Getur almenningur einhvers staðar fylgst með samningaferlinu við Evrópusambandið?
Spyrjandi
Kormákur Marðarson
Svar
Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, viðræður.is, er að finna margvíslegan fróðleik tengdan samningaferlinu. Á meðal þess efnis sem þar ber hæst eru:- Formleg gögn eins og umsókn Íslands og álit meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis á umsókninni.
- Ýmis gögn Evrópusambandsins varðandi viðræðurnar svo sem álit og ályktanir, framvinduskýrslur og svonefndar rýniskýrslur.
- Almennar upplýsingar um samningaferlið, skipulag viðræðnanna af Íslands hálfu og stöðu viðræðnanna.
- Upplýsingar um samsetningu samninganefndarinnar, samningahópa og samráðshópsins.
- Svör íslenskra stjórnvalda við rúmlega 2500 spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem voru hluti af mati sambandsins á getu Íslands til að verða aðildarríki ESB.
- Frásagnir af fundum samninganefndar, samningahópa og samráðshópsins.
- Staðreyndablöð um hvern og einn samningskafla.
- Samningsafstöður Íslands í þeim köflum sem þær liggja fyrir.
- Ýmis frekari gögn flokkuð eftir samningsköflum.
Meiri hlutinn leggur mikla áherslu á að það skipulag sem viðhaft verður taki tillit til þeirra meginsjónarmiða sem hann hefur sett fram um gegnsæi og miðlun upplýsinga um ESB sem slíkt, möguleg áhrif aðildar að sambandinu og um gang aðildarviðræðna. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að í því efni verði leitast við að takmarka svo sem kostur er að leggja trúnaðarskyldur á þær upplýsingar sem fyrir liggja og leggur ríka áherslu á að samninganefnd og einstakir samningahópar taki mið af þessu.Í þessu sambandi má einnig nefna Evrópuvefinn sem rekinn er fyrir fjármagn frá Alþingi í þeim beina tilgangi að miðla óháðum upplýsingum um Evrópusambandið, aðildarumsóknina og möguleg áhrif aðildar, í svörum við spurningum almennings. Meðferð stjórnvalda á upplýsingum tengdum aðildarviðræðum við Evrópusambandið er ólík frá einu umsóknarríki til annars. Í Króatíu, sem síðast lauk aðildarviðræðum við Evrópusambandið, hafa frjáls félagasamtök til að mynda harðlega gagnrýnt stjórnvöld fyrir leyndarhyggju í tengslum við viðræðurnar þvert á yfirlýsta stefnu króatískra stjórnvalda um gegnsæi. Líklega eru ekki mörg dæmi þess að gögn málsins hafi verið opnuð með jafn víðtækum og aðgengilegum hætti og íslensk stjórnvöld hafa gert. Möguleikarnir til að fylgjast með viðræðuferlinu eru þó vissulega mismiklir eftir því hvar í ferlinu málið hefur verið statt. Þeir voru mestir framan af, á meðan unnið var að undirbúningi hinna eiginlegu viðræðna, en eru minni nú eftir að opinber samningsafstaða Íslands hefur verið birt. Þannig hefur lítið verið látið uppi um framgang viðræðna um þá samningskafla sem hafa verið opnaðir sem og um niðurstöður í þeim köflum sem lokað hefur verið til bráðabirgða. Heimild og mynd:
- Transparency in retrospect: Croatia's EU accession process. (Skoðað 18.4.2013).
- Staða aðildarviðræðna Íslands og ESB - viðræður.is. (Sótt 19.04.2013).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur19.4.2013
Flokkun:
Efnisorð
aðildarviðræður Ísland ESB samningaferli samningaviðræður viðræður samningur aðildarsamningur Króatía aðild umsókn aðildarumsókn samninganefnd samningahópar samráðshópur upplýsingar aðgengi gegnsæi
Tilvísun
Þórhildur Hagalín. „Getur almenningur einhvers staðar fylgst með samningaferlinu við Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 19.4.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64920. (Skoðað 14.9.2024).
Höfundur
Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Fær Evrópuvefurinn framlög frá ríkinu eða einhverjum öðrum til þess að halda úti vefnum?
- Um hvað er samið í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið?
- Er beinagrind Evrópuvefjarins búin til af starfsmönnum ESB og er hún, að efni til, svipuð og í öðrum löndum sem hafa hafið umsóknarferli að ESB?
- Er einhver ástæða fyrir því að einstakir kaflar eru opnaðir á undan öðrum í samningaviðræðum ESB og Íslands? Hvers vegna á til dæmis enn eftir að opna veigamikla kafla, svo sem um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?
- Glata Íslendingar fullveldinu við inngöngu í ESB?