Spurning

Hvernig eru ákvarðanir um beitingu refsiaðgerða teknar á vettvangi Evrópusambandsins?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Valdheimildir Evrópusambandsins til að grípa til refsiaðgerða eru skilgreindar í 29. grein sáttmálans um Evrópusambandið og í 75. og 215. grein sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Það er ráð Evrópusambandsins sem tekur ákvarðanir um beitingu refsiaðgerða og aukinn meirihluta fulltrúa ráðsins þarf fyrir þeim.

***

Evrópusambandið beitir yfirleitt refsiaðgerðum á grundvelli ályktana sem hafa verið samþykktar af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sambandið getur þó útfært ályktanir SÞ enn frekar og ákveðið að beita frekari refsiaðgerðum. Dæmi um það eru til að mynda refsiaðgerðir sem ESB beitir Íran en nánar er fjallað um þær í svörum við spurningunum Hvernig beitir ESB sér í refsiaðgerðum gegn Íran vegna meintra tilrauna þarlendra stjórnvalda til að koma upp kjarnorkuvopnum? og Í hverju felast refsiaðgerðir ESB gegn Íran?

Evrópusambandið getur einnig ákveðið að beita refsiaðgerðum að eigin frumkvæði. Sérhvert aðildarríki getur lagt fram tillögu um að refsiaðgerðum sé beitt. Hið sama getur einnig æðsti talsmaður stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum gert og hefur hann þá stuðning framkvæmdastjórnarinnar. Tillaga um refsiaðgerðir er rædd af viðkomandi undirnefndum ráðs Evrópusambandsins; þar til bærum landfræðilegum hópum (e. competent geographical groups), stjórnmála- og öryggisnefndinni og vinnuhópi ráðgjafa í utanríkismálum, sem gera drög að lagatexta um tilteknar refsiaðgerðir. Nefnd fastafulltrúa II þarf svo að samþykkja textann sem er þá lagður fyrir ráðið til endanlegs samþykkis.


Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna taka ákvarðanir um beitingu refsiaðgerða á vettvangi ráðs Evrópusambandsins. Á myndinni sjást William Hague, utanríkisráðherra Bretlands (til vinstri) og Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar (til hægri), ræða málin milli funda ráðsins.

Ákvarðanir um beitingu refsiaðgerða eru teknar með auknum meirihluta fulltrúa ráðs Evrópusambandsins. Í ákvörðunum ráðsins eru refsiaðgerðir skilgreindar en viðbótarlöggjafar kann að vera þörf til að þær öðlist fullt lagalegt gildi.

Sumar refsiaðgerðir, eins og vopnasölubann eða bann við veitingu vegabréfsáritana, eru framkvæmdar með beinum hætti í aðildarríkjunum sjálfum. Ákvörðun ráðsins ein og sér nægir til beitingar slíkra refsiaðgerða. Hún er bindandi og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Ef um er að ræða refsiaðgerðir til að koma í veg fyrir og berjast gegn hryðjuverkum og áþekkri háttsemi sem taldar eru ógna innra öryggi Evrópusambandsins er 75. gr. sáttmálans um starfshætti ESB beitt. Evrópuþingið og ráðið setja þá reglugerð um beitingu refsiaðgerða í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð. Dæmi um refsiaðgerðir af þessum toga eru til að mynda frysting eigna sem eru í eigu eða vörslu einstaklinga eða lögaðila, hópa eða aðila annarra en ríkja.

Ráð Evrópusambandsins getur einnig ákveðið að beita þriðju ríki, aðila öðrum en ríki og einstaklinga refsiaðgerðum innan ramma sameiginlegrar stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum á grundvelli 215. gr. sáttmálans um starfshætti ESB. Ráðið samþykkir þá nauðsynlegar ráðstafanir með auknum meirihluta, að fenginni sameiginlegri tillögu æðsta talsmanns stefnu sambandsins í utanríkis- og öryggismálum og framkvæmdastjórnarinnar. Ráðið upplýsir þá einungis Evrópuþingið um hvaða refsiaðgerðum það hefur komið sér saman um að beita. Takmarkandi ráðstafanir gagnvart þriðju ríkjum þar sem dregið er úr efnahagslegum og fjárhagslegum samskiptum eða þau alfarið stöðvuð, að hluta til eða að öllu leyti, eru dæmi um slíkar refsiaðgerðir.

Reglugerðir um beitingu refsiaðgerða öðlast yfirleitt gildi einum degi eftir að þær birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þær hafa bein lagaáhrif og eru bindandi í heild sinni og gilda í öllum aðildarríkjunum án þess að vera sérstaklega innleiddar í landslög.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.8.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvernig eru ákvarðanir um beitingu refsiaðgerða teknar á vettvangi Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 30.8.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65772. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela