Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?
Spyrjandi
Natan Kolbeinsson, f. 1993
Svar
Orðin heimskautalandbúnaður eða norðurslóðalandbúnaður vísa til þeirrar sérlausnar sem Finnland og Svíþjóð sömdu um í viðræðum sínum við ESB árið 1994. Sérlausnin felst í því að Finnum og Svíum er heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum, það er norðan við 62. breiddargráðu, sem nemur 35% umfram það sem öðrum aðildarríkjum er heimilt. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi landbúnaðarframleiðslu á norðlægum svæðum. Styrkveitingar eru meðal annars háðar því skilyrði að þær mega ekki leiða til aukinnar framleiðslu. Þær eru alfarið fjármagnaðar af viðkomandi ríki og byggjast á sérstakri grein í aðildarsamningi þess við ESB. Í aðildarsamningi Finnlands er einnig ákvæði um að styrkja megi svæði sem eiga í alvarlegum erfiðleikum með aðlögun að hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB. Finnar nýttu sér það ákvæði til að semja við ESB um tímabundinn sérstuðning fyrir Suður-Finnland. Í meirihlutaáliti utanríkimálanefndar Alþingis um aðildarumsókn Íslands að ESB segir að ástæða sé til að ætla að unnt verði að skilgreina allt Ísland sem svæði norðurslóðalandbúnaðar, þar sem það liggi allt norðan við 62. breiddargráðu. Í álitinu, sem lagt er til grundvallar í aðildarviðræðum stjórnvalda við sambandið, er í þessu ljósi lagt upp með að íslensk stjórnvöld leggi þunga áherslu á að fá að styrkja íslenskan landbúnað, til dæmis með framleiðslutengdum styrkjum, umfram almennar reglur ESB.
- Skýrsla Evrópunefndar forsætisráðuneytisins
- Vefur framkvæmdastjórnar ESB, stjórnarsvið fyrir landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu
- Álit utanríkismálanefndar Alþingis vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu
- Aðildarsáttmáli Finnlands, Svíþjóðar, Noregs (var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu) og Austurríkis frá árinu 1994
- Skýrsla um styrki til norðurslóðalandbúnaðar í Norður-Finnlandi og Svíþjóð, á vegum Swedish Institute for Food and Agricultural Economics og Agrifood Research Finland
- Íslenskur landbúnaður í alþjóðlegu umhverfi - Skýrsla vinnuhóps á vegum utanríkisráðherra
- Mynd sótt af vef breska þingsins 10. júní 2011
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur21.6.2011
Efnisorð
ESB landbúnaður sérlausnir heimskautalandbúnaður norðurslóðalandbúnaður Finnland Svíþjóð framleiðslutenging harðbýl svæði dreifbýlisþróun
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?“. Evrópuvefurinn 21.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=52597. (Skoðað 13.2.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef