Spurning

Hvernig eru tölur um stuðning við íslenskan landbúnað samanborið við ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Mörg ríki heimsins hafa löngum verið ófús að hleypa ódýrum erlendum búvörum hömlulaust á markað innanlands. Ýmiss konar beinn og óbeinn stuðningur við landbúnað tíðkast því víða á vegum hins opinbera, bæði frá neytendum og skattgreiðendum. Í svarinu er þessi aðstoð borin saman milli landa og svæða og eins eftir tíma á síðasta aldarfjórðungi. – Heildarstuðningur við landbúnað hefur minnkað verulega á þessu tímabili sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Á þann kvarða var hann einna mestur í byrjun tímabilsins í Noregi og á Íslandi en er þar nú litlu meiri en í flestum öðrum löndum. Stuðningurinn hefur einnig minnkað verulega nær alls staðar sem hlutfall af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarins, en er þó enn talsvert meiri í búverndarlöndum eins og Íslandi, Noregi og Sviss en í öðrum vestrænum ríkjum.

***

Frá fornu fari hefur landbúnaður verið stundaður um allan heim eftir því sem landkostir hafa hentað. Lengi vel sagði mismunur í landkostum fyrst og fremst til sín í fólksfjölda; hversu marga gat landið brauðfætt? Þetta hefur breyst með bættum samgöngum, viðskiptum og tækni. Þá reyndi á það að framleiðsla á landbúnaðarvörum kostar sums staðar miklu meiri vinnu en annars staðar auk þess sem vinnuafl er misjafnlega dýrt eftir löndum. Þetta sagði til sín í kostnaðarverði landbúnaðarvara sem varð lágt í löndum þar sem framleiðsla er auðveld og ódýr, eins og í Bandaríkjunum, Argentínu og á Nýja-Sjálandi, en hátt í löndum þar sem landgæði eru rýr að þessu leyti, svo sem á Íslandi, í Noregi og víðar. Og sums staðar fjölgaði fólki líka umfram það sem landið gat borið, til dæmis í Bretlandi allt frá því á átjándu öld en nýlendur og nágrannalönd bættu þá upp það sem á vantaði í matvörum.


Landbúnaður hefur verið stundaður um allan heim eftir því sem landkostir hafa hentað. Á myndinni sjást reykvísk börn við landbúnaðarstörf.

Mörg ríki heimsins hafa löngum verið ófús að hleypa ódýrum erlendum búvörum hömlulaust á markað innanlands. Ýmiss konar beinn og óbeinn stuðningur við landbúnað tíðkast því víða, bæði frá neytendum og skattgreiðendum.

Neytendur veita til dæmis stuðning með því að greiða hærra verð fyrir innlendar landbúnaðarvörur en innfluttar vörur mundu kosta við landamæri ríkisins (e. Boarder Price). Verðmuninum er haldið við með beinum innflutningshömlum eða verndartollum. Innfluttar vörur kosta þá meira en ella og seljast síður, en innlendar vörur seljast að sama skapi meira.

Skattgreiðendur styðja við landbúnað með hvers konar niðurgreiðslum á búvörum á neytendamarkaði innan lands eða utan. Eins eru aðföng til framleiðslunnar stundum greidd niður. Í seinni tíð hafa komið til sögu styrkir sem eru óháðir framleiðslu og er þá talað um eingreiðslur. Með þeirri aðferð hefur aðstoðin ekki áhrif á val afurða til framleiðslu, hvetur ekki til framleiðsluaukningar og raskar ekki samkeppni, hvorki heima fyrir né á heimsmarkaði. Evrópusambandið tók upp slíkar eingreiðslur árið 2003 (e. Single Payment Scheme) og hefur síðan aukið þátt þeirra í aðstoðinni smám saman, en hér á landi eru enn að mestu notaðir framleiðslutengdir styrkir.

Tafla 1 hér á eftir er byggð á gögnum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og sýnir áætlaðan heildarstuðning neytenda og skattgreiðenda við landbúnað (e. Total Support Estimate, TSE) á árunum 1986-2010 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (e. Gross Domestic Product; GDP).

Tafla 1. Yfirlit um heildarstuðning neytenda og skattgreiðenda við landbúnað í nokkrum ríkjum og ríkjaheildum 1986-2010, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (%).

1986 1991 1996 2001 2006 2010
OECD 2,4 1,9 1,4 1,1 1,0 0,9
Kanada 2,0 1,5 0,8 0,7 0,7 0,7
ESB 2,7 2,2 1,5 1,1 1,0 0,7
Ísland 5,0 4,4 2,0 1,7 1,5 1,0
Nýja-Sjáland 3,2 0,3 0,3 0,2 0,2 0,2
Noregur 3,6 3,2 2,0 1,4 1,0 1,0
Bandaríkin 1,4 1,1 0,9 0,9 0,7 0,9

Eftirfarandi atriði eru athyglisverðust í þessari töflu:
  • Hlutfallið er langhæst á Íslandi og í Noregi í upphafi, lækkar síðan örar þar en annars staðar og er sambærilegt við flest hin löndin árið 2010. (Talan fyrir Nýja-Sjáland 1986 virðist ekki marktæk og lækkar í 1,2% árið eftir).
  • Hlutfallið lækkar verulega í öllum tilvikum, heldur meira fyrri hluta tímabilsins. Minnst er lækkunin í Bandaríkjunum.
  • Lokatölurnar um 2010 sýna lítinn mun milli ríkja eða svæða og talsvert minni en í byrjun. Þróunin virðist því stefna að jöfnun hlutfallsins, að undanskildu Nýja-Sjálandi þar sem aðstoðin er hverfandi. Það á einnig við um Ástralíu sem er ekki tekin með hér.

Hafa þarf í huga að landbúnaður er mismikill þáttur í atvinnulífi og efnahag hinna ýmsu ríkja. Þannig er hlutur landbúnaðar í vergri landsframleiðslu víða miklu meiri en hér á landi.

Línuritið á mynd 1 hér á eftir tekur á þessu og sýnir hlut opinberrar aðstoðar í tekjum landbúnaðar, nánar tiltekið hlutfallslegan áætlaðan stuðning við framleiðendur miðað við vergar tekjur býlanna í heild (e. Percentage Producer Support Estimate, %PSE).



Smellið til að stækka línuritið.

Línuritið sýnir meðal annars eftirtalin atriði:
  • Hlutfallslegur stuðningur við bændur á Íslandi og í Noregi og Sviss samkvæmt þessum kvarða er talsvert meiri en að meðaltali í Evrópusambandinu og einnig í OECD sem öll þessi lönd tilheyra.
  • Búverndin hefur lækkað í þessum þremur löndum úr 70-80% af framleiðsluverðmæti í upphafi tímabilsins niður í sem næst 50-60% í lok þess, 25 árum síðar. Lækkunin er einna mest á Íslandi, úr 75% í 45%.
  • Á sama tíma hefur búvernd í löndum OECD og ESB lækkað úr tæplega 40% í um 20%. Línuritið sýnir að búvernd hefur alls staðar lækkað verulega á tímabilinu.

Þetta línurit sýnir aðeins þann stuðning við landbúnað sem rennur beint til bænda. Þá eru eftir tveir meginliðir í stuðningi skattgreiðenda og neytenda við landbúnað sem OECD gerir grein fyrir í skýrslum sínum:
  • Áætlaður stuðningur með opinberri þjónustu (e. General Services Support Estimate, GSSE) sem varðar landbúnað sérstaklega, svo sem rannsóknum og þróun, fræðslu, eftirliti, grunngerð (e. infrastructure), markaðsstarfi og eignarhaldskostnaði. Þessi kostnaður hér á landi er á við 5-10% af PSE.
  • Áætlaður stuðningur neytenda (e. Consumer Support Estimate, CSE) sem felst hér á landi einkum í því að neytendur þurfa að kaupa innlendar búvörur sem njóta tollverndar á mun hærra verði en innfluttar vörur mundu kosta án tolla. Vernduðu vörurnar eru einkum svínakjöt, kjúklingar og egg. OECD metur þennan stuðning sem 73% af framleiðsluverðmæti árið 1986 en sú tala lækkar smám saman með tímanum niður í 23% árið 2010.

Þessar tvær tegundir styrkja eru taldar með í áætluðum heildarstuðningi TSE sem fjallað var um fyrr í svarinu.

Höfundur þakkar Guðmundi Jónssyni prófessor aðstoð við gagnaöflun og umræður um efni svarsins.

Heimildir og lesefni:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.11.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig eru tölur um stuðning við íslenskan landbúnað samanborið við ESB?“. Evrópuvefurinn 24.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61323. (Skoðað 27.4.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela