Spurning

Hver eru rökin fyrir því að hætta við aðildarumsóknina áður en við sjáum aðildarsamninginn?

Spyrjandi

Kolbrún Tara

Svar

Helstu rökin sem færð hafa verið fyrir því að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið verði hætt eða þeim frestað eru þau að sambandið eigi við mikla erfiðleika að glíma og forsendur umsóknarinnar hafi því breyst. Viðræðurnar hafi tekið lengri tíma og kostað meira en upphaflega var áætlað og þær njóti lítils stuðnings. Því hefur einnig verið haldið fram að nú þegar liggi fyrir hvernig samningurinn muni líta út, engar undanþágur eða sérlausnir standi til boða og því sé tilgangslaust að halda viðræðunum til streitu. Þá sýni Icesave-málið og makríldeilan hvernig ESB beiti sér gegn Íslandi.

***

Þann 16. júlí 2009 ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum aðildarviðræðum yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamninginn. Aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu hafa staðið yfir frá 17. júní 2010. Síðan þá hafa nokkrar tillögur til þingsályktunar verið lagðar fram á Alþingi þess efnis að hlé verði gert á viðræðunum og þær ekki hafnar aftur fyrr en að fengnu samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu svari verður farið yfir þau rök sem andstæðingar og talsmenn aðildarviðræðnanna hafa fært fyrir máli sínu á Alþingi í tengslum við þessar tillögur.


Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa verið í forsvari aðildarumsóknarinnar.

Rökin sem andstæðingar aðildarviðræðnanna hafa lagt fram eru fyrst og fremst þau að aðstæður í Evrópu hafa breyst frá því Alþingi samþykkti aðildarumsóknina árið 2009. Evrópusambandið standi nú frammi fyrir miklum innbyrðis erfiðleikum, ekki síst löndin á evrusvæðinu. Endurskoðun á starfsháttum og stefnu sambandsins, í átt að enn meiri samruna, sé óumflýjanleg og muni taka langan tíma. Því sé óskynsamlegt af hálfu Íslands að halda umsóknarferlinu áfram á meðan ESB glímir við þessi stóru vandamál. Þá halda andstæðingar aðildarviðræðnanna því fram að nú þegar sé ljóst hvað felist í mögulegri aðild Íslands að ESB, engar varanlegar sérlausnir standi til boða og því þjóni það engum tilgangi að halda viðræðunum áfram.

Andstæðingar umsóknarinnar hafa einnig bent á að viðræðurnar hafi tekið mun lengri tíma en áætlað var í upphafi en samkvæmt kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB, sem fylgdi meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis, var gert ráð fyrir að aðildarviðræðurnar mundu taka um það bil 18 mánuði og að þeim gæti verið lokið um mitt ár 2011. Þar af leiðandi muni kostnaður við viðræðurnar verða hærri en upphaflega var lagt upp með en gert var ráð fyrir að beinn kostnaður yrði 990 milljónir króna á tímabilinu 2009-2012. Þar að auki njóti umsóknin lítils stuðnings og að mjög naumur meirihluti hafi verið fyrir umsókninni þegar hún var samþykkt á Alþingi árið 2009. Atkvæði féllu þannig að 33 þingmenn sögðu já við aðildarumsókninni en 28 sögðu nei, tveir þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Jafnframt hafi sumir þingmenn sem greiddu atkvæði með umsókninni viðrað efasemdir sínar um mögulega aðild Íslands að sambandinu í atkvæðaskýringum sínum.

Andstæðingar aðildarumsóknarinnar hafa enn fremur bent á Icesave-málið og makríldeiluna sem ástæður fyrir því að slíta eigi aðildarviðræðunum. Deilurnar sýni að framkoma Evrópusambandsins gagnvart Íslandi sé langt frá því að vera sambandinu til sóma, það sjáist best á því að ESB hafi krafist meðalgöngu í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Ítarlega umfjöllun um þetta atriði er að finna í svari við spurningunni Af hverju vill framkvæmdastjórn ESB gerast aðili að málarekstri eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi?

Talsmenn aðildarumsóknarinnar á Alþingi hafa svarað tillögum þess efnis að gert verði hlé á viðræðunum eða þeim slitið, á þann veg að misráðið sé að hætta í miðju aðildarferli áður en niðurstöður viðræðnanna liggi fyrir. Ríkisstjórnin vilji ekki taka burtu rétt þjóðarinnar til að kjósa um fullmótaðan aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Án aðildarsamnings sé erfitt að taka upplýsta ákvörðun um mögulega aðild Íslands að ESB og umsóknin hafi verið samþykkt með meirihluta á Alþingi. Þá væri það óábyrgt af hálfu Íslands að hætta aðildarviðræðunum á þessari stundu því það gæti skaðað orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.


Staða aðildarviðræðna Íslands og ESB eins og hún leit út í desember 2012.

Talsmenn umsóknarinnar hafa viðurkennt að aðildarviðræður Íslands og ESB hafi vissulega dregist á langinn en benda jafnan á að stórir áfangar hafi náðst og nú séu viðræður hafnar um 27 af þeim 33 samningsköflum sem semja þarf um. Nauðsynlegt sé að kanna það til hlýtar hvort varanlegar undanþágur eða sérlausnir standi til boða í mikilvægum málaflokkum og óráðlegt sé að hætta áður en niðurstaða fáist í öllum köflum. Í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til Alþingis 2011-2012 er gert ráð fyrir að viðræðurnar muni standa nokkuð fram yfir kosningar 2013. Hvað kostnað viðræðnanna varðar segir í skýrslunni að kostnaðaráætlunin sem slík hafi staðist en þó þannig að kostnaður hafi orðið minni á fyrri hluta tímabilsins en meiri á síðari hluta þess. Ljóst sé að gera þurfi nýja áætlun vegna kostnaðar sem muni falla til eftir árslok 2012.

Í tengslum við Icesave-málið hafa talsmenn umsóknarinnar lagt áherslu á að deilan sé á milli Íslands og Bretlands annars vegar og Íslands og Hollands hins vegar og þessi tvö mál séu aðskilin aðildarviðræðunum. Nánari umfjöllun um tengsl Icesave-deilunnar og ESB er að finna í svari við spurningunni Tengist Icesave ESB á einhvern hátt? Ljóst þykir á hinn bóginn að til markíldeilunnar má rekja tafir sem orðið hafa á viðræðum Íslands og ESB í sjávarútvegsmálum. Nánar er fjallað um makríldeiluna í svari við spurningunni Mundi ESB-aðild breyta því hvernig tekið yrði á því ef nýr fiskistofn gengi inn í íslenska fiskveiðilögsögu? Hefði verið betra eða verra í núverandi makríldeilu að vera aðili að ESB?

Samkvæmt fréttatilkynningu ríkistjórnarinnar frá 14. janúar síðastliðnum var samþykkt á fundi ráðherranefndar um Evrópumál að breyta meðferð aðildarviðræðnanna fram yfir komandi Alþingiskosningar. Samkomulagið felur í sér að hægt verður á undirbúningi samningaviðræðna og ekki unnið frekar að samningsafstöðu Íslands í þeim fjórum köflum sem útaf standa. Þetta eru kaflarnir um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, staðfesturétt og fjárfestingar. Embættismenn Evrópusambandsins og samninganefnd Íslands munu halda áfram vinnu að þeim köflum sem eru með einhverjum hætti í gangi.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Björn Bjarnason 19.1.2013

Þessi upptalning á mótbárum við því að halda áfram viðræðum er ekki fullnægjandi. Helsta röksemdin gegn því að ljúka viðræðunum með sameiginlegri niðurstöðu er að það tekst ekki án þess að Íslendingar slái af kröfum sem snerta lífshagsmuni þeirra á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Með öllu er ástæðulaust að gera það til þess eins að þjóðin felli niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tal um að Íslendingar fái varanlegar sérlausnir á þessum sviðum er álíka haldlaust og spádómar um að unnt yrði að ljúka aðildarviðræðunum á 18 mánuðum.

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson 22.1.2013

Sæll Björn og takk fyrir þessa ábendingu.

Ég hef nú lagað ágripið og textann í samræmi við ábendingu þína og bætt við að andstæðingar aðildarsamningsins hafi einnig haldið því fram að nú þegar sé ljóst hvað felist í mögulegum aðildarsamningi Íslands og ESB og engar varanlegar sérlausnir standi til boða.