Spurning

Er Seðlabanki Evrópu einkabanki?

Spyrjandi

Finnur Júlíusson

Svar

Nei, Seðlabanki Evrópu er ekki „einkabanki“ samkvæmt almennri skilgreiningu á hugtakinu, það er bankinn er ekki viðskiptabanki í eigu einkaaðila. Seðlabanki Evrópu er ein af stofnunum Evrópusambandsins og þungamiðja seðlabankakerfis Evrópu (e. European System of Central Banks, ESCB), sem er vettvangur samstarfs seðlabanka aðildarríkja ESB og Seðlabanka Evrópu til að viðhalda fjármálastöðugleika í Evrópusambandinu. Seðlabanki Evrópu er hlutafélag og eru seðlabankar aðildarríkja Evrópusambandsins eigendur alls hlutafjár bankans. Nánar er fjallað um eignarhald Seðlabanka Evrópu í svari við spurningunni Hverjir eru helstu eigendur Seðlabanka Evrópu og hvert er hlutverk hans við útgáfu evru?


Seðlabanki Evrópu að degi til.
Seðlabanki Evrópu er sjálfstæð stofnun sem hýsir samvinnu evruríkjanna við stjórn peningamála, en þau aðildarríki Evrópusambandsins sem hafa tekið upp evru hafa sameiginlega peningamálastefnu. Stefna evruríkjanna um stjórn peningamála er ákvörðuð á vettvangi bankans með aðkomu seðlabankastjóra evruríkjanna. Seðlabankar evruríkjanna hafa síðan umsjón með framkvæmd stefnunnar í heimalöndum sínum.

Hitt er annað mál hvort seðlabankar aðildarríkja Evrópusambandsins, eigendur Seðlabanka Evrópu, séu í einka- eða ríkiseigu. Seðlabankar komu á sjónarsviðið á 17. öld. Sá fyrsti var stofnaður í Svíþjóð árið 1656 og seðlabanki Englands var stofnaður í kjölfarið, árið 1694. Upprunalegu seðlabankarnir voru stofnaðir af einkaaðilum og voru lengi í einkaeign. Á miðri tuttugustu öld voru seðlabankar víðs vegar í heiminum þjóðnýttir og á síðari hluta tuttugustu aldar var lögð áhersla á að efla sjálfstæði þeirra gagnvart stjórnvöldum innanlands.


Seðlabankar Belgíu og Grikklands eru að hluta til í einkaeigu.
Nú til dags eru seðlabankar yfirleitt sjálfstæðar stofnanir í eigu ríkja. Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst eru þó til seðlabankar á evrusvæðinu sem eru að einhverju leyti í einkaeigu. Seðlabanki Belgíu er til að mynda að hluta til í einkaeigu og er bankinn skráður á hlutabréfamarkað í belgísku kauphöllinni. Bankinn var stofnaður sem hlutafélag árið 1850 og voru eigendur hlutafjárins belgískir viðskiptabankar, sem fram að því höfðu sjálfir haft myntsláttu og prentun seðla á höndum. Síðar var ákveðið að setja hlutabréf bankans á markað. Árið 1948 var heildarhlutafé seðlabankans aukið og belgíska ríkið varð eigandi helmings heildarhlutafjár bankans. Hinn helmingurinn var áfram í höndum einkaaðila. Enn þann dag í dag geta almennir fjárfestar og fjármálafyrirtæki átt hlut í seðlabanka Belgíu. Svipaða sögu er að segja af seðlabanka Grikklands sem er einnig skráður á hlutabréfamarkað.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 1.6.2012

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Er Seðlabanki Evrópu einkabanki?“. Evrópuvefurinn 1.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62653. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela