Spurning
Hver er byggðastefna Evrópusambandsins?
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Tilgangur byggðastefnu (e. Regional Policy) Evrópusambandsins, öðru nafni samheldnistefnu (e. Cohesion Policy), er að draga úr hinum mikla efnahagslega og félagslega mun milli svæða sambandsins með því að bæta hag þeirra svæða sem verst eru sett, eins og kveðið er á um í 174. grein sáttmálans um starfshætti ESB. Henni er enn fremur ætlað að stuðla að samræmingu aðgerða til að ná þeim langtímamarkmiðum sem aðildarríkin hafa sammælst um og sett eru fram í áætluninni Evrópa 2020.Kortið sýnir landsframleiðslu á mann eftir svæðum sem hlutfall af ESB meðaltali. Við stækkun Evrópusambandsins til austurs jókst misskipting innan sambandsins til muna. Rauðu svæðin eru þau fátækustu en þau grænleitu ríkust. Smellið á kortið til að fá stækkaða mynd.
Rammaáætlun byggðastefnunnar er gerð til sjö ára í senn en henni til grundvallar liggur ákvörðun um skiptingu aðildarríkjanna í hagskýrslusvæði (NUTS-svæði; Nomenclature of territorial units for statistics) (reglugerð 1059/2003). Löndunum er skipt upp í svokölluð NUTS-1, NUTS-2 og NUTS-3 svæði þannig að innan hvers NUTS-1 svæðis eru fleiri NUTS-2 svæði og ennþá fleiri NUTS-3 svæði (sjá töflu).
Stig - svæði | Lágmarks íbúafjöldi | Hámarks íbúafjöldi |
NUTS 1 | 3 milljónir | 7 milljónir |
NUTS 2 | 800.000 | 3 milljónir |
NUTS 3 | 150.000 | 800.000 |
Kortið sýnir skiptingu aðildarríkjanna í svæði. Appelsínugulu svæðin eru fátækust, þar er verg landsframleiðsla á mann undir 75% af ESB-meðaltali. Bláu svæðin eru þau sem hafa náð 75% þröskuldinum. Smellið á kortið til að stækka það.
Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 er þriðjungi af heildarfjárlögum Evrópusambandsins (347 milljörðum evra) varið til byggðastefnu sambandsins. Markmið stefnunnar eru þrjú:
- Samleitni (e. Convergence): Mestum hluta fjármagnsins (81,5%) er varið til að mæta þessu markmiði. Fjármagnið dreifist á fátækustu svæði sambandsins, þar sem verg landsframleiðsla á mann er undir 75% af ESB-meðaltali (appelsínugulu svæðin á neðra kortinu).
- Samkeppnishæfni svæða og atvinna (e. Regional Competitiveness and Employment): 16% heildarupphæðarinnar er varið til verkefna sem eiga að auka samkeppnishæfni og atvinnustig á öðrum svæðum (bláu svæðin).
- Samvinna milli svæða (e. European Territorial Cooperation): 2,5% heildarupphæðarinnar er varið til samvinnu svæða yfir landamæri (á við öll svæði).
- Byggðaþróunarsjóður Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF)
- Félagsmálasjóður Evrópu (e. European Social Fund, ESF)
- Samheldnisjóðurinn (e. Cohesion Fund)
- Framkvæmdastjórn ESB, 2008: Arbeiten für die Regionen: EU-Regionalpolitik 2007-2013.
- Framkvæmdastjórn ESB, 2008: Cohesion Policy 2007-2013: National Strategic Reference Frameworks .
- Ribhegge, 2007: Europäische Wirtschafts- und Sozialpolitik. Berlin: Springer Verlag. Bls. 141-153.
- Fyrra kort sótt á ec.europa.eu - Regional Policy, 23.8.11.
- Seinna kort sótt á ec.europa.eu - Regional Policy, 23.8.11.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur25.8.2011
Flokkun:
Efnisorð
ESB byggðastefna strjálbýli ystu svæði uppbyggingarsjóðir Byggðaþróunarsjóður Félagsmálasjóður Samheldnisjóður NUTS
Tilvísun
Þórhildur Hagalín. „Hver er byggðastefna Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 25.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60482. (Skoðað 6.12.2024).
Höfundur
Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Geta Íslendingar gert sér vonir um styrki frá ESB upp í ferðakostnað milli Íslands og Evrópu sökum fjarlægðar?
- Hvernig er byggðastefna ESB framkvæmd?
- Myndi ESB veita styrki til jarðganga eða brúarsmíði hér ef til aðildar kæmi?
- Hvernig gæti innganga í ESB haft áhrif á dreifbýl svæði eins og Austurland?
- Getið þið útskýrt styrkjakerfi ESB í stuttu máli?
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela