Spurning

Hversu margir íslenskir embættismenn starfa á vettvangi Evrópumála í tengslum við EES-samninginn? Hver yrði heildarfjölgun starfsmanna, ef Ísland gengi í ESB?

Spyrjandi

Elvar Örn Arason

Svar

Stór hluti af vinnu íslenskrar stjórnsýslu tengist innleiðingu og framkvæmd á Evrópulöggjöf í gegnum aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það má því segja að flestir embættismenn og starfsmenn íslenskra ráðuneyta og stjórnsýslunnar starfi að meira eða minna leyti á vettvangi Evrópumála í tengslum við EES-samninginn. Einu embættismennirnir sem hafa enga beina aðkomu að málefnum EES eru þeir sem starfa á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og öðrum sviðum sem eru undanskilin EES-samningnum, líkt og fjallað er um í svari við spurningunni Hvað er undanskilið í EES-samningnum?


Óþekkti embættismaðurinn eftir Magnús Tómasson.

Aðild nýrra ríkja að Evrópusambandinu kallar iðulega á aukinn fjölda starfsmanna hjá stofnunum sambandsins, sem og fjölgun starfsmanna í stjórnsýslu hins nýja aðildarríkis. Fjölgun starfsmanna í stofnunum sambandsins fer yfirleitt eftir stærð nýja aðildarríkisins en þrjú viðmið liggja til grundvallar: a) mannfjöldatölur, b) fjöldi þingmanna á Evrópuþinginu og c) atkvæðavægi í ráðinu. Seinni viðmiðin tvö eru til umfjöllunar í samningskaflanum um stofnanir (kafli 34) en sá kafli hefur ekki verið tekinn fyrir í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið, það er iðulega gert í lok samningaviðræðnanna. Það liggur því enn ekki fyrir hve mikið Evrópusambandið muni fjölga starfsfólki í stofnunum sínum til þess að mæta auknu álagi og skuldbindingum sínum gagnvart Íslandi, svo sem varðandi þýðingar á skjölum, túlkun á fundum og ýmislegt fleira.

Ljóst er að aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi þýða að fleiri starfsmenn íslenskrar stjórnsýslu mundu starfa á vettvangi Evrópumála en nú er í tengslum við EES-samninginn. Í einhverjum tilvikum þyrfti að koma til umfangsmikil þjálfun starfsfólks en í öðrum tilvikum þyrfti að bæta við starfsmönnum. Ætla má að fjölga þyrfti starfsfólki til dæmis til að auka stjórnsýslugetu sveitafélaga og Tollstjóraembættisins og koma þyrfti á fót viðeigandi stjórnsýsluumgjörð til halda utan um sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB, svo eitthvað sé nefnt. Þá má geta þess að í flestum aðildarríkjum sambandsins eru starfandi sérstakar þingnefndir um Evrópumál á þjóðþingunum. Ómögulegt er hins vegar að segja til um það á þessu stigi máls hver fjölgun starfsmanna íslenskrar stjórnsýslu yrði vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Framkvæmdastjórn ESB hefur bent á að íslenska stjórnsýslan sé skilvirk og vel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem fylgja aðild að sambandinu. Engu að síður telur hún að styrkja þurfi stjórnsýsluna á vissum sviðum einkum þeim sem tengjast landbúnaði, byggðamálum og tollamálum.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.2.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hversu margir íslenskir embættismenn starfa á vettvangi Evrópumála í tengslum við EES-samninginn? Hver yrði heildarfjölgun starfsmanna, ef Ísland gengi í ESB?“. Evrópuvefurinn 15.2.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63968. (Skoðað 20.4.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela