Spurning

Af hverju hefur Evrópusambandið bannað hefðbundnar ljósaperur?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Evrópusambandið hefur bannað hefðbundnar ljósaperur í því skyni að draga úr losun koltvíildis (CO2) í andrúmsloftið og vinna þannig gegn gróðurhúsaáhrifum. Reglugerð sem kveður á um bann við gló- og halógenperum tók gildi árið 2009 en ákveðið var að innleiðing bannsins kæmi til framkvæmda í sex áföngum á tímabilinu 2009-2016. Þannig er áformað að hefðbundnar ljósaperur hverfi smám saman af innri markaðinum. Fjórða áfanganum lauk 1. september síðastliðinn þegar bann við framleiðslu og dreifingu á öllum gerðum glópera tók gildi. Leyfilegt verður að versla með sumar gerðir af halógenperum fram til ársins 2016. Reglugerðin fellur undir tilskipun um visthönnun vöru, sem tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið árið 2007. Reglugerðin hefur verið innleidd í íslenskan rétt þar sem ríkið er aðili að EES-samningnum og er það ástæðan fyrir því að bannið hefur einnig tekið gildi hér á landi.

***

Tilskipun (nr. 2005/32) um visthönnun vöru var samþykkt af ráði ESB og Evrópuþinginu árið 2005. Á grundvelli tilskipunarinnar hefur framkvæmdastjórn ESB sett níu reglugerðir sem eiga að efla og styrkja framleiðslu, hönnun og notkun á orkuminni og umhverfisvænni vörum á innri markaðnum. Megintilgangur tilskipunarinnar er að stemma stigu við þeim vandamálum sem steðja að umhverfinu og náttúruauðlindum jarðarinnar. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar árið 2007 og tveimur árum síðar var hún innleidd í íslenskan rétt með lögum (nr. 42/2009) um visthönnun vöru sem notar orku.

Reglugerð (nr. 244/2009) um kröfur varðandi visthönnun óstefnuvirkra ljósapera til heimilisnota kveður á um bann við hefðbundnum ljósaperum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún er ein þeirra níu reglugerða sem falla undir tilskipunina um visthönnun vöru og tók hún gildi á Íslandi árið 2011 (nr. 578/2011). Í reglugerðinni er að finna þær tæknilegu visthönnunarkröfur sem ljósaperur verða að uppfylla til að heimilt sé að CE-merkja þær og markaðssetja á EES-svæðinu (sjá II. viðauka reglugerðarinnar).


Sparperur (til vinstri) taka smám saman við af hefðbundnum ljósaperum (til hægri).

Svonefndar sparperur hafa komið í stað hefðbundinna ljósapera en þær nota minna rafmagn og endast lengur, sem einnig dregur úr orkunotkun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að sparperur nota allt að 80% minna rafmagn en glóperur og endast í sex til tíu ár, á meðan líftími hefðbundinnar ljósaperu er eitt til tvö ár. Nánar er fjallað um orkusparnað við notkun á sparperum í svari við spurningunni Hvað gætum við sparað mikla orku ef allir Íslendingar notuðu sparperur í stað glópera?

Mikil umfjöllun hefur átt sér stað um innihald kvikasilfurs í sparperum og hafa margir haft áhyggjur af því að ávinningurinn af orkusparnaði við notkun á sparperum vegi minna en kvikasilfursmengunin sem getur stafað af notkun þeirra. Sparperur innihalda kvikasilfur, en magn þess má ekki vera meira en sem nemur 5 mg (0,005 g) fyrir hverja peru. Til samanburðar má nefna að silfurtannfylling inniheldur um 0,5 g af kvikasilfri (það er hundrað sinnum meira magn en er leyfilegt í sparperum) og eldri tegundir hitamæla innihalda nokkur grömm af kvikasilfri. Í reglugerðinni um kröfur varðandi visthönnun ljósapera er sérstaklega tekið fram að „ákvörðun um kröfur um orkunýtni ljósapera […] mun leiða til minnkandi heildarlosunar á kvikasilfri“ (2. mgr. 9) liðar). Kvikasilfursútblástur við framleiðslu á ljósaperum hefur alltaf verið vandamál og var ákveðið að sporna við því á sínum tíma þar sem því var spáð að losun kvikasilfurs mundi einungis aukast á komandi árum.

Staðreyndin er þó sú að kvikasilfursinnihald sparpera getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir náttúruna og heilsu manna ef ekki er rétt staðið að notkun og förgun peranna. Vegna kvikasilfursinnihalds í sparperum er því nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri til almennings:
  • Sparperum má alls ekki henda með venjulegu sorpi heldur þarf að skila þeim til endurvinnslustöðva sem ber að sjá um að farga þeim á réttan hátt endurgjaldslaust.
  • Ef sparpera brotnar þarf að gæta að eftirfarandi:
    • Fyrir hreinsun:
      • Slökkva þarf á hita- og loftræstikerfi, ef það er til staðar.
      • Fólk og dýr þurfa að yfirgefa herbergið þar sem sparperan brotnaði.
      • Lofta þarf út í herberginu í 5-10 mínútur.

    • Við hreinsun:
      • Safna þarf saman brotunum með blautum klút, eða hörðum pappa. Alls ekki má nota ryksugu eða kúst, þar sem kvikasilfrið mundi þá dreifast um andrúmsloftið.
      • Setja þarf glerbrotin og klútinn, eða pappann, í lokað glerílát.
      • Merkja þarf sérstaklega að ílátið innihaldi kvikasilfur.
      • Ílátinu þarf að lokum að skila til endurvinnslustöðvar.

Á markaði eru einnig orkusparandi ljósaperur sem innihalda ekki kvikasilfur, svonefndar ljósdíóður eða LED-perur.

Bann við hefðbundnum ljósaperum er ekki bundið við Evrópusambandið. Mörg ríki hafa gripið til sambærilegra aðgerða til að koma í veg fyrir frekari hlýnun jarðar af völdum uppsafnaðra kolefna í andrúmsloftinu. Ríki eins og Argentína, Ástralía, Bandaríkin, Brasilía, Kanada, Kína, Rússland, Sviss og Venesúela hafa ýmist þegar bannað hefðbundnar ljósaperur eða áætla innleiðingu banns á komandi árum.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.9.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Af hverju hefur Evrópusambandið bannað hefðbundnar ljósaperur?“. Evrópuvefurinn 14.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63121. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela