Spurning

Hvenær er talið að aðildarsamningurinn verði kláraður? Er það eitthvað vitað?

Spyrjandi

Katrín

Svar

Þegar þetta svar er skrifað, í mars 2013, er með öllu óljóst hvenær eða hvort samningur um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði kláraður. Fyrir liggur að aðildarviðræðunum mun ekki ljúka á kjörtímabili ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, eins og stefnt var að í upphafi, en aðeins er rúmur mánuður eftir af kjörtímabilinu.


Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandins á fundi í Brussel árið 2010.

Staða viðræðnanna nú er raunar talsvert langt frá markmiðum Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, sem hefur viðræðurnar á sinni könnu. Í skýrslu ráðherrans um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2012, var sett fram það markmið að fyrir lok ársins 2012 yrði búið að opna alla samningskaflana 33. Sex kaflar voru hins vegar enn óopnaðir þegar ríkisstjórnin ákvað, þann 14. janúar 2013, að hægja á viðræðunum fram yfir komandi þingkosningar og opna ekki fleiri kafla fyrr en að þeim loknum. Þeirra á meðal eru hinir títtnefndu „erfiðu kaflar“ um landbúnað og sjávarútveg sem og kaflarnir um staðfesturétt og þjónustufrelsi, frjálsa fjármagnsflutninga, matvælaöryggi og dóms- og innanríkismál. Um það má lesa nánar í svari við spurningunni Er einhver ástæða fyrir því að einstakir kaflar eru opnaðir á undan öðrum í samningaviðræðum ESB og Íslands? Hvers vegna á til dæmis enn eftir að opna veigamikla kafla, svo sem um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?

Kosningar til Alþingis munu fara fram þann 27. apríl næstkomandi. Skiptar skoðanir eru um það meðal flokkanna í framboði hvort halda skuli áfram viðræðunum við Evrópusambandið og kemur það í hlut nýs þings að ákveða örlög aðildarumsóknarinnar. Verði fyrir því meirihluti á þingi að ljúka viðræðunum er þó óvíst hvenær aðildarsamningurinn lægi fyrir. Ísland á enn eftir að móta og leggja fram samningsafstöðu sína í fjórum af ofannefndum sex köflum, sem ekki hafa verið opnaðir; köflunum um landbúnað, sjávarútveg, frjálsa fjármagnsflutninga og staðfesturétt. Hvað sjávarútvegskaflann varðar þá hefur Evrópusambandið enn ekki lokið við rýniskýrslu sína, sem er forsenda þess að viðræður um kaflann geti hafist. Þær tafir má meðal annars rekja til yfirstandandi endurskoðunar sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og makríldeilunnar. Þar að auki á enn eftir að ljúka viðræðum um 16 kafla af þeim 27 samningsköflum sem hafa verið opnaðir (sjá yfirlit utanríkisráðuneytisins yfir stöðu viðræðnanna). Þótt ellefu samningsköflum hafi verið lokað er því ljóst að nóg á eftir að semja um ennþá.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela