Spurning

Hefur almenningur einhver áhrif á samningaviðræðurnar við ESB eða ákveður Alþingi og utanríkisráðherra alfarið hvernig þeim mun ljúka?

Spyrjandi

Kormákur Marðarson

Svar

Almenningur hefur enga formlega möguleika til að hafa áhrif á samningaviðræðurnar við Evrópusambandið meðan á þeim stendur. Þegar viðræðunum lýkur mun þjóðin hins vegar taka afstöðu til aðildar í þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi niðurstöðu samningaviðræðnanna, það er að segja þeirra skilyrða sem aðild mundu fylgja.

***

Að samningaviðræðunum koma ýmsir fulltrúar almennings, jafnt kjörnir fulltrúar á Alþingi og í ríkisstjórn sem og forsvarsmenn hagsmunasamtaka og félagasamtaka.

Í samningahópunum tíu, sem settir voru á fót um afmörkuð efnissvið viðræðnanna, sitja til að mynda fulltrúar hagsmunaaðila og félagasamtaka eins og Alþýðusambands Íslands, Bændasamtakanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtaka iðnaðarins og Neytendasamtakanna, svo fáein dæmi séu nefnd, auk margvíslegra sérfræðinga. Þessir hópar leggja mat á hagsmuni Íslands á sínum sviðum og gera tillögu að samningsafstöðu Íslands.


Frá fyrsta fundi samninganefndar Íslands í Þjóðmenningarhúsinu 11. nóvember 2009.

Í svonefndum samráðshópi í tengslum við viðræðurnar sitja einnig fulltrúar almennings. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu utanríkisráðuneytisins var markmiðið með skipan hópsins „að tryggja enn frekar áhrif ólíkra einstaklinga og þjóðfélagshópa á viðræðurnar... Við val á fulltrúum í hópinn var lögð sérstök áhersla á kynjajafnvægi, jafnvægi á milli landshluta, höfuðborgarsvæðis og þéttbýlis, sem og á andstæð sjónarmið varðandi aðildarumsóknina.“ Samráðshópurinn hefur þó hvorki aðkomu að samningaviðræðunum sem slíkum né mótun samningsmarkmiða Íslands heldur er meginhlutverk hans „að miðla upplýsingum til landsmanna og stuðla þannig að málefnalegri umræðu um hagsmuni Íslands í viðræðunum og áhrif mögulegrar aðildar Íslands.“

Aðildarviðræðurnar eru á stjórnskipulegri ábyrgð utanríkisráðherra en aðalsamningamaður stýrir aðildarviðræðunum í umboði hans og stjórnar starfi samninganefndar. Um skipulag viðræðnanna segir nánar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins:
Uppbygging viðræðna gerir ráð fyrir að meginþungi þeirra hvíli á samninganefnd Íslands undir forustu aðalsamningamanns en endanlegar ákvarðanir í aðildarviðræðunum eru í höndum ríkisstjórnar. Í því felst meðal annars að ákvarðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum eru samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli.

...

Alþingi kemur að ferlinu á öllum stigum þess. Í beinni aðkomu utanríkismálanefndar að ferlinu felst meðal annars að hún á reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd Íslands og eftir atvikum ráðherrum, haft er samráð við nefndina áður en samningsafstaða Íslands á einstökum sviðum er samþykkt og reglulegir upplýsinga- og samráðsfundir eru haldnir um framvindu viðræðna og opnun og lokun einstakra samningskafla.

Niðurstaða viðræðnanna mun þó að sjálfsögðu ekki ráðast alfarið af vilja Alþingis og utanríkisráðherra frekar en venja er þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu – eða yfirhöfuð þegar tveir aðildar setjast að samningaborði. Eins og áður sagði mun þjóðin síðan fá tækifæri til að taka afstöðu til samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en um álitamál í því sambandi er fjallað í svari við spurningunni Verða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um væntanlegan aðildarsamning Íslands að ESB ekki örugglega bindandi?

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela