Spurning

Hvaða varanlegu undanþágur frá núgildandi sáttmálum, lögum og reglum og lögum sem kunna að vera sett í framtíðinni fékk Króatía í aðildarsamningi við Evrópusambandið?

Spyrjandi

Haraldur Ólafsson

Svar

Í samningi Króata um aðild að Evrópusambandinu er ekki að finna neitt ákvæði um algjörlega varanlega undanþágu frá sáttmálum, lögum og reglum sambandsins. Samið var um eina sérlausn, vegna sérstakra landafræðilegra aðstæðna í Króatíu, en hún er skilyrðisbundin. Af gögnum málsins verður ekki séð með óyggjandi hætti að Króatar hafi farið fram á fleiri sérlausnir eða varanlegar undanþágur í viðræðunum en það er þó ekki útilokað.

***

Króatar sóttu um aðild að Evrópusambandinu árið 2003 og stóðu viðræður yfir í sex ár, frá 2005 til 2011. Aðildarsamningur var samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu 22. janúar 2012 og fengu Króatar formlega inngöngu í sambandið, sem 28. aðildarríkið, 1. júlí 2013. Viðræðurnar voru skipulagðar með sama hætti og yfirstandandi aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Réttarreglum sambandsins, sem liggja viðræðunum til grundvallar, var skipt í 35 kafla en 33 þeirra voru viðfangsefni viðræðnanna sjálfra.

Í 23 samningsköflum innihéldu opinberar samningsafstöður Króata engin markmið um sérlausnir, undanþágur eða aðlögunartímabil. Í þeim féllust Króatar á regluverk Evrópusambandsins eins og það var á tilteknum degi og skuldbundu sig til að hafa lokið við innleiðingu á öllu regluverki sem félli undir viðkomandi kafla við aðild.

Í samningsafstöðum 9 kafla fóru Króatar fram á ýmiss konar tímabundnar undanþágur og aðlaganir að tilteknum reglum. Í sameiginlegum afstöðum Evrópusambandsins til þessara kafla og í aðildarsamningnum sjálfum má sjá að samið var um fjölmargar tímabundnar undanþágur og aðlaganir að reglum sambandsins sem heyra undir þessa kafla. Hér hefur þó ekki verið gerð nein úttekt á því að hve miklu leyti Króatar náðu markmiðum sínum hvað slíkar undanþágur og aðlaganir varðar.


Landakort af Króatíu og nágrannaríkjum. Hér sést hvar Bosnía og Hersegóvína teygir sig til hafs á stuttum kafla og skilur þar með syðsta odda Króatíu frá stærstum hluta landsins.

Við skoðun gagna málsins vekur athygli að ekki er alltaf gott að gera mun á því hvenær átt er við tímabundnar undanþágur og hvenær varanlegar undanþágur. Í báðum tilvikum er enska orðið derogation (ísl. frávik, undanþága) oftast notað en stundum einnig exemption (ísl. undanþága). Þannig kemur það til að mynda fram í sameiginlegum afstöðum Evrópusambandsins til tveggja kafla af köflunum níu, sem getið er hér að ofan, (kafli 13 um sjávarútvegsmál og kafli 16 um skattamál) að Evrópusambandið veiti því athygli að Króatar hafi dregið til baka beiðnir sínar um undanþágur frá tilteknum reglum (annars vegar um flokkun og merkingar sjávarafurða og hins vegar varðandi virðisaukaskatt). Ekki er hægt að fullyrða um það hvort þarna hafi verið dregnar til baka beiðnir um tímabundnar eða varanlegar undanþágur. Það hjálpar heldur ekki til að samningsafstöður Króata eru aðeins aðgengilegar á króatísku og hafði höfundur því ekki gagn af þeim nema með takmarkaðri aðstoð Google Translate.

Í einum samningskafla, kafla númer 12 um matvælaöryggi, dýra- og plöntuheilbrigði, virðist þó mega fullyrða að Króatar hafa farið fram á varanlega undanþágu eða sérlausn. Vegna sérstakra landfræðilegra aðstæðna í Króatíu, sem er skipt í tvö ótengd landsvæði með nesi sem tilheyrir Bosníu og Hersegóvínu og nær út í Adríahaf (sjá mynd að ofan), óskuðu króatísk stjórnvöld eftir undanþágu frá ákvæðum tilskipunar (nr. 97/78/EB) um meginreglur um skipulag dýraheilbrigðiseftirlits með afurðum sem fluttar eru inn til bandalagsins frá þriðju löndum.

Niðurstaða aðildarviðræðnanna um þetta atriði var sú að Evrópusambandið og Króatar sömdu um sérlausn. Samningsniðurstaðan lítur þannig út að annarri málsgrein var bætt við 1. grein umræddrar tilskipunar. Í henni kemur fram að á grundvelli undanþágu frá fyrstu málsgrein fyrstu greinar séu vörusendingar frá Króatíu, sem fara í gegnum svokallað Neum hlið (e. Neum corridor) í Bosníu og Hersegóvínu, til hins landsvæðis Króatíu, undanþegnar dýraheilbrigðiseftirliti. Í nýju málsgreininni eru jafnframt talin upp fjölmörg skilyrði undanþágunnar. Eitt þeirra (f)-liður annarrar málsgreinar) kveður á um að þar sem það sé nauðsynlegt skuli teknar ákvarðanir um að fresta eða draga undanþáguna til baka, í samræmi við tiltekin ákvæði. Undanþágan er því ekki bókstaflega varanleg þótt ekki sé hún heldur tímabundin, það er gildi í tiltekinn fyrirfram ákveðinn tíma. Samningsniðurstöðuna er þó í öllu falli óhætt að kalla sérlausn.

Í ofannefndum 16. kafla um skattamál er hugsanlega að finna annað dæmi um beiðni Króata um varanlega undanþágu en það kemur þó ekki skýrt fram í gögnunum. Beiðnin lýtur að því að alþjóðlegir farþegaflutningar verði áfram undanþegnir virðisaukaskatti (tilskipun nr. 2006/112/EC) eftir aðild. Undanþágan er veitt í aðildarsamningnum, svo lengi sem sama undanþága er einnig notuð af einhverju af þeim aðildarríkjum sem gengu í sambandið á undan Króatíu. Í þessum tilgangi var sérstakri grein (390 c)) bætt við tilskipun 2006/112 þar sem þetta kemur. Hér er því ekki heldur um að ræða varanlega undanþágu þar sem gildi hennar er skilyrt.

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.1.2013

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvaða varanlegu undanþágur frá núgildandi sáttmálum, lögum og reglum og lögum sem kunna að vera sett í framtíðinni fékk Króatía í aðildarsamningi við Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 25.1.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64187. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela