Spurning

Í reglum ESB um aðild nýrra ríkja stendur feitletrað að ekki sé hægt að semja um lög og reglur sambandsins heldur sé aðeins verið að fara yfir hvernig og hvenær umsóknarríkið muni aðlaga sig að reglum sambandsins. Hefur Ísland fengið undanþágu frá þessari reglu?

Spyrjandi

Pétur Harðarson

Svar

Lagaákvæðið í sáttmálanum um Evrópusambandið, sem er grundvöllur samningaviðræðna við umsóknarríki, kveður hvorki á um að ekki sé hægt að semja um lög og reglur sambandsins né að aðildarviðræður snúist aðeins um aðlögun umsóknarríkis að reglum sambandsins. Á heimasíðu stækkunarsviðs framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins stendur hins vegar með feitu letri að réttarreglur Evrópusambandsins (fr. acquis communautaire) séu ekki umsemjanlegar. Þær upplýsingar hafa ekki lagagildi, þótt þær kunni að hafa sannleiksgildi, og því ekki um að ræða reglu sem Ísland hefði þurft að fá formlega undanþágu frá, til að eiga möguleika á að semja um efnisatriði í viðræðunum.

***

Lagalegur grundvöllur stækkunarstefnu Evrópusambandsins er 49. gr sáttmálans um Evrópusambandið. Orðrétt er hún svohljóðandi:
Sérhvert Evrópuríki, sem virðir þau gildi sem um getur í 2. gr. og einsetur sér að stuðla að þeim, getur sótt um að gerast aðili að sambandinu. Tilkynna skal Evrópuþinginu og þjóðþingunum um slíka umsókn. Umsóknarríkið skal senda umsókn sína til ráðsins, en það skal taka einróma ákvörðun, að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina og að fengnu samþykki Evrópuþingsins með stuðningi meirihluta allra þingmanna. Taka skal tillit til skilyrða sem leiðtogaráðið hefur samþykkt að þurfi að uppfylla vegna aðildar.

Skilmálar aðildar og sú aðlögun á sáttmálunum, sem sambandið byggir á, sem slík aðild felur í sér, skulu byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins. Þann samning skal leggja fyrir öll samningsríkin til fullgildingar í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar.

Eins og lesa má í annarri málsgrein kemur hvorki fram í sáttmálanum að ekki sé hægt að semja um lög og reglur sambandsins né að aðildarviðræður snúist aðeins um aðlögun umsóknarríkis að reglum sambandsins. Þvert á móti segir í ákvæðinu að í samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkis skulu koma fram „[s]kilmálar aðildar og sú aðlögun á sáttmálunum [...], sem slík aðild felur í sér...“ – vel að merkja aðlögun á en ekki sáttmálunum. Lagalega séð er því ekkert sem útilokar að hægt sé að semja um réttarreglur sambandsins í aðildarviðræðum, jafnvel að samið væri um varanlegar undanþágur frá tilteknum reglum eða einhvers konar sérlausnir til lengri eða skemmri tíma.


Samningaborð.

Á hinn bóginn liggur ljóst fyrir að Evrópusambandið er ekki örlátt á undanþágur frá reglum sínum í aðildarviðræðum við ný ríki. Fyrir því eru góð og gild rök því einsleitt lagaumhverfi er iðulega markmiðið með samstarfi Evrópusambandsríkja á þeim sviðum sem til þess er stofnað. Þessi staðreynd endurspeglast í því sem fram kemur á heimasíðu stækkunarsviðs framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem teknar eru saman upplýsingar um skilyrði aðildar að sambandinu. Þar segir að í aðildarviðræðum sé samið um það hvernig og hvenær umsóknarríki tekur upp, beitir og framkvæmir gildandi réttarreglur sambandsins. Reglurnar skiptist í 35 ólík stefnusvið (samningskafla) og þær séu ekki umsemjanlegar. Stundum sé þó samið um aðlögunartímabil umsóknarríkis að tilteknum reglum.

Upplýsingarnar á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar hafa ekki lagalegt gildi en þar með er ekki sagt að þær hafi ekki eitthvert sannleiksgildi. Í öllu falli bera þær almennri samningsafstöðu framkvæmdastjórnarinnar glöggt vitni. Þegar liggur fyrir, út frá opinberum samningsmarkmiðum Íslands, að á það mun reyna í aðildarviðræðunum hvort réttarreglur sambandsins séu í reynd óumsemjanlegar.

Við þetta má bæta að Evrópuvefurinn vinnur að úttekt á dæmum þess að umsóknarríki hafi fengið varanlegar undanþágur frá réttarreglum sambandsins eða samið um varanlegar sérlausnir í aðildarviðræðum. Tengill í svarið verður settur hingað þegar það hefur verið birt.

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Nú stendur feitletrað í reglum ESB um aðild nýrra rikja að ekki sé hægt að semja um innihald kafla samningsins heldur sé aðeins verið að fara yfir hvernig og hvenær ríkið muni aðlaga sig að reglum sambandsins. Hefur Ísland fengið undanþágu frá þessari reglu eða erum við í aðlögunarviðræðum við ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.4.2013

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Í reglum ESB um aðild nýrra ríkja stendur feitletrað að ekki sé hægt að semja um lög og reglur sambandsins heldur sé aðeins verið að fara yfir hvernig og hvenær umsóknarríkið muni aðlaga sig að reglum sambandsins. Hefur Ísland fengið undanþágu frá þessari reglu?“. Evrópuvefurinn 12.4.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65071. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela