Spurning

Hvort er Ísland í aðlögunar- eða viðræðuferli við ESB?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Evrópusambandið getur farið fram á að umsóknarríki komi til móts við ákveðin viðmið (e. benchmarks) áður en viðræður um tiltekinn samningskafla hefjast eða þeim lýkur. Í því getur falist aðlögun að regluverki sambandsins. Of snemmt er að segja til um hvort sambandið muni krefja Ísland um aðlögun að regluverki ESB í viðræðuferlinu, umfram þá aðlögun sem felst í EES-samningnum. Íslensk stjórnvöld líta svo á að ráðast eigi í þær breytingar sem gera þarf vegna aðildar að fenginni niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB. Verði það mat stjórnvalda að það þjóni hagsmunum Íslands að ráðast í afmarkaðan undirbúning fyrr, yrði það háð sérstakri ákvörðun sem tekin yrði í samráði við Alþingi.

***

ESB hefur sett fram kröfur um að íslensk stjórnvöld leggi fram áætlun um innleiðingu á lögum og reglum ESB á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar. Deilt er um hvort þessar kröfur feli í raun í sér kröfur um aukna aðlögun að regluverki ESB, áður en aðild hefur verið samþykkt. Sjá nánar í svari við spurningunni Hefur ESB krafið Ísland um aðlögun að regluverki sambandsins á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar?

Til þess að geta orðið aðili að ESB þurfa umsóknarríki að uppfylla svokölluð Kaupmannahafnarviðmið (e. Copenhagen criteria). Þau eru:
  • stöðugt stjórnarfar og stofnanir, sem tryggja lýðræði, réttarríki, mannréttindi og vernd minnihlutahópa;
  • virkt markaðshagkerfi, sem hefur burði til að takast á við þá samkeppni sem fylgir þátttöku á innri markaði ESB;
  • geta og vilji til að samþykkja og innleiða regluverk ESB og grundvallarmarkmið sambandsins í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Ef Ísland gengur í ESB mun reyna hvað mest á að stjórnsýslan hafi frá upphafsdegi aðildar getu til að beita og framfylgja því regluverki ESB sem ekki hefur verið innleitt nú þegar á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samstarfsins. Þar er einna helst um að ræða reglur um sjávarútveg, landbúnað og dreifbýlisþróun, umhverfismál, efnahags- og peningamál, tollabandalag, skattamál, hagskýrslur, matvælaöryggi, heilbrigði dýra og plantna og svæðastefnu (byggðastefnu).

Tveimur árum eftir stækkun ESB til austurs árið 2004 samþykktu aðildarríkin nýja sameiginlega afstöðu um stækkunarferlið (e. renewed consensus on enlargement). Í henni leggur sambandið ákveðnar meginlínur sem eiga að tryggja að ný aðildarríki séu þegar við aðild reiðubúin til að taka á sig þær skuldbindingar sem samið hefur verið um í aðildarviðræðunum og uppfylla þær. Í þessu felst meðal annars að ESB getur lagt til að viðræður um tiltekna samningskafla hefjist eða ljúki ekki fyrr en umsóknarríkið hefur komið til móts við ákveðin viðmið eða skilyrði. Ef umsóknarríki verður ekki við því er hægt að fresta viðræðum.


ESB getur farið fram á að umsóknarríki komi til móts við ákveðin viðmið áður en viðræður um tiltekinn samningskafla hefjast eða þeim lýkur.

Almenn afstaða ESB (e. General EU Position) gagnvart aðildarumsókn Íslands var sett fram á ráðherrafundi ríkjaráðstefnunnar um opnun viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu í Brussel 27. júlí 2010. Í henni kemur fram að ekki sé nauðsynlegt að fastsetja nákvæmar tæknilegar aðlaganir Íslands að regluverki ESB meðan á aðildarviðræðunum stendur. Það verði gert í samráði við Ísland og samþykkt af stofnunum Evrópusambandsins með góðum fyrirvara með það að markmiði að aðlaganir taki gildi á aðildardegi.

Ísland verði hins vegar að tryggja að stofnanir landsins, stjórnunargeta og stjórnsýslu- og dómskerfi hafi verið efld nægilega til þess að hrinda regluverki sambandsins í framkvæmd á skilvirkan hátt eða, eftir því sem við á, geti framkvæmt það með skilvirkum hætti með góðum fyrirvara áður en til aðildar kemur. Það kalli almennt á vel starfrækta og stöðuga opinbera stjórnsýslu, sem er byggð á skilvirkri og óhlutdrægri opinberri þjónustu, og óháð og skilvirkt dómskerfi. Nánar tiltekið þarf að vera fyrir hendi nauðsynleg geta og skipulag fyrir trausta stjórnun styrktarsjóða ESB og eftirlit með þeim að vera skilvirkt í samræmi við regluverkið.

Í almennu afstöðunni segir enn frekar að ráðið muni mæla fyrir um viðmið sem snerta bráðabirgðaafgreiðslu samningskafla og, eftir því sem við á, upphaf viðræðna um hvern kafla. Nákvæmu viðmiðin muni meðal annars vísa til aðlögunar íslenskrar löggjafar að regluverki ESB og til þess hvort staðið hafi verið með fullnægjandi hætti að innleiðingu meginþátta regluverksins og sýnt fram á getu stjórnsýslu og dómstóla. Ennfremur segir að í ljósi þess hversu vel á veg undirbúningur Íslands sé kominn ásamt efndum á skuldbindingum sem fylgja regluverkinu, meðal annars á þeim sviðum sem falla undir EES-samninginn og Schengen-samstarfið, geti ESB, í undantekningartilvikum, ákveðið að ekki sé þörf á viðmiðum til að hægt sé að afgreiða kafla til bráðabirgða. Ef samningaviðræðurnar standi yfir í langan tíma eða ef kafli er endurskoðaður síðar til þess að fella inn í hann ný atriði, svo sem nýtt regluverk, kunna gildandi viðmið að verða uppfærð.

Loks er skýrt frá þeirri kröfu Evrópusambandsins að Ísland felli í áföngum, á tímabilinu fram að aðild, stefnumið sín gagnvart þriðju löndum og afstöðu sína innan alþjóðastofnana að þeim stefnumiðum og afstöðu sem Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa samþykkt.

Af þessu má sjá að ekki er útilokað að ESB krefjist aukinnar aðlögunar Íslands að reglum sambandins á meðan á aðildarviðræðum stendur. Spurningin er hvort íslenskum stjórnvöldum takist að komast hjá þess konar aðlögun með því að leggja í staðinn fram nákvæmar áætlanir um hvernig Ísland ætli að innleiða lög og reglur ESB eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ef niðurstaða hennar yrði jákvæð.

Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis frá maí 2011 miða íslensk stjórnvöld ekki við annað í sínum undirbúningi en að ráðist verði í þær breytingar sem gera þarf vegna aðildar að fenginni niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB. Verði það mat stjórnvalda að það þjóni hagsmunum Íslands að ráðast í afmarkaðan undirbúning fyrr, vegna þess hve flókinn og tímafrekur hann er, þá yrði það háð sérstakri ákvörðun sem tekin yrði í samráði við Alþingi. Samkvæmt skýrslunni, sem var skrifuð í maí 2011, hafði þegar hafist undirbúningur að greiningu á því hvort þess muni gerast þörf.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:
Er rétt að kalla ferlið "aðlögunarferli" eða aðildarferli, þ.e. samningaferli? Með aðlögunarferli er átt við að aðlögun eigi sér stað áður en samningur um inngöngu í ESB er samþykktur. Hefur regluverk, stofnanastrúktur o.s.frv. verið aðlagað (þ.e. breytt) að ESB vegna umsóknarinnar? Eru áætlanir um að gera það fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela