningum ESB um framkvæmd byggðastefnunnar liggja langtímamarkmið um efnahags- og samfélagsmál eins og þau voru sett fram í Lissabon-áætluninni og nú nýverið í langtímastefnunni Evrópa 2020. Í almennu reglugerðinni svokölluðu um almenn ákvæði um uppbyggingarsjóðina (reglugerð nr. 1083/2006) og leiðarvísi ESB um samheldnimarkmið (Community Strategic Guidelines on Cohesion) koma meðal annars fram þau stefnumið og áherslur sem aðildarríkin skulu hafa til hliðsjónar við úthlutun úr sjóðunum, hvaða stofnanaumgjörð er nauðsynleg vegna þátttöku í byggðastefnu ESB, hvernig haga skuli áætlanagerð og stefnumótun, styrkhæfi verkefna eru skilgreind, réttindi og skyldur aðildarríkjanna tilgreind auk þess sem hlutverk framkvæmdastjórnarinnar er útskýrt.

Aðildarríkjunum ber að undirbúa landsáætlun (e. National Strategic Reference Framework) sem tryggir að aðstoð úr uppbyggingarsjóðum ESB sé í samræmi við leiðbeiningar ESB. Landsáætlun er sá grunnur sem framkvæmdaáætlanir (e. Operational Programs) aðildarríkja byggjast á. Áður en landsáætlun er samin, þarf að liggja fyrir greining á styrkleikum og veikleikum svæða í efnahagslegu, félagslegu og svæðisbundnu tilliti, og á tækifærum og ógnum svæða með tilliti til efnahagsþróunar í heiminum.

Útfærsla landsáætlana er með mismunandi hætti eftir aðildarríkjum. Sem dæmi má nefna að fyrir tímabilið 2007-2013 eru í gildi 2 framkvæmdaáætlanir í Danmörku, 3 á Írlandi, 36 í Þýskalandi, 45 á Spáni og 66 á Ítalíu. Mismunandi er hvort áætlanirnar gildi fyrir ákveðna sjóði, ákveðin svæði eða ákveðin markmið en í hverri framkvæmdaáætlun kemur fram hve miklu fjármagni er til hennar veitt og hvernig beri að nota það. Í framkvæmdaáætlunum eru tilgreindar helstu áherslur eða forgangsmál hvers aðildarríkis, það er hverjir geta fengið styrk og til hvers. Allar framkvæmdaáætlanir þarf að bera undir framkvæmdastjórnina til samþykktar.

Ein meginregla gildir alltaf um fjármögnun verkefna úr uppbyggingarsjóðum ESB en það er reglan um viðbótargildi (e. additionality). Hún felur í sér að peningar úr uppbyggingarsjóðum ESB eigi ekki að koma í staðinn fyrir útgjöld af hálfu aðildarríkjanna til ákveðinna verkefna heldur eiga þeir að vera viðbót við þau. Í framkvæmd þýðir þetta að hvert og eitt verkefni sem styrkt er úr uppbyggingarsjóðunum kallar alltaf á mótframlag frá aðildarríkjunum sjálfum. Hlutfall fjármögnunar milli ESB og aðildarríkisins er tilgreint í hverri framkvæmdaáætlun um sig.

Þriðjungi af fjárlögum ESB fyrir tímabilið 2007-2013 er varið til byggðastefnunnar og í eftirfarandi töflu má sjá hvernig upphæðin skiptist eftir markmiðum stefnunnar og sjóðum (allar tölur eru í milljörðum evra).

Markmið: Sjóðir og skipting:
Samleitni ERDF ESF Samheldnisjóður 283
Samkeppnishæfni og atvinna ERDF ESF 55
Samvinna milli svæða ERDF 9
201 76 70 =347

Uppbyggingarsjóðirnir (e. Structural Funds) sem notaðir eru til að vinna að markmiðum byggðastefnunnar eru þrír:
  • Byggðaþróunarsjóður Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF): Fjármagnar styrkingu innviða, nýsköpun og fjárfestingar.
  • Félagsmálasjóður Evrópu (e. European Social Fund, ESF): Fjármagnar meðal annars verkefni sem stuðla að endurmenntun, atvinnusköpun og þátttöku þeirra sem minna mega sín.
  • Samheldnisjóðurinn (e. Cohesion Fund): Úr honum er aðeins úthlutað til ákveðinna samevrópskra samgönguverkefna (Trans-European Transport Network) og verkefna sem hafa bætt áhrif á umhverfið, eingöngu í aðildarríkjum þar sem þjóðartekjur eru undir 90% af ESB-meðaltali.

Byggðastefna ESB er ekki óumdeild, enda um mikla fjármuni að tefla, og fréttir af óstjórn og ónógu eftirliti með uppbyggingarsjóðunum skjóta reglulega upp kollinum. Sem dæmi má nefna ítarlega rannsókn Financial Times og The Bureau of Investigative Journalism, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við skort á gagnsæi og ábyrgð í kerfinu. Þetta er rakið til þess hvað umsýsla sjóðanna dreifist víða en valddreifingunni er á hinn bóginn ætlað að tryggja að komið sé til móts við svæði eftir aðstæðum og áskorunum á hverjum stað.

Heimildir og kort:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.8.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvernig er byggðastefna ESB framkvæmd?“. Evrópuvefurinn 26.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60503. (Skoðað 15.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela