Spurning

Hefur ESB krafið Ísland um aðlögun að regluverki sambandsins á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

ESB hefur sett fram kröfur um að íslensk stjórnvöld leggi fram áætlun um innleiðingu á lögum og reglum ESB á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar. Deilt er um hvort þessar kröfur feli í raun í sér kröfur um aukna aðlögun að regluverki ESB, áður en aðild hefur verið samþykkt. Sambandið gerði kröfur sínar kunnar í fylgibréfi með rýniskýrslu (e. screening report) sambandsins í september 2011. Íslensk stjórnvöld höfðu áður komið því á framfæri við ESB að þau muni ekki gera breytingar á stefnu sinni, stjórnsýslu eða löggjöf fyrr en aðildarsamningurinn hefur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar þetta er skrifað í byrjun desember 2011 er unnið að umræddri áætlun í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Evrópuvefurinn mun uppfæra svarið eftir þörfum.

***

Eins og sjá má í svari við spurningunni Hvort er Ísland í aðlögunar- eða viðræðuferli við ESB? getur Evrópusambandið krafist þess að umsóknarríki komi til móts við ákveðin viðmið (e. benchmarks) áður en viðræður um tiltekinn samningskafla hefjast eða ljúka. Í því getur falist aðlögun að regluverki sambandsins.


ESB hefur farið fram á það við íslensk stjórnvöld að þau leggi fram áætlun um hvernig Ísland ætli að innleiða lög og reglur ESB á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar.

Í fylgibréfi rýniskýrslu Evrópusambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun, sem var kynnt í byrjun september 2011, fer sambandið fram á að þess að íslensk stjórnvöld leggi fram áætlun um hvernig Ísland ætli að innleiða lög og reglur ESB á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning hefur farið fram en áður en til formlegrar aðildar kæmi, ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrði jákvæð. Fyrr geti samningaviðræður um málaflokkinn ekki hafist.

Íslensk stjórnvöld höfðu áður komið því á framfæri við ESB að landbúnaðarstefna Íslands og stjórnsýsla væri sniðin að innlendum aðstæðum og eðli og umfangi landbúnaðarins og því muni Ísland ekki gera breytingar á stefnu sinni, stjórnsýslu eða löggjöf fyrr en aðildarsamningurinn hefur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi. Hins vegar verði ráðist í allan nauðsynlegan undirbúning svo hægt sé, að fenginni jákvæðri niðurstöðu í þjóðaratkvæði, að gera breytingar á stefnu, stjórnsýslu og löggjöf tímanlega til þess að virða skuldbindingar við aðild.

Í rýniskýrslunni sjálfri er rætt um nauðsyn þess að Ísland leggi fram aðgerðaáætlun og lýsandi tímaáætlun. Slíkar áætlanir séu óhjákvæmilega grundvöllur aðildarviðræðna um landbúnað og dreifbýlisþróun. Þannig sé hægt að ganga úr skugga um að nauðsynlegar breytingar verði gerðar tímanlega og í samræmi við samningsrammann, einkum með tilliti til þeirrar afstöðu Íslands að gera ekki breytingar á stefnu sinni, stjórnsýslu eða löggjöf fyrr en aðildarsamningurinn hefur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

Í kjölfar birtingar skýrslunnar sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá sér yfirlýsingu þar sem segir að liggja þurfi ljósar fyrir að sú áætlunargerð sem ESB krefjist feli ekki í sér aðlögun né breytingar á lögum eða regluverki Íslands, áður en aðild hefur verið samþykkt. Þá sé ekki sjálfgefið að lögð sé fram áætlun um verkefni sem samningsaðilar hafa ekki rætt um né komist að samkomulagi um hvort henti Íslandi. Af þeim sökum telji sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nauðsynlegt að fulltrúar ESB skýri með fullnægjandi og tæmandi hætti hvað sé átt við með þeim skilyrðum sem fram koma í fylgibréfi sambandsins.

Bændasamtökin taka undir ummæli ráðherra og segja kröfur ESB um áætlanagerð vera kröfu um aðlögun að landbúnaðarstefnu sambandsins og að íslensk stjórnvöld geti ekki lengur vikið sér undan því að setja fram skýr samningsmarkmið um landbúnaðarmál. Í framhaldi af yfirlýsingu ráðherra bauðst framkvæmdastjóri ESB á sviði stækkunarmála, Štefan Füle, til að aðstoða ráðherrann og samstarfsfólk hans við að útbúa áætlun um hvernig megi laga stjórnsýslu í landbúnaði að lögum og reglum sambandsins. Til stóð að ráðherra færi til Brussel til fundar með Füle í vikunni 5.-9. desember 2011 en ferðinni var frestað þar sem ekki tókst að fá einnig fund með framkvæmdastjóra ESB á sviði landbúnaðarmála. Samkvæmt Ríkisútvarpinu frestast því vinna við umrædda aðgerðaáætlun, sem fer eins og áður sagði fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:
Er rétt að kalla ferlið "aðlögunarferli" eða aðildarferli þ.e. samningaferli. Með aðlögunarferli er átt við að aðlögun eigi sér stað áður en samningur um inngöngu í ESB er samþykktur. Hefur regluverk, stofnanastrúktur o.s.frv. verið aðlagað (þ.e. breytt) að ESB vegna umsóknarinnar. Eru áætlanir um að gera það fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.12.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hefur ESB krafið Ísland um aðlögun að regluverki sambandsins á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar?“. Evrópuvefurinn 9.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61379. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela