Spurning

Hver er stefna ESB í umhverfismálum?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Stefna Evrópusambandsins í umhverfismálum miðar að því að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærri þróun. Stefnan byggir á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn umhverfisspjöllum og styðst við mengunarbótaregluna sem segir að sá sem er ábyrgur fyrir mengun og umhverfisspjöllum skuli greiða kostnaðinn. Löggjöf ESB á sviði umhverfismála er umfangsmikil einkum vegna samþættingarreglunnar en samkvæmt henni skulu umhverfissjónarmið höfð í huga við alla stefnumótun sambandsins. Framkvæmd umhverfisstefnunnar krefst mikils tíma og fjármagns og hafa háleit markmið um úrbætur á sviði umhverfismála ekki alltaf náð fram að ganga.

***

Upphaf umhverfisstefnu Evrópusambandsins má rekja til ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál árið 1972 þar sem tengsl mannlegra athafna, svo sem iðnvæðingar, og neikvæðra áhrifa þeirra á umhverfið voru í fyrsta sinn viðurkennd á alþjóðlegum vettvangi. Í kjölfarið ákváðu leiðtogar aðildarríkja ESB á fundi í París sama ár, að móta sameiginlega stefnu á sviði umhverfismála.

Lengi vel var ekki mikill áhugi fyrir því í aðildarríkjunum að innleiða kostnaðarsama umhverfisstefnu og aðildarríkin framfylgdu stefnunni hægt og illa. Með Einingarlögunum, Maastricht- og Amsterdam-sáttmálunum var hins vegar sífellt lögð meiri áhersla á umhverfismál og hlaut umhverfisstefnan jafnt og þétt aukið lagalegt gildi. Miklu munaði um innleiðingu svonefndrar samþættingarreglu (e. integration principle), með Maastricht-sáttmálanum, sem kveður á um að umhverfissjónarmið skuli höfð til hliðsjónar við gerð og framkvæmd allra stefna sambandsins (11. grein sáttmálans um starfsætti ESB (SSE)).

Stefna ESB í umhverfismálum byggist í fyrsta lagi á markmiðum um sjálfbæra þróun. Hugtakið sjálfbær þróun kom fyrst fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun frá árinu 1987 (Brundtland skýrslan). Þar var hugtakið skilgreint sem: „Þróun sem gerir okkur kleift að uppfylla þarfir okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir.“ Í öðru lagi byggist stefnan á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn umhverfisspjöllum og þeirri reglu að sá sem er ábyrgur fyrir mengun og umhverfisspjöllum skuli greiða kostnaðinn af því að laga eða koma í veg fyrir skaðann. Þessi regla er kölluð mengunarbótareglan (e. polluter pays principle) og miðar að því að ábyrgðin skuli ekki á endanum lenda á neytendum og skattgreiðendum.

Markmið umhverfisstefnunnar eru talin upp í 191. gr. SSE en þar segir að stefnan skuli stuðla að því:

  • Að varðveita og bæta umhverfið.
  • Að vernda heilsu manna.
  • Að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi.
  • Að ráðstafanir séu gerðar á alþjóðavettvangi til að taka á svæðisbundnum eða alþjóðlegum umhverfisvanda, og einkum til að vinna gegn loftslagsbreytingum.

Löggjöf Evrópusambandsins á sviði umhverfismála er umfangsmikil einkum vegna samþættingarreglunnar og þess hve víðfeðm umhverfismál eru í eðli sínu. Löggjöfin nær til mengunarvarna, svo sem loftgæða, verndar gegn hávaða, vatnsverndar og vatnsstjórnunar, efnamála, meðhöndlunar úrgangs, eftirlits með mengandi starfsemi, verndar vistgerða og villtrar flóru og fánu, verndar skóga sem og skógræktar og loftslagsmála.


Janez Potočnik framkvæmdastjóri umhverfismála í Evrópusambandinu.

Stór hluti umhverfisreglna ESB hefur verið innleiddur í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Sökum þessa hefur umhverfislöggjöf á Íslandi að miklu leyti þróast í samræmi við umhverfislöggjöf ESB, það er á þeim sviðum sem heyra undir EES-samninginn. Þetta á aðallega við á sviði mengunar-, efna-, loftslags- og úrgangsmála. Gerðir ESB á sviði náttúruverndar falla hins vegar ekki undir EES samninginn og hafa því ekki verið teknar upp í löggjöf hér á landi. Sama á við um gerðir á sviði skógverndar.

Aðildarríki ESB deila valdheimildum með Evrópusambandinu í umhverfismálum. Evrópuþingið og ráðið hafa ákvörðunarvald yfir því til hvaða aðgerða sambandið skuli grípa í því skyni að ná markmiðunum sínum, að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefnd ESB (e. European Economic and Social Committee) og svæðanefnd ESB (E. Committee of the Regions) (192. grein SSE). Almennt er fjármögnun og framkvæmd umhverfisstefnunnar í höndum aðildarríkjanna en til að framkvæma stefnuna hafa verið mótaðar sérstakar aðgerðaáætlanir (e. environmental action programme) á nokkurra ára fresti.

Fyrsta aðgerðaáætlun ESB tók gildi árið 1972 og markaði upphaf umhverfisstefnunnar. Markmið hennar voru meðal annars mengunarvarnir, viðhald á vistfræðilegu jafnvægi í náttúrunni og skynsamleg notkun náttúruauðlinda. Önnur aðgerðaáætlunin, frá árinu 1977, fylgdi eftir markmiðum forvera síns auk þess sem nýjar aðgerðir voru kynntar til sögunar svo sem gegn vatnsmengun. Þriðja aðgerðaáætlunin, frá árinu 1983, tók á nýjum málefnum en meginmarkmið hennar var að samþætta virkni umhverfisstefnunnar og innri markaðarins. Mótaðar voru sameiginlegar reglur um umhverfisvernd í framleiðslu og iðnaði í þeim tilgangi að stuðla að jafnri samkeppni aðildarríkjanna á innri markaðinum og koma í veg fyrir viðskiptahöft vegna ólíkra reglna í framleiðslu og iðnaði í aðildarríkjunum.

Í fjórðu aðgerðaáætluninni, sem tók gildi árið 1986, var áfram lögð áherslu á að samræma umhverfisstefnuna við aðrar stefnur sambandsins en sambandið taldi þessar aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar á alþjóðamörkuðum. Reglur um sérstök viðskiptaleyfi, skatta og styrki fyrir framleiðslu og iðnað voru mótaðar til þess að ná fram þessum markmiðum.


Listræn útfærsla á mengun.

Fimmta aðgerðaáætlunin, frá árinu 1992, kynnti til sögunnar mikilvægi sjálfbærrar þróunar í umhverfisvernd. Sambandið veitti frjálsum félagasamtökum og staðbundnum stjórnvöldum aðgang að ákvarðanatökuferlinu og reyndi að kynna almenning fyrir vandanum og vekja fólk til umhugsunar um eigin ábyrgð. Komið var á fót fjármögnunarleið (LIFE–Programme) til að styðja við verkefni umhverfisstefnunnar bæði innan sem utan sambandsins. Frá stofnun sjóðsins hefur tveimur billjónum evra verið veitt til 30 þúsund verkefna. Fjórða og fimmta aðgerðaáætlunin voru kostnaðarsamar og mættu vissri andstöðu í aðildarríkjunum einkum vegna þeirra efnahagslegu skuldbindinga sem lagðar voru á ríkin.

Markmið sjöttu aðgerðaáætlunar sambandsins, frá árinu 2002, voru ekki jafn metnaðarfull og síðustu tveggja áætlana á undan. Áhersla var lögð á loftslagsbreytingar, verndun fjölbreytileika lífríkisins, heilsufar almennings, verndun náttúruauðlinda og meðhöndlun úrgangs. Áætlað er að sjöunda aðgerðaáætlunin taki gildi í október 2012. Henni er ætlað að stuðla að grænum og sjálfbærum hagvexti með það fyrir augum að auka hagvöxt án þess að ganga frekar á auðlindir eða auka við núverandi orkunotkun. Til viðbótar innheldur aðgerðaáætlunin metnaðarfulla orkuáætlun til ársins 2050 um bætta orkunýtni og aukna notkun sjálfbærrar orku.

Umhverfismál er sá málaflokkur sem vaxið hefur hvað mest í Evrópusambandinu á síðastliðnum áratugum, en þessum vexti hafa fylgt mikil útgjöld. Framkvæmd umhverfisstefnunnar krefst mikils tíma og fjármagns sem ekki stendur alltaf til boða. Háleit markmið um úrbætur á sviði umhverfismála hafa því ekki alltaf náð fram að ganga. Árangur hefur náðst hvað varðar minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda, varðveitingu votlendis, sjálfbærni í skógarvinnslu og meðhöndlun úrgangs. Hins vegar hefur stefnan verið gagnrýnd meðal annars fyrir að hafa ekki enn náð þeim markmiðum sem stefnt er að hvað varðar sjálfbæra þróun, stöðnun í málefnum loftgæða og vatnsmengunar og áframhaldandi losun kemískra efna og úrgangs í þágu iðnaðar og framleiðslu.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.9.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver er stefna ESB í umhverfismálum?“. Evrópuvefurinn 14.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63119. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela