Spurning

Eru til dæmi um varanlegar undanþágur eins og já-sinnar vilja meina að við getum fengið í aðildarviðræðum við ESB?

Spyrjandi

Ingólfur D. Árnason

Svar

Til eru nokkur dæmi um að nýju aðildarríki að Evrópusambandinu hafi í aðildarsamningi verið veitt varanleg undanþága frá tiltekinni réttarreglu sambandsins. Dæmin eru fá og vísbendingar eru um að þeim fari fækkandi. Algengara er að komið sé til móts við mikilvæga hagsmuni nýs aðildarríkis með tímabundnum undanþágum eða sérlausnum.

***

Evrópusambandið leggur höfuðáherslu á að lagalegt samræmi sé sem mest á milli aðildarríkjanna og er þar af leiðandi ekki gjarnt á að veita nýjum aðildarríkjum varanlegar undanþágur (e. derogations) frá löggjöf sambandsins. Hins vegar er það staðreynd að aðstæður í umsóknarríkjum geta verið mjög ólíkar. Algengast er að komið sé til móts við mikilvæga hagsmuni nýrra aðildarríkja með tímabundnum undanþágum/aðlögunartímabilum og stundum hefur verið gripið til þess ráðs að búa til svokallaðar sérlausnir (e. special arrangements) sem eiga við á tilteknu sviði um tiltekið ríki.

Bæði hugtökin, undanþágur og sérlausnir, eru notuð um það þegar samið er um undantekningar frá skyldum umsóknarríkis til að fara að réttarreglum ESB á ákveðnum sviðum og er enginn sérstakur munur á hugtökunum í lagalegum skilningi. Um það má lesa nánar í svari við spurningunni Hver er munurinn á varanlegum undanþágum og sérlausnum í samningaviðræðum við ESB, í lagalegum skilningi?

Samningar um aðild nýrra ríkja að Evrópusambandinu hafa sömu lagalegu stöðu og stofnsáttmálar sambandsins. Sé samið um varanlega undanþágu frá tiltekinni löggjöf ESB í aðildarsamningi verður sú ákvörðun því ekki aftur tekin nema með samþykki allra aðildarríkjanna.


Í Svíþjóð er sala á munntóbaki enn leyfð þrátt fyrir almennt bann í löggjöf Evrópusambandsins.

Nokkur dæmi eru um að ESB hafi veitt varanlegar undanþágur frá réttarreglum sínum í aðildarviðræðum við umsóknarríki (hér er stuðst við upptalningu í svari þáverandi utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar frá árinu 2010). Við inngönguna í Evrópusambandið árið 1973 fékk Danmörk heimild til að viðhalda skilyrðum um fimm ára búsetu áður en hægt væri að festa kaup á sumarhúsum í landinu. Árið 2004 var Möltu veitt sambærileg undanþága varðandi kaup á húseignum á eyjunni, með vísan til takmarkaðs fjölda húseigna og takmarkaðs landrýmis. Í báðum tilvikum er um að ræða frávik frá meginreglunni um frjálst flæði fjármagns.

Annað dæmi um varanlega undanþágu er heimild Finnlands og Svíþjóðar til að viðhalda fyrirkomulagi sínu á ríkiseinkasölu áfengis við inngönguna í sambandið árið 1995. Viðskipti með munntóbak voru jafnframt leyfð áfram í Svíþjóð þrátt fyrir almennt bann í löggjöf Evrópusambandsins. Mörg ný aðildarríki ESB hafa þar að auki fengið undanþágur á sviði skatta og vörugjalda á ákveðnum mikilvægum vörum. Sem dæmi má nefna vörugjöld á ákveðnar víntegundir í Austurríki, Búlgaríu og Rúmeníu og tilteknar tegundir eldsneytis í Svíþjóð og Finnlandi.

Af ofansögðu má sjá að þess eru dæmi að nýju aðildarríki hafi verið veitt varanleg undanþága frá tilteknum reglum Evrópusambandsins í aðildarsamningi. Dæmin eru hins vegar fá og virðist fara fækkandi en aðeins eitt af síðustu þrettán ríkjum sem gengu í sambandið samdi um varanlega undanþágu í aðildarviðræðum. Ríkið var Malta og naut hún þar góðs af því að til var fordæmi fyrir sambærilegri undanþágu í aðildarsamningi Danmerkur.

Til eru önnur dæmi um að aðildarríki Evrópusambandsins hafi hlotið varanlega undanþágu frá tiltekinni réttarreglu sambandsins. Þær hafa jafnan verið veittar þegar breytingar hafa verið gerðar á stofnsáttmálum sambandsins, stundum í kjölfar þess að staðfestingu breytingarsáttmála hafði verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í viðkomandi aðildarríki.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.2.2014

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson og Þórhildur Hagalín. „Eru til dæmi um varanlegar undanþágur eins og já-sinnar vilja meina að við getum fengið í aðildarviðræðum við ESB? “. Evrópuvefurinn 28.2.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64911. (Skoðað 14.4.2024).

Höfundar

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá EvrópuvefnumÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela