Spurning

Hvernig hefur íslenskur landbúnaður þróast á síðustu áratugum í samanburði við landbúnað í ESB?

Spyrjandi

Haukur Logi Jóhannsson

Svar

Þróun landbúnaðar í ESB má lýsa í símskeytastíl sem hér segir: Mikil framleiðsluaukning eftir 1945 – verðlækkun – niðurgreiðslur – beingreiðslur til bænda – offramleiðsla – kvóti – stækkun og fækkun búa – sívaxandi útgjöld til kerfisins – styrkir til stórbænda – síðar dregið úr þeim – vitund um ómarkvisst og óskilvirkt kerfi – ný aðstoð miðuð við byggð í stað framleiðslumagns – tillit til umhverfismála og dreifbýlisþróunar – samheldni (cohesion). –– Íslenskur landbúnaður virðist vera kominn hálfa leið í þessari þróun. Á árunum 1945-1960 jókst framleiðslan ört þar til þjóðin varð sjálfri sér nóg um helstu búvörur. Næstu 20 árin færðist offramleiðsla í vöxt þar til farið var að hefta hana um 1980. Flestar ráðstafanir sem síðan hafa verið gerðar eru af sama toga og þær sem beitt hefur verið í ESB. Íslendingar hafa þó ekki beitt byggðatengdum styrkjum í eins miklum mæli í stað framleiðslutengingar og ekki lækkað tolla eða dregið úr innflutningshöftum á búvörum í sama mæli og í ESB.

***

Í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig hefur landbúnaðarstefna Evrópusambandsins þróast í tímans rás? er fjallað um það hvernig stuðningur við landbúnað hefur þróast í ESB frá upphafi. Í stuttu máli má draga þessa sögu saman sem hér segir:

Landbúnaðarframleiðsla jókst ört eftir síðari heimsstyrjöldina og verð lækkaði. Niðurgreiðslur í ferli vörunnar til neytenda voru teknar upp og færðust síðar yfir í greiðslur beint til bænda (beingreiðslur). Offramleiðsla leiddi til þess að settur var kvóti á flestar framleiðsluvörur. Jafnframt stækkuðu bú og þeim fækkaði. Útgjöld í kerfinu jukust mjög, meðal annars vegna (óþarfra) styrkja til stórbænda, þar til farið var að draga úr þeim. Margir áttuðu sig á að kerfið næði ekki tilgangi sínum. Farið var að miða styrkina við byggð í stað framleiðslumagns. Kvótar á mjólk voru hækkaðir til að lækka verð. Vaxandi tillit er nú tekið til umhverfismála, dýraverndar og dreifbýlisþróunar. Innleitt hefur verið sérstakt stefnumið, samheldni (cohesion), og fjármunum varið til að styðja við mannlíf og byggð sem stendur höllum fæti. Þetta tengist raunar ekki eingöngu landbúnaði.


Margt bendir til þess að íslenskur landbúnaður muni halda áfram að þróast jafnvel þótt stjórnvöld hafist ekki að. Slík þróun muni gerast hvort sem Ísland gerist aðili að ESB eða ekki. Myndin sýnir ítalska tenórsöngvaran Marcello Bedoni syngja fyrir breskar kýr.

Þegar við berum þróun mála hér við þessa mynd af þróuninni í ESB, virðist sem við séum aðeins komin hálfa leið eða svo. Stuðningur við landbúnað eftir seinni heimsstyrjöldina 1939-1945 var lengi vel framleiðsluhvetjandi og um 1960 var þjóðin orðin sjálfri sér nóg um helstu búvörur. Útflutningur á kindakjöti hófst á árunum fyrir 1960 og var styrktur með ýmsum aðferðum. Næstu 20 árin héldu stjórnvöld áfram að hvetja bændur til aukinnar framleiðslu með því að auka ræktun, byggja hús, bæta búfé og tæknivæðast. Offramleiðsla skapaðist eins og víða annars staðar, þar á meðal í löndum sem nú eru í ESB.

Brugðist var við offramleiðslunni með nýjum lögum um Framleiðsluráð frá 1979 og síðar með búvörulögum og búvörusamningum. Bændur fengu þá til dæmis ekki fullt verð fyrir framleiðsluna nema upp að ákveðnu marki og það fyrirkomulag þróaðist í nokkrum skrefum yfir í kvótakerfi með framseljanlegum kvóta. Þess konar kerfi leiða oft til stærri og færri framleiðslueininga og það gerðist einmitt smám saman í mjólkurframleiðslunni. Jafnframt dró smám saman úr útflutningi kindakjöts þar sem fjárhagslegar forsendur höfðu brostið, en það hefur aftur snúist við nýlega eins og kunnugt er. Sjónarmið landnýtingar og umhverfisverndar fóru að segja til sín í sauðfjárbúskap. Teknar voru upp beingreiðslur til bænda í stað niðurgreiðslna sem beindust að tilteknum stigum í ferli vörunnar. Eins og víða annars staðar höfðu þær hvorki reynst markvissar né skilvirkar. Einnig fór ríkisvaldið að kaupa upp framleiðslurétt í stórum stíl og auðvelda bændum að skipta um starf eða taka upp ný verkefni auk þess sem þeir voru hvattir til að hætta störfum um sjötugt eins og flestir aðrir landsmenn. Með öllum þessum aðgerðum tókst smám saman að útrýma offramleiðslu í landbúnaði og draga talsvert úr aukakostnaði af fjárhagsaðstoð við atvinnugreinina frá skattgreiðendum og neytendum.

Ólíklegt verður að teljast að þróunin stöðvist hér og nú. Neytendur eru óánægðir og fara fram á lægra verð á búvörum, frjálsari innflutning og lækkun verndartolla, en viðbrögð skattgreiðenda eru að vísu óljós. Ýmsir telja að stuðningur við landbúnaðinn geti nýst bændum og byggð mun betur en nú er. Margt bendir til að bæði aðstoð við búskap og byggð, og eins landbúnaðurinn sjálfur, muni halda áfram að þróast jafnvel þótt stjórnvöld hafist ekki að. Slík þróun muni gerast hvort sem Ísland gerist aðili að ESB eða ekki og sé raunar þegar hafin þó leynt fari, til dæmis með stækkun og fækkun kúabúa án þess að nokkur aðili lýsi því sem stefnu sinni. Mörg dæmi er að finna í sögunni um þess konar þróun án ætlunar. – En vissulega eru þeir líka til sem telja að íslenska landbúnaðarkerfið geti haldið áfram sem næst óbreytt.

Heimildir og mynd:

Upphaflegri spurningu er sinnt í fleiri svörum en hún var sem hér segir:

Hver hefur verið þróun landbúnaðar innan ESB-ríkja samanborið við þróun landbúnaðar á Íslandi? Hefur hagur bænda innan ESB vænkast við inngöngu í ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur11.11.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig hefur íslenskur landbúnaður þróast á síðustu áratugum í samanburði við landbúnað í ESB?“. Evrópuvefurinn 11.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61176. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela