Spurning

Efnahags- og félagsmálanefnd

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins (e. European Economic and Social Committee) var sett á fót með Rómarsáttmálanum, árið 1957, í þeim tilgangi að ljá hagsmunahópum rödd á vettvangi sambandsins og styrkja þannig lýðræðislegt lögmæti þess. Nefndin er meðal annars skipuð fulltrúum vinnuveitenda og launþega úr aðildarríkjunum og gegnir ráðgefandi hlutverki gagnvart Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu um mál sem varða efnahagsleg og félagsleg réttindi. Nefndin hefur aðsetur í Brussel í Belgíu.

Meðlimir í nefndinni eru 344 talsins og skiptast milli aðildarríkjanna í grófu hlutfalli við íbúafjölda þeirra (sjá töflu). Þeir eru tilnefndir af aðildarríkjunum og skipaðir af ráðinu til fimm ára í senn með heimild til endurnýjunar skipunartímans.

Aðildarríkin Fjöldi fulltrúa
Bretland, Frakkland, Ítalía og Þýskaland 24
Pólland og Spánn 21
Rúmenía 15
Austurríki, Belgía, Búlgaría, Grikkland, Holland, Portúgal, Svíþjóð, Tékkland og Ungverjaland 12
Danmörk, Finnland, Írland, Litháen og Slóvakía 9
Eistland, Lettland og Slóvenía 7
Kýpur og Lúxemborg 6
Malta 5

Meðlimir efnahags- og félagsmálanefndarinnar eiga að vera algjörlega óháðir öðrum við skyldustörf sín, í þágu almennra hagsmuna sambandsins, og mega ekki taka við fyrirmælum annarra. Hver fulltrúi tilheyrir einum af eftirfarandi þremur hópum: atvinnurekendum, launþegum eða ýmsum hagsmunum (til að mynda úr landbúnaði, frá sveitafélögum eða neytendasamtökum).

Hlutverk nefndarinnar hefur í gegnum tíðina verið eflt með breytingum á ESB-sáttmálunum. Samkvæmt núverandi sáttmála ber Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu að hafa samráð við nefndina í málefnum er varða:
  • Stefnu sambandsins í félagsmálum.
  • Efnahagslega og félagslega samheldni.
  • Umhverfismál.
  • Menntunarmál.
  • Heilbrigðismál.
  • Neytendavernd.
  • Iðnað.
  • Samevrópsk netkerfi.
  • Skattheimtu.
  • Byggðamál.

Á mörgum þessara sviða starfar nefndin með svæðanefnd Evrópusambandsins.

Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu er heimilt að leita álits nefndarinnar þegar þau telja það viðeigandi og sömuleiðis er nefndinni heimilt að gefa út álit að eigin frumkvæði (304. gr. sáttmálans um starfshætti ESB, SSE). Nefndin gefur út að meðaltali 170 ráðgefandi álit á ári.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.9.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Efnahags- og félagsmálanefnd“. Evrópuvefurinn 21.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63269. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela