Spurning

Er ekkert mál fyrir okkur að draga aðildarumsóknina til baka? Hvað þurfum við þá að gera?

Spyrjandi

Viktoria Lind Gunnarsdóttir

Svar

Eins og fjallað er um í svari Evrópuvefsins við spurningunni Var gert hlé á aðildarviðræðum Íslands og ESB eða var þeim slitið? hefur verið gert hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki tekið ákvörðun um hvort draga eigi aðildarumsóknina til baka þegar þetta er skrifað í lok árs 2013.


Núverandi forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson.

Þingsályktunartillaga um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var samþykkt með atkvæðagreiðslu á Alþingi þann 16. júlí 2009.

Í ágúst 2013 lýsti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra því yfir að núverandi ríkisstjórn væri ekki bundin af ályktun fyrra þings um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Væri það í samræmi við lagaálit sem unnið hefði verið í Utanríkisráðuneytinu. Forseti Alþingis, Einar Kristinn Guðfinnsson, efaðist um að þessi ummæli Gunnars Braga væru fyllilega rétt. Taldi Einar að almennt falli þingsályktanir ekki niður eftir kosningar með nýju þingi. Annað geti þó átt við um ályktanir sem fari gegn vilja nýs meirihluta.

Að mati Einars þarf Alþingi að samþykkja með formlegum hætti að draga aðildarumsókn Íslands til baka. Eðlilegast væri að draga aðildarumsóknina til baka á sama hátt og hún var samþykkt, það er að lögð yrði fram þingsályktunartillaga sem Alþingi tæki svo afstöðu til með atkvæðagreiðslu. Ef Ísland mundi í kjölfarið vilja hefja aftur aðildarviðræður við ESB þyrfti að sækja um aðild að nýju. Þá væri ekki hægt að byggja á því sem nú þegar hefur verið samið um í aðildarviðræðunum. Öll ESB-ríkin þyrftu að samþykkja umsóknina á ný.

Það hefur aldrei gerst að aðildarríki dragi umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu til baka. Ekki er þó við öðru að búast en að aðildarríki ESB mundu bera virðingu fyrir ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að slíta viðræðunum, ef til þess kæmi, enda er það pólitísk ákvörðun hvers umsóknarríkis fyrir sig hvort það gerist aðili að sambandinu eður ei.

Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað er átt við með svissnesku leiðinni í samskiptum ríkja við ESB?, frysti Sviss aðildarumsókn sína eftir að EES-samningnum var hafnað árið 1992. Umsóknin hefur aldrei verið formlega dregin til baka, en svissnesk yfirvöld vilja meina að slíkt mundi ekki þjóna neinum tilgangi fyrir ríkið. Ef Sviss drægi aðildarumsóknina formlega til baka þyrftu þarlend stjórnvöld að útskýra þá ákvörðun fyrir öðrum ríkjum. Þykir svissneskum yfirvöldum það í raun óþarfi, en frysting umsóknar Sviss hefur engin áhrif á tvíhliða samstarf þess við ESB.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela