Spurning

Hverjar eru helstu breytingarnar sem urðu á stofnunum Evrópusambandsins við aðild Króatíu?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Helstu breytingarnar sem urðu á stofnunum Evrópusambandsins við aðild Króatíu eru þær að atkvæðavægi í ráði Evópusambandsins hefur breyst, Evrópuþingmönnum fjölgaði um tólf, framkvæmdastjóri frá Króatíu hefur verið skipaður og skipting á heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu hefur verið endurmetin. Upptaka evru og aðild Króatíu að Schengen fæst ekki sjálfkrafa með aðild.

***


Króatía fékk formlega inngöngu í Evrópusambandið 1. júlí 2013. Aðildarríki sambandsins eru þar með orðin 28 og hefur heildarfjöldi íbúa í Evrópusambandinu hækkað í rúmar 508 milljónir. Opinberum tungumálum sambandsins hefur einnig fjölgað úr 23 í 24.

Atkvæðavægi í ráðinu hefur breyst í kjölfar aðildar Króatíu að ESB. Til að tillaga nái fram að ganga með auknum meirihluta þarf hún að fá að minnsta kosti 74% af samanlögðu atkvæðavægi, það er 260 atkvæði af 352. Ef tillaga á uppruna sinn hjá framkvæmdastjórninni þurfa atkvæðin að koma frá 15 aðildarríkjum í það minnsta (en ekki 14 eins og áður). Ef ráðið tekur ekki ákvörðun að tillögu framkvæmdastjórnarinnar þurfa atkvæðin að koma frá að minnsta kosti 19 aðildarríkjum (í stað 18). Króatía hefur sjö atkvæði í ráðherraráðinu sem er það sama og hjá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Litháen og Slóvakíu.

Skipting atkvæða í ráðinu eftir aðild Króatíu:

Bretland, Frakkland, Ítalía, Þýskaland 29
Pólland, Spánn 27
Rúmenía 14
Holland 13
Belgía, Grikkland, Portúgal, Tékkland, Ungverjaland 12
Austurríki, Búlgaría, Svíþjóð 10
Danmörk, Finnland, Írland, Króatía, Litháen, Slóvakía 7
Eistland, Kýpur, Lettland, Lúxemborg, Slóvenía 4
Malta 3
Samtals: 352

Nánar er fjallað um vægi aðildarríkjanna innan ráðsins og þær breytingar sem munu verða frá og með 1. nóvember 2014 í svari við spurningunni Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?

Röð aðildarríkjanna til að fara með formennsku í ráðinu mun haldast óbreytt og verður hún ekki endurskoðuð fyrr en árið 2017. Samkvæmt núverandi niðurröðun mun Króatía ekki fara með formennsku í ráðinu fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta árs 2020.

Skipting á formennsku í ráðinu fram til ársins 2020:

Ártal Fyrri árshelmingur Seinni árshelmingur
2013 Litháen
2014 Grikkland Ítalía
2015 Lettland Lúxemborg
2016 Holland Slóvakía
2017 Malta Bretland
2018 Eistland Búlgaría
2019 Austurríki Rúmenía
2020 Finnland

Evrópuþingmönnum hefur fjölgað og sitja nú 12 þingmenn frá Króatíu á Evrópuþinginu. Fimm þeirra gengu til liðs við kristilega demókrata, fimm við sósíaldemókrata, einn við íhaldsmenn og einn við sameinaða vinstrimenn og græningja. Helmingur þingmannanna eru konur. Evrópuþingmenn frá Króatíu eru jafnmargir og frá Írlandi og Litháen. Nánar er fjallað um fjölda Evrópuþingmanna í svari við spurningunni Hversu margir þingmenn sitja á þingi Evrópusambandsins?


Á myndinni sjást Ivo Josipovic forseti Króatíu og Jadranka Kosor forsætisráðherra Króatíu undirrita aðildarsamninginn að ESB í Brussel 9. desember 2011.

Króatinn Neven Mimica hefur verið skipaður framkvæmdastjóri á sviði neytendamála fram til loka október 2014. Einnig hafa fulltrúar frá Króatíu tekið sæti í efnahags- og félagsmálanefndinni og svæðanefndinni. Skipað verður í sæti Endurskoðunarréttarins og dómstóls Evrópusambandsins á næstunni og er verið að vinna úr umsóknum til að manna ýmsar stöður innan stofnana ESB. Framkvæmdastjórnin ein stefnir að því að ráða í 249 stöður fyrir 1. júlí 2018.

Skráð hlutafé Seðlabanka Evrópu og fjárhæðir eigna í gjaldeyrisforða sem færa má til hans jukust við aðild Króatíu að sambandinu. Skipting heildarhlutafjár Seðlabanka Evrópu var þar með endurmetin frá og með 1. júlí. Seðlabanki Króatíu varð hluti af seðlabankakerfi Evrópu og bankastjóri seðlabanka Króatíu tekur nú þátt í starfsemi aðalráðs Seðlabanka Evrópu. Króatía notast þó enn þá við gjaldmiðilinn sinn kunas og mun ekki taka upp evru fyrr en hún uppfyllir Maastricht-skilyrðin.

Persónubundið eftirlit við landamæri Króatíu er enn við lýði þar sem aðild að Schengen-samstarfinu fæst ekki sjálfkrafa við inngöngu í Evrópusambandið. Aðild Króatíu að Schengen gæti tekið þónokkur ár.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela