Spurning

Gæti samninganefnd Íslands samið um að hingað yrði ekki flutt inn lambakjöt frá Evrópu gengi Ísland í Evrópusambandið?

Spyrjandi

Jón Karl Axelsson Njarðvík

Svar

Ólíklegt er að Ísland gæti samið um varanlega undanþágu frá því að heimila innflutning á lambakjöti þar sem það er andstætt meginreglu Evrópuréttar um frjálsa vöruflutninga. – Í nýlegum bráðabirgðaniðurstöðum Eftirlitsstofnunar EFTA kemur fram að núgildandi bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti frá aðildarríkjum Evrópusambandsins brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði vöru. Það gæti því gerst að innflutningur á hráu kjöti frá aðildarríkjum Evrópusambandsins verði heimilaður óháð því hvort Ísland gangi í Evrópusambandið.

***

Erfitt er að spá fyrir um niðurstöður samninga á sviði landbúnaðar í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins, þar sem samningsafstaða Íslands liggur ekki fyrir og viðræður um efni samningskaflans eru ekki hafnar. Það verður þó að teljast ólíklegt að Ísland gæti samið um varanlega undanþágu frá því að heimila innflutning á lambakjöti eða öðru hráu ófrosnu kjöti frá aðildarríkjum ESB. Slík undanþága mundi brjóta gegn meginreglu Evrópuréttar um frjálsa vöruflutninga, sem felur bæði í sér bann við takmörkunum á innflutningi og lagningu gjalda á innfluttar vörur. Hugsanlegt er að samið yrði um tímabundnar undanþágur eða aðlögunarfresti, sem er mun algengara en varanlegar undanþágur í aðildarsamningum. Þá fá ríki frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf úr regluverki ESB eða til að afnema reglur sem ekki samræmast stofnsáttmálanum eða löggjöf sambandsins. Yfirleitt er um að ræða þriggja til sjö ára aðlögunartímabil en þó eru dæmi um allt að tíu til þrettán ára aðlögunartímabil.


Íslenska sauðkindin.

Innflutningur á hráu kjöti frá aðildarríkjum Evrópusambandsins til Íslands verður þó hugsanlega heimilaður óháð því hvort Ísland gangi í Evrópusambandið. Eins og staðan er í dag eru landbúnaðarmál undanskilin samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en á grundvelli hans hefur Ísland hins vegar innleitt stóran hluta matvælalöggjafar Evrópusambandsins. Við innleiðingu þessara reglna, sér í lagi reglugerðar (nr. 745/2004) um ráðstafanir varðandi innflutning afurða úr dýraríkinu til einkaneyslu, ákváðu íslensk stjórnvöld að viðhalda banni við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og skinni, með vísun í undanþáguákvæði sem finna má í 13. grein EES-samningsins. Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) voru ósammála áframhaldandi innflutningsbanni á hráu kjöti frá Evrópu og lögðu fram kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA sem tók málið fyrir.

Eftirlitsstofnunin óskaði eftir rökstuðningi íslenskra stjórnvalda fyrir innflutningsbanninu og skýringum á því hvers vegna ekki var gripið til vægari aðgerða. Rök íslenskra stjórnvalda eru þau að á Íslandi megi finna all nokkur dæmi um skaðlegar afleiðingar innflutnings á sauðfé og dýrahúðum frá því um miðja 18. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Þá sé íslenskt sauðfé viðkvæmt fyrir sjúkdómum og því stafi hætta af innfluttu hráu kjöti ef í því leynast sjúkdómar.

Bráðabirgðaniðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA er sú að bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti frá aðildarríkjum Evrópusambandsins brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði vöru. Þá er ekki tekið undir þær ástæður sem íslensk stjórnvöld gáfu fyrir ákvörðun sinni um innflutningsbannið og ályktaði stofnunin að bannið fæli í sér óeðlilega viðskiptahindrun. Þá gagnrýnir ESA að í málflutningi íslenskra stjórnvalda sé ekki að finna tiltekin dæmi um skaðsemi þess að flytja inn hrátt kjöt.

Óvissa ríkir nú um niðurstöðu málsins en íslensk stjórnvöld munu á næstu misserum skila andsvörum við bráðabirgðaniðurstöðu Eftirlitsstofnunarinnar. Í ljósi þeirra svara mun stofnunin ákveða hvort hún haldi málarekstrinum áfram og beri innleiðingu reglugerðarinnar (nr. 745/2004) hér á landi undir EFTA-dómstólinn. Svo gæti því farið að skuldbindingar Íslands á sviði EES-samstarfsins muni valda því að innflutningur á hráu kjöti frá aðildarríkjum Evrópusambandsins verði leyfður hér á landi.

Hvort sem það yrði vegna aðildar Íslands að ESB eða skuldbindinga á grundvelli EES-samningsins, sem bann við innflutningi á hráu kjöti yrði afnumið, má ætla að staða íslenskrar lambakjötsframleiðslu sé fremur góð. Evrópusambandið flytur ekki mikið út af lambakjöti þar sem fæst aðildarríkin eru sjálfum sér nóg um lambakjöt og flytja því inn lambakjöt í stórum stíl en ekki út. Af þessu hafa íslenskir bændur notið góðs en Ísland flytur tollfrjálst út 1.850 tonn af lambakjöti árlega til ríkja Evrópusambandsins.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela