Spurning

Er endurskoðun landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem samið var um 1992 enn ólokið?

Spyrjandi

Rúnar Hálfdánarson

Svar

Stutta svarið er já: Þessari endurskoðun er enn ekki lokið þótt stöðugt hafi mjakast áleiðis í samræmi við stefnuna sem lagður var grunnur að árið 1992. Flest bendir til þess að endurskoðunin haldi áfram enn um sinn, enda tengist hún veigamiklum þáttum í samfélagi okkar og umhverfi, svo sem umhverfismálum og byggðamálum.

***

Á áttunda áratugnum sætti Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins (Common Agricultural Policy, CAP), sem hafði gengið í gildi árið 1962, harðri gagnrýni. Með margvíslegri markaðsíhlutun, svo sem fyrirfram ákveðnu íhlutunarverði (e. intervention price), innflutningstollum og útflutningsbótum, hafði tekist að koma fótunum undir landbúnaðarframleiðsluna í aðildarríkjunum, sem liðið höfðu matarskort á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Afleiðingarnar sem fylgdu í kjölfarið voru offramleiðsla, óhófleg útgjöld, óhagræði við framleiðslu og neikvæð umhverfisáhrif. Í þessu samhengi hefur oft verið talað um smjörfjöll og mjólkurvötn, með vísun í það magn umframframleiðslu sem ESB skuldbatt sig til að kaupa af bændum, óháð neyslu. Síðan þá hefur sameiginlega landbúnaðarstefnan reglulega verið tekin til endurskoðunar í nokkrum áföngum.

Í júní árið 1992 náðist samkomulag um fyrstu róttæku endurskoðun stefnunnar og hefur hún verið kennd við Írann Ray MacSharry sem þá var framkvæmdastjóri landbúnaðarmála (MacSharry reform). Helstu breytingarnar fólust í því að stuðningi við framleiðendur, sem hafði verið miðaður við framleiðslumagn, var að hluta breytt í beinar greiðslur til bænda. Íhlutunarverð voru lækkuð og bændum bættur skaðinn með beinum greiðslum, sem háðar voru skilyrðum um framleiðslu ákveðinna afurða. Til þess að eiga rétt á þessum greiðslum þurftu bændur öðru hverju að hvíla hluta af landi sínu frá ræktun (ræktunarhlé, e. set-aside) og takmarka álag á hektara. Þá voru innleiddir nýir þættir í landbúnaðarstefnuna sem tóku í ríkari mæli tillit til dreifbýlisþróunar og umhverfismála. Ekki náðist þó umsvifalaust samkomulag um öll þau atriði sem MacSharry hafði lagt til, og réð þar mestu hörð andstaða franskra stjórnvalda.

Árið 1999 var skrifað undir nýja áætlun um breytingar á landbúnaðarstefnunni sem hluta af átakinu Dagskrá 2000 (Agenda 2000). Hún fól í sér áframhaldandi lækkun á verði til bænda og að vægi beingreiðslna yrði aukið á móti. Aukin áhersla var lögð á umhverfismál og ný stoð (e. pillar), seinni stoð landbúnaðarstefnunnar, var formlega sett á fót en hún snýr að dreifbýlisþróun. Þá var aukin áhersla lögð á fæðuöryggi og heilnæmi fæðunnar, þróun nýrra afurða og myndun nýrra aukastarfa til að breikka tekjugrundvöll bændasamfélaga.



Land í ræktunarhléi.

Önnur róttæk endurskoðun átti sér stað árið 2003 þegar framleiðslutenging beingreiðslna til bænda var afnumin. Grundvöllur nýja Eingreiðslukerfisins (Single Payment Scheme, SPS) er sú upphæð sem bændur fengu á árunum 2000-2002. Greiðslurnar eru óháðar því hvaða afurðir bændur framleiða á jörðum sínum og veita þeim frelsi til að framleiða í samræmi við eftirspurn markaðarins. Það skilyrði var þó sett fyrir greiðslunum að bændur fari að ákveðnum stöðlum um umhverfismál, matvælaöryggi og heilbrigði dýra og plantna (alhliða reglufylgni, e. cross-compliance). Breytingarnar höfðu einnig í för með sér ákveðna tilfærslu ákvörðunarvalds í landbúnaðarmálum aftur til aðildarríkjanna í tengslum við beitingu nýja greiðslukerfisins. Til dæmis geta þau upp að vissu marki viðhaldið framleiðslutengdum styrkjum til að koma í veg fyrir að framleiðslu ákveðinna afurða verði hætt.

Með reglugerð frá árinu 2005 var Þróunar- og ábyrgðarsjóði evrópsks landbúnaðar (European Agricultural Guidance and Guarantee Fund, EAGGF) skipt í tvo aðskilda sjóði eins og sagt er frá í svari við spurningunni: Hvað er CAP og hvað felst í þeirri stefnu?

Árið 2008 var landbúnaðarstefnan enn tekin til endurskoðunar. Þá var ákveðið að afnema skilyrðið um ræktunarhlé og mjólkurkvótar voru auknir með það að markmiði að afnema þá fyrir 2015. Enn fremur varð að samkomulagi að draga úr beingreiðslum til bænda og veita fénu þess í stað í Dreifbýlisþróunarsjóðinn (seinni stoðina), til þess að bregðast við áskorunum eins og loftslagsbreytingunum og þörfinni á grænni orku. Enn ein endurskoðunin á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni hefur staðið yfir frá árinu 2010 en breytingunum er ætlað að taka gildi árið 2013, við upphaf nýs fjárlagatímabils sambandsins. Tillagna er að vænta á þessu ári, 2011.

Af þessari samantekt má sjá að það er ekki fjarri lagi að sameiginlega landbúnaðarstefnan hafi verið í sífelldri endurskoðun frá árinu 1992, og flest bendir til þess að sú endurskoðun haldi áfram í svipaða átt. Ýmislegt hefur enda breyst því að árið 1985 nam hlutur landbúnaðar í heildarfjárlögum ESB nærri 70% en fyrir fjárlagatímabilið 2007-2013 er hann um 40% og þar af eru um 20% eyrnamerkt dreifbýlisþróunarstoðinni. Þrátt fyrir það er landbúnaður enn stærsti einstaki liðurinn á fjárlögum sambandsins.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.6.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er endurskoðun landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem samið var um 1992 enn ólokið?“. Evrópuvefurinn 30.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60091. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela