Spurning

Hver er byggðastefna Evrópusambandsins?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Tilgangur byggðastefnu (e. Regional Policy) Evrópusambandsins, öðru nafni samheldnistefnu (e. Cohesion Policy), er að draga úr hinum mikla efnahagslega og félagslega mun milli svæða sambandsins með því að bæta hag þeirra svæða sem verst eru sett, eins og kveðið er á um í 174. grein sáttmálans um starfshætti ESB. Henni er enn fremur ætlað að stuðla að samræmingu aðgerða til að ná þeim langtímamarkmiðum sem aðildarríkin hafa sammælst um og sett eru fram í áætluninni Evrópa 2020.

***Kortið sýnir landsframleiðslu á mann eftir svæðum sem hlutfall af ESB meðaltali. Við stækkun Evrópusambandsins til austurs jókst misskipting innan sambandsins til muna. Rauðu svæðin eru þau fátækustu en þau grænleitu ríkust. Smellið á kortið til að fá stækkaða mynd.

Rammaáætlun byggðastefnunnar er gerð til sjö ára í senn en henni til grundvallar liggur ákvörðun um skiptingu aðildarríkjanna í hagskýrslusvæði (NUTS-svæði; Nomenclature of territorial units for statistics) (reglugerð 1059/2003). Löndunum er skipt upp í svokölluð NUTS-1, NUTS-2 og NUTS-3 svæði þannig að innan hvers NUTS-1 svæðis eru fleiri NUTS-2 svæði og ennþá fleiri NUTS-3 svæði (sjá töflu).

Stig - svæði Lágmarks íbúafjöldi Hámarks íbúafjöldi
NUTS 1 3 milljónir 7 milljónir
NUTS 2 800.000 3 milljónir
NUTS 3 150.000 800.000

Ef heildaríbúafjöldi aðildarríkis er lægri en lágmark tiltekins NUTS-stigs telst ríkið allt vera eitt svæði á því stigi (reglugerð 1059/2003, 3. gr.). Þar af leiðir að Ísland mundi teljast eitt NUTS-1 svæði, eitt NUTS-2 svæði og eitt eða tvö NUTS-3 svæði. Í greinargerð samningahóps íslenskra stjórnvalda um byggða- og sveitastjórnarmál til aðalsamningnefndar kemur fram að sérstökum vinnuhópi hafi verið falið að undirbúa og afla tölfræðilegra upplýsinga vegna skiptingar landsins í NUTS-svæði, sér í lagi með tilliti til þess hvort skipta skuli landinu í eitt eða tvö NUTS-3 svæði. Þegar styrkþörf svæða er metin er þó almenna reglan sú að það sé gert á grundvelli NUTS-2 svæða (reglugerð 1083/2006, 5. gr.). Sjá nánar um framkvæmd byggðastefnunnar og hlutverk sjóðanna í svari við spurningunni Hvernig er byggðastefna ESB framkvæmd?Kortið sýnir skiptingu aðildarríkjanna í svæði. Appelsínugulu svæðin eru fátækust, þar er verg landsframleiðsla á mann undir 75% af ESB-meðaltali. Bláu svæðin eru þau sem hafa náð 75% þröskuldinum. Smellið á kortið til að stækka það.

Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 er þriðjungi af heildarfjárlögum Evrópusambandsins (347 milljörðum evra) varið til byggðastefnu sambandsins. Markmið stefnunnar eru þrjú:
  • Samleitni (e. Convergence): Mestum hluta fjármagnsins (81,5%) er varið til að mæta þessu markmiði. Fjármagnið dreifist á fátækustu svæði sambandsins, þar sem verg landsframleiðsla á mann er undir 75% af ESB-meðaltali (appelsínugulu svæðin á neðra kortinu).
  • Samkeppnishæfni svæða og atvinna (e. Regional Competitiveness and Employment): 16% heildarupphæðarinnar er varið til verkefna sem eiga að auka samkeppnishæfni og atvinnustig á öðrum svæðum (bláu svæðin).
  • Samvinna milli svæða (e. European Territorial Cooperation): 2,5% heildarupphæðarinnar er varið til samvinnu svæða yfir landamæri (á við öll svæði).

Uppbyggingarsjóðirnir (e. Structural Funds) sem notaðir eru til að vinna að markmiðum stefnunnar eru einnig þrír:
  • Byggðaþróunarsjóður Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF)
  • Félagsmálasjóður Evrópu (e. European Social Fund, ESF)
  • Samheldnisjóðurinn (e. Cohesion Fund)

Langstærstur hluti framlaganna úr uppbyggingarsjóðunum rennur til fátækustu svæða sambandsins. Við útreikning framlaga til aðildarríkja er annars vegar gerður greinarmunur á því undir hvaða markmið stefnunnar svæði ríkisins falla og hins vegar er tekið mið af ýmsum þáttum, svo sem íbúafjölda, hagsæld lands eða svæðis, atvinnustigi, atvinnuleysi eða þéttleika byggðar (reglugerð 1083/2006, 19. og 20. gr.). Landsframleiðsla á Íslandi er yfir ESB meðaltali sem þýðir að landið myndi ekki falla undir samleitnimarkmið byggðastefnunnar heldur markmiðið um samkeppnishæfni og atvinnu og eftir atvikum ákvæðið um samvinnu milli svæða.

Í fyrrnefndri greinargerð samningahóps um byggða- og sveitastjórnarmál kemur fram að erfitt sé að áætla hver gætu orðið árleg framlög til Íslands. Til samanburðar er tekið fram að minnstu er úthlutað til Dana og Hollendinga, eða 16 og 17 evrum á mann á ári. Nýju aðildarríkin í Mið- og Austur-Evrópu, auk Spánar, Portúgals og Grikklands fá hins vegar mest, á bilinu 110 til 368 evrur á mann á ári.

Framlög til Svía nema um 29 evrum á mann á ári og til Finna um 46 evrum. Þetta er umtalsvert meira en framlögin til dæmis til Danmerkur en Svíar og Finnar sömdu um það í aðildarviðræðum við ESB að tekið skyldi tillit til strjálbýlis, það er þeirra NUTS-2 svæða þar sem íbúaþéttleiki er undir átta íbúum á ferkílómetra (Bókun 6 við aðildarsamninginn). Í meginreglugerð byggðastefnunnar, sem gildir fyrir yfirstandandi fjárhagstímabil, er kveðið á um að þessi ákveðnu svæði í Svíþjóð og Finnlandi, sem og svokölluð ystu svæði (e. outermost regions), skuli njóta 35 evru stuðnings pr. íbúa óháð öðrum stuðningi úr sjóðum sambandsins (reglugerð nr. 1083/2006, 2. viðauki, 20. tl.).

Hér á landi eru rúmlega þrír íbúar á hvern ferkílómetra en eins og áður sagði mundi Ísland allt teljast eitt NUTS-2 svæði. Skilyrði bókunar 6 við aðildarsamning Svía og Finna mundi þar af leiðandi einnig eiga við um Ísland. Samningahópur íslenskra stjórnvalda um byggða- og sveitastjórnarmál leggur því áherslu á að mikilvægt sé að fá viðurkennda sérstöðu Íslands, með tilliti til mannfæðar, strjálbýlis og einangrunar, sem hafa hamlandi áhrif á efnahag og samfélagsþróun.

Heimildir og kort:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela