Spurning

Er hægt að loka samningskafla í aðildarviðræðum við ESB án þess að umsóknarríki sé búið að uppfylla kröfur um upptöku regluverks og annað?

Spyrjandi

Pétur Harðarson

Svar

Í stuttu máli er svarið nei. Það er ekki hægt að loka samningskafla í aðildarviðræðum við ESB án þess að umsóknarríki sé búið að uppfylla kröfur um upptöku regluverks sambandsins og annað. Til grundvallar aðildarviðræðum við Evrópusambandið liggja réttarreglur sambandsins og að meginreglu þarf sérhvert umsóknarríki að innleiða þær í heild sinni. Ríki sem verður aðili að Evrópusambandinu þarf því að vera búið að ráðast í lagabreytingar og breytingar á stofnunum til að vera að fullu tilbúið á aðildardegi. Í aðildarviðræðum við Evrópusambandið er köflum lokað til bráðabirgða þegar umsóknarríki hefur innleitt regluverk viðkomandi kafla í eigin löggjöf eða getur sýnt fram á að það muni uppfylla kröfur sambandsins um laga- og stofnanabreytingar við aðild.

***

Grundvöllur aðildarviðræðna milli Evrópusambandsins og ríkja sem sótt hafa um aðild að sambandinu eru réttarreglur sambandsins (fr. acquis communautaire). Þær greinast í tvo hluta, annars vegar frumlöggjöf, svo sem sáttmálinn um Evrópusambandið og sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins sem og aðildarsamningar annarra ríkja, og hins vegar afleidda löggjöf, það eru tilskipanir, reglugerðir, ákvarðanir og þess háttar. Að meginreglu þarf sérhvert ríki, sem vill verða aðili að ESB, að innleiða sameiginlegt regluverk ESB í heild sinni í eigin löggjöf og skulu skilmálar aðildar og sú aðlögun að sáttmálum ESB sem fylgir aðild byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins (49. gr. sáttmálans um Evrópusambandið).


Kaflar eru opnaðir og lokað á svonefndum ríkjaráðstefnum. Frá síðustu ríkjaráðstefnu Íslands og ESB 18. desember 2012. Frá vinstri: Stefán Haukur Jóhannesson fyrrum aðalsamningamaður, Össur Skarphéðinsson fyrrum utanríkisráðherra, Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Brussel og Björg Thorarensen fyrrum varaformaður samninganefndar Íslands og formaður samningahóps um lagamál.

Til að sem mest lagalegt samræmi ríki innan sambandsins er Evrópusambandið ekki örlátt á undanþágur frá réttarreglum sínum í aðildarsamningum. Í viðræðunum leggur sambandið fyrst og fremst áherslu á að umsóknarríki sé sem best í stakk búið til að standa undir skuldbindingum aðildar þegar til hennar kemur. Í því getur falist að samið sé um sérstaka aðlögun að tilteknum reglum, tímabundnar undanþágur eða sérlausnir.

Evrópusambandið getur til að mynda farið fram á að umsóknarríki komi til móts við ákveðin viðmið eða skilyrði (e. benchmarks) áður en viðræður um tiltekinn samningskafla hefjast eða þeim lýkur. Í því getur falist aðlögun að regluverki sambandsins, á meðan á viðræðutímabilinu sjálfu stendur. Engum kafla er því lokað nema öll aðildarríki ESB séu sátt við frammistöðu umsóknarríkis í innleiðingu löggjafar sambandsins á tilteknu sviði eða hafi samþykkt áætlun umsóknarríkis um það með hvaða hætti það muni uppfylla lagabreytingar og breytingar á stofnunum við aðild. Slíkt er þó óháð þeim aðlögunartíma og undanþágum sem kann að semjast um í aðildarviðræðunum.

Ísland og Evrópusambandið komust að samkomulagi tiltölulega snemma í samningaviðræðunum um að Ísland mundi ekki ráðast í breytingar á stofnunum og þær lagabreytingar sem af aðild kynnu að leiða fyrr en að afstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Þess í stað skiluðu íslensk stjórnvöld tímasettum áætlunum um það með hvaða hætti tiltekin löggjöf yrði innleidd og stofnanir aðlagaðar að kröfum Evrópusambandsins, kæmi til aðildar Íslands að sambandinu. Íslensk stjórnvöld héldu því fram að eðlilegra væri að innleiða lög og reglur sambandsins, og breyta eða setja á fót stofnanir, sem eingöngu tengdust aðildinni eftir að fram hefði farið þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB. Ef upp hefðu komið tilvik sem kölluðu á ákveðnar breytingar fyrr, hefði verið brugðist við þeim í samráði við Alþingi.

Ellefu samningsköflum af þeim þrjátíu og þremur sem semja þarf um hafði verið lokað til bráðabirgða þegar gert var hlé á samningaviðræðum Íslands og ESB. Flestir þeirra kafla heyra undir EES-samninginn og efni þeirra þegar verið tekið upp í íslensk lög. Nánar er fjallað um hvaða kaflar heyra undir EES-samninginn í svari við spurningunni Hvaða samningskaflar, í viðræðunum við ESB, heyra undir EES-samninginn og hvað stendur út af?

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:
Er hægt að loka kafla ESB samningsins án þess að vera búinn að uppfylla kröfur hans um regluverk og annað?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.9.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Er hægt að loka samningskafla í aðildarviðræðum við ESB án þess að umsóknarríki sé búið að uppfylla kröfur um upptöku regluverks og annað?“. Evrópuvefurinn 27.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65917. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela