Spurning

Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?

Spyrjandi

Natan Kolbeinsson, f. 1993

Svar

Orðin heimskautalandbúnaður eða norðurslóðalandbúnaður vísa til þeirrar sérlausnar sem Finnland og Svíþjóð sömdu um í viðræðum sínum við ESB árið 1994. Sérlausnin felst í því að Finnum og Svíum er heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum, það er norðan við 62. breiddargráðu, sem nemur 35% umfram það sem öðrum aðildarríkjum er heimilt. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi landbúnaðarframleiðslu á norðlægum svæðum. Styrkveitingar eru meðal annars háðar því skilyrði að þær mega ekki leiða til aukinnar framleiðslu. Þær eru alfarið fjármagnaðar af viðkomandi ríki og byggjast á sérstakri grein í aðildarsamningi þess við ESB.

Í aðildarsamningi Finnlands er einnig ákvæði um að styrkja megi svæði sem eiga í alvarlegum erfiðleikum með aðlögun að hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB. Finnar nýttu sér það ákvæði til að semja við ESB um tímabundinn sérstuðning fyrir Suður-Finnland.

Í meirihlutaáliti utanríkimálanefndar Alþingis um aðildarumsókn Íslands að ESB segir að ástæða sé til að ætla að unnt verði að skilgreina allt Ísland sem svæði norðurslóðalandbúnaðar, þar sem það liggi allt norðan við 62. breiddargráðu. Í álitinu, sem lagt er til grundvallar í aðildarviðræðum stjórnvalda við sambandið, er í þessu ljósi lagt upp með að íslensk stjórnvöld leggi þunga áherslu á að fá að styrkja íslenskan landbúnað, til dæmis með framleiðslutengdum styrkjum, umfram almennar reglur ESB.

Þess má geta að Evrópusambandið hefur einnig hannað sérstakt styrkjakerfi fyrir harðbýl svæði (Less Favored Areas, LFA) þar sem erfitt er að stunda landbúnað vegna náttúrufars, það er á hrjóstrugum og ófrjósömum svæðum. Með því er reynt að tryggja að landbúnaður á harðbýlum svæðum geti staðið af sér samkeppni við frjósamari svæði Evrópu. ESB og viðkomandi ríki standa sameiginlega undir styrkjunum og heyra þeir undir aðra stoð hinnar Sameiginlegu landbúnaðarstefnu sambandsins (Common Agricultural Policy, CAP).

Finnland og Svíþjóð sömdu sérstaklega um stuðning af þessu tagi við harðbýl svæði, til viðbótar við hitt sem hér var nefnt, en allt landsvæði Finnlands er skilgreint sem harðbýlt. Ekki fá þó öll bóndabýli á harðbýlum svæðum styrki úr sjóðum ESB. Um 57% af öllu landbúnaðarsvæði sem er í notkun innan ESB eru skilgreind sem harðbýlt svæði og 13% af bóndabýlum innan sambandsins fá styrki á þeim grundvelli. Þess konar styrkir námu í heild 8 milljörðum evra eða 18% af heildarstuðningi ESB við dreifbýlisþróun innan sambandsins. Styrkþegar eru skyldugir til að stunda landbúnað á bóndabýli sínu í að minnsta kosti fimm ár frá fyrstu greiðslu úr sjóðunum, og auk þess verður svæðið sem notað er undir landbúnaðinn að vera af ákveðinni lágmarksstærð. Loks setja aðildarríki ESB ýmis önnur skilyrði til viðbótar. Styrkirnir eru greiddir út einu sinni á ári miðað við fjölda hektara ræktaðs lands. Upphæð greiðslna getur verið frá 25 evrum á hektara á ári að lágmarki og upp í 200 evrur á hektara að hámarki. Sú tala samsvarar frá 825 þúsund til 6,6 milljónum íslenskra króna á 200 hektara jörð á ári miðað við gengi í júní 2011.

Meirihluti utanríkismálanefndar metur það svo að ástæða sé til að ætla að allt landið verði skilgreint sem harðbýlt svæði í samningum við ESB, eins og Finnland. Samkvæmt því mati mundi Ísland eiga möguleika á styrkjum úr sjóðum Evrópusambandsins á þeim grundvelli, auk annars.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.6.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?“. Evrópuvefurinn 21.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=52597. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela