Spurning

Hafa einhver ríki afturkallað umsókn að ESB áður en aðildarferlinu lýkur?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Til þessa hefur ekkert umsóknarríki formlega slitið aðildarviðræðum við Evrópusambandið eftir að hið eiginlega aðildarferli hófst. Öllum aðildarviðræðum hefur verið lokið með undirritun aðildarsamnings, burt séð frá því hvort ríkin hafi síðan ákveðið að gerast aðili að sambandinu eða ekki. Nokkur dæmi eru þó um að ríki hafi dregið aðildarumsóknir sínar til baka áður en aðildarviðræður hófust. Noregur, Írland og Danmörk drógu til dæmis aðildarumsóknir sínar til baka árið 1963 og aftur árið 1967. Það gerðist í kjölfar þess að þáverandi Frakklandsforseti, Charles De Gaulle, beitti neitunarvaldi gegn umsókn Bretlands. Vegna sterkra efnahagslegra tengsla við Bretland sáu ríkin þrjú ekki ástæðu til að halda umsókn sinni til streitu ef Bretar fengju ekki að ganga í sambandið.


Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins á Alþingi árið 2011.

Tvö dæmi eru um að umsóknarríki hafi gert hlé á aðildarviðræðum sínum við sambandið. Annars vegar Malta, sem gerði hlé á viðræðum við sambandið í tvö ár áður en hún hóf viðræður aftur í umboði nýrrar ríkisstjórnar, og hins vegar Sviss, sem frysti aðildarumsókn sína eftir að EES-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1993. Umsóknin er formlega séð ennþá opin þó ekkert hafi verið unnið í henni í tvo áratugi.

Evrópusambandið hefur einnig gert hlé á viðræðum við umsóknarríki að eigin frumkvæði. Það gerði sambandið um nokkurra mánaða skeið árið 2009 í aðildarviðræðunum við Króatíu vegna landamæradeilu milli Króata og Slóvena. Viðræður hófust að nýju eftir að löndin tvö komust að samkomulagi sín á milli. Þá hefur ekkert aðildarríki gengið úr Evrópusambandinu hingað til þótt slíkt hafi komið til umræðu í ýmsum aðildarríkjum. Úrsögn Grænlands árið 1985 er eina dæmi þess að ríki hafi yfirgefið sambandið en sú úrsögn jafngilti hins vegar ekki úrsögn aðildarríkis þar sem Grænland varð aðili að ESB sem hluti af Danmörku. Ítarlegri umfjöllun um tilvik Grænlands er að finna í svari við spurningunni Geta aðildarríki ESB gengið úr sambandinu?

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.3.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hafa einhver ríki afturkallað umsókn að ESB áður en aðildarferlinu lýkur?“. Evrópuvefurinn 15.3.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64746. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela