Spurning

Var gert hlé á aðildarviðræðum Íslands og ESB eða var þeim slitið? Stundum finnst manni það óljóst í umræðunni.

Spyrjandi

N.N.

Svar

Stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum mælir fyrir um að hlé sé gert á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og úttekt gerð á stöðu viðræðanna og þróun mála innan ESB. Þá verði aðildarviðræður ekki hafnar aftur fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu en hvort og hvenær hún á að fara fram er óljóst. Aðildarumsóknin hefur ekki verið dregin til baka og framkvæmdastjórn ESB lítur enn á Ísland sem umsóknarríki enda hefur aðildarviðræðum ekki verið formlega slitið. Tvö fordæmi eru fyrir því að umsóknarríki hafi gert hlé á aðildarviðræðum sínum við sambandið, Malta og Sviss.

***

Stefna ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Evrópumálum er sú að Ísland skuli ekki ganga í Evrópusambandið. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu (bls 11).

Á fundi með Stefan Füle stækkunarstjóra Evrópusambandsins þann 13. júní 2013 tilkynnti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins yrði ekki haldið áfram undir stjórn núverandi ríkisstjórnar. Í septembermánuði leysti ráðherra samninganefnd og samningahópa vegna aðildarviðræðna við ESB formlega frá störfum. Í ræðu ráðherra frá 12. september 2013 kemur fram að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðunum. Aðildarumsókn Íslands að sambandinu hefur ekki verið afturkölluð, en slík ákvörðun þarf samþykki Alþingis.


Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins.

Ríkisstjórnin hefur leitað til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands til að gera úttekt á stöðu viðræðanna og þróun mála innan ESB. Þeirri vinnu verður mögulega lokið í lok árs 2013 eða byrjun árs 2014. Þegar úttektin liggur fyrir verða niðurstöður hennar kynntar fyrir Alþingi og þjóðinni. Hvenær og hvort þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram er hins vegar enn háð talsverðri óvissu. Enn fremur er óljóst hver afdrif umsóknarinnar verða ef slík þjóðaratkvæðagreiðsla sýnir fram á vilja almennings til þess að klára aðildarviðræðurnar, að öllu óbreyttu þyrfti Framsóknarflokkurinn að leiða þær aðildarviðræður.

Evrópusambandið hefur sýnt ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að gera hlé á viðræðunum fullan skilning enda er það pólitísk ákvörðun hvers umsóknarríkis fyrir sig hvort það gerist aðili að sambandinu eður ei. Þar sem aðildarviðræðunum hefur ekki formlega verið slitið lítur framkvæmdastjórn ESB enn á Ísland sem umsóknarríki. Kjósi íslensk stjórnvöld að hefja viðræður á ný er ekki annars að vænta en að Evrópusambandið líti svo á að endurkoma Íslendinga að samningaborðinu njóti stuðnings á Íslandi og aðildarferlið yrði hafið á nýjan leik.

Tvö dæmi eru um að umsóknarríki hafi gert hlé á aðildarviðræðum sínum við sambandið. Annars vegar gerði Malta hlé á viðræðum við sambandið í tvö ár áður en hún hóf viðræður aftur í umboði nýrrar ríkisstjórnar. Hins vegar frysti Sviss aðildarumsókn sína eftir að EES-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1993. Umsókn Sviss er formlega séð ennþá opin þó ekkert hafi verið unnið í henni í tvo áratugi. Ítarlegri umfjöllun um afturköllun aðildarumsókna er að finna í svari við spurningunni Hafa einhver ríki afturkallað umsókn að ESB áður en aðildarferlinu lýkur?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 8.11.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Var gert hlé á aðildarviðræðum Íslands og ESB eða var þeim slitið? Stundum finnst manni það óljóst í umræðunni.“. Evrópuvefurinn 8.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66253. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela