Spurning

Hverjir eru helstu eigendur Seðlabanka Evrópu og hvert er hlutverk hans við útgáfu evru?

Spyrjandi

Bjarki Kristinsson, Hrólfur Hreiðarsson

Svar

Seðlabanki Evrópu er hlutafélag og eru seðlabankar aðildarríkja Evrópusambandsins, fyrir hönd ríkja sinna, eigendur alls hlutafjár bankans. Evruríkin sautján eru eigendur 70% af heildarhlutafénu en aðildarríkin tíu sem ekki hafa tekið upp evru eiga samtals 30% hlut í bankanum. Hlutur aðildarríkjanna í heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu ákvarðast út frá svokölluðum dreifingarlykli fyrir hlutafjáráskrift (e. key for capital subscription) og er reiknaður út frá íbúafjölda og vergri landsframleiðslu hvers ríkis. Seðlabanki Evrópu endurmetur skiptingu heildarhlutafjárins á fimm ára fresti og í hvert sinn sem nýtt ríki gerist aðili að Evrópusambandinu. Stærstu hluthafar bankans eru seðlabankar Þýskalands, Bretlands, Frakklands og Ítalíu.


Seðlabanki Evrópu að næturlagi.
Í lok árs 2010 var skráð heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu hækkað úr 5,76 milljörðum evra í 10,76 milljarða. Samþykkt var að seðlabankar aðildarríkjanna mundu veita Seðlabanka Evrópu aukahlutafjárframlag í þremur afborgunum. Fyrsta og önnur afborgun áttu sér stað í lok árs 2010 og 2011 en þriðja og síðasta afborgunin mun eiga sér stað í lok árs 2012. Innborgað heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu nemur nú rúmlega 6,3 milljörðum evra.

Bankaráð Seðlabanka Evrópu, sem skipað er stjórnarmönnum í framkvæmdastjórn bankans og seðlabankastjórum evruríkjanna, heimilar útgáfu og ákveður magn evruseðla og -myntar í umferð. Seðlabanki Evrópu hefur því yfirumsjón með útgáfu evru og er seðlabönkum evruríkjanna óheimilt að prenta evruseðla eða slá evrumynt að eigin frumkvæði. Í reynd fer prentunin og myntsláttan þó fram í seðlabönkum evruríkjanna þar sem Seðlabanki Evrópu er ekki búinn þeim tækjum og tólum sem til þarf.

Síðan dreifing evru hófst 1. janúar 2002 hefur árlegri framleiðslu evru verið skipt niður milli evruríkjanna í samræmi við hlut þeirra í heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu. Seðlabankar evruríkjanna bera kostnaðinn af framleiðslunni í sínu heimalandi.

Heimildir:

Upprunalegar spurningar:
Hverjir eru helstu eigendur ECB?

Þegar peningar eru búnir til af ECB, rukka þeir þá einhverja x% fyrir hverja evru sem verður til? Ef svo er, hvernig skiptist sú greiðsla niður? Þ.e.a.s. skiptist hún jafnt niður á lönd eða deilist greiðslan eftir íbúatölu alls sambandsins?

Hvaða aðilar taka ákvörðun um hvort þurfi og/eða megi prenta meiri pening?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela