Spurning

Hver er staða Íslands ef við hættum viðræðum við ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Ef íslensk stjórnvöld ákveða að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka, eða gera ótímabundið hlé á viðræðunum, mun staða Íslands vera óbreytt frá því sem nú er. EES-samningurinn héldi gildi sínu og yrði áfram helsta stoðin í samskiptum Íslands við Evrópusambandið en með honum hefur Ísland aðgang að innri markaði ESB. Í raun væri Ísland í sömu stöðu og ef viðræðurnar hefðu aldrei verið hafnar eða ef meirihluti þjóðarinnar hafnaði aðildarsamningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eini munurinn er sá að ef viðræðum yrði slitið þá lægi ekki fyrir nein endanleg niðurstaða úr samningaviðræðunum. Ítarlegri umfjöllun um rökin sem færð hafa verið fyrir því að hætta aðildarviðræðunum má finna í svari við spurningunni Hver eru rökin fyrir því að hætta við aðildarumsóknina áður en við sjáum aðildarsamninginn?


Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel árið 2011.

Ekki er við öðru að búast en að aðildarríki Evrópusambandsins mundu bera virðingu fyrir ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að slíta viðræðunum, ef til þess kæmi, enda er það pólitísk ákvörðun hvers umsóknarríkis fyrir sig hvort það gerist aðili að sambandinu eður ei. Kysu íslensk stjórnvöld að sækja um aðild á nýjan leik mundi sambandið væntanlega líta svo á að sú umsókn nyti stuðnings á Íslandi og aðildarferlið yrði hafið á nýjan leik.

Þegar þetta svar er skrifað hefur verið hægt á viðræðunum fram að kosningum til Alþingis og ekki verður unnið frekar að mótun samningsafstöðu Íslands í þeim köflum sem eru óopnaðir. Enn á eftir að opna sex kafla af 33. Þeir eru 12. kafli um matvælaöryggi, 24. kafli um dóms- og innanríkismál, 11. kafli um landbúnað og dreifbýlisþróun, 13. kafli um sjávarútveg, 3. kafli, um staðfesturétt og þjónustufrelsi og 4. kafli um frjálsa fjármagnsflutninga. Tveir síðastnefndu kaflarnir tengjast báðir kaflanum um sjávarútveg. Vinna heldur þó áfram í þeim sextán köflum sem enn standa opnir. Þessar breytingar hafa ekki áhrif á þá 11 samningskafla sem búið er að loka. Ákvarðanir um áframhald aðildarumsóknarinnar verða í höndum næstu ríkisstjórnar.

Afturkalli Ísland aðildarumsóknina áður en aðildarferlinu lýkur væri það einsdæmi líkt og fjallað er um í svari við spurningunni Hafa einhver ríki afturkallað umsókn að ESB áður en aðildarferlinu lýkur?

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela