Spurning

Er beinagrind Evrópuvefjarins búin til af starfsmönnum ESB og er hún, að efni til, svipuð og í öðrum löndum sem hafa hafið umsóknarferli að ESB?

Spyrjandi

Magnús Axelsson

Svar

Evrópuvefurinn (EV) er alfarið rekinn fyrir fjármagn frá Alþingi. Utanríkismálanefnd þess átti frumkvæðið að samningum um verkefnið. Forsætisnefnd þingsins kom einnig að málinu en embættismenn þingsins sáu um gerð þjónustusamnings við Vísindavef Háskóla Íslands. Samkvæmt samningnum er "tilgangur [Evrópuvefsins] að veita hlutlægar, málefnalegar og trúverðugar upplýsingar ..." Um þetta má lesa nánar undir flipanum "Um vefinn" í ramma EV.

Af þessu leiðir að Evrópuvefnum ber að starfa sem frjáls og óháð upplýsingaveita og hann mun því ekki þiggja neina fjárhagslega eða fémæta aðstoð frá aðilum máls, hvort sem þeir heita Evrópusambandið sjálft eða samtök sem berjast með eða móti aðild að sambandinu.

Hrygglengjan í tæknilegri beinagrind EV er fenginn frá Vísindavefnum þar sem hún var smíðuð og starfsmenn EV hafa sjálfir gert þær breytingar sem þörf var á. Þessum breytingum er raunar ekki að fullu lokið og biðjum við gesti vefsins velvirðingar á hnökrum sem af því leiðir.

Aðildarríki Evrópusambandsins eru nú 28 talsins og nokkur í viðbót eiga í aðildarviðræðum á mismunandi stigum. Um 25 ríki hafa því átt í viðræðum um eigin aðild frá því að stofnríkin sex settu undanfara sambandsins á fót árið 1957. Fjöldamörg atriði hefur borið á góma í öllum þessum viðræðum. Langflest þeirra atriða sem Íslendingar bera nú mest fyrir brjósti í aðildarviðræðum sínum hafa þannig komið upp áður í hliðstæðum viðræðum einhverra annarra þjóða við sambandið, og einnig í innri viðræðum í hinum ýmsu löndum um kosti og galla aðildar.

Efni Evrópuvefsins ræðst að mestu af spurningum og áhugamálum lesenda en þau ákvarðast væntanlega aftur að mestu af þeim viðfangsefnum sem verða efst á baugi í aðildarviðræðunum í Brussel og af innri umræðum í landinu. Þannig getur vel farið svo að efni vefsetursins verði hreint ekki svo frábrugðið því sem rætt hefur verið í öðrum umsóknarlöndum. En það mundi þá hafa komið af sjálfu sér en ekki vegna þess að einhver hafi ákveðið það fyrirfram.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.6.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er beinagrind Evrópuvefjarins búin til af starfsmönnum ESB og er hún, að efni til, svipuð og í öðrum löndum sem hafa hafið umsóknarferli að ESB?“. Evrópuvefurinn 27.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60097. (Skoðað 14.4.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela