Svar
Breytingar á þeim tegundum villtra fugla sem leyfilegt er að veiða í ESB, og taldar eru upp í viðauka II við fuglatilskipunina, hafa oftast verið gerðar á grundvelli aðildarsamninga nýrra ríkja en einu sinni var viðaukanum breytt með sérstakri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Þótt hvert einstakt aðildarríki geti beitt neitunarvaldi gegn staðfestingu aðildarsamnings nýs ríkis verður að teljast ólíklegt að það yrði gert eingöngu vegna andstöðu viðkomandi ríkis við veiðar tiltekinna fuglategunda af tilfinningalegum ástæðum.
***
Allt frá árinu 1979 hefur verið í gildi tilskipun um vernd villtra fugla í Evrópusambandinu. Sú upprunalega (
nr. 79/409) var leyst af hólmi með núgildandi fuglatilskipun sem gekk í gildi árið 2009 (
nr. 2009/147) og fjallað var um í svari við spurningunni
Ég sat í veiðikofa um daginn eftir rólegan rjúpnadag og þá var fullyrt að við inngöngu í ESB mundu veiðar á rjúpu og svartfugli verða bannaðar. Er þetta rétt?
Svarthænu (Francolinus francolinus) var bætt á lista yfir þær tegundir sem heimilt er að veiða í sumum löndum í kjölfar stækkunar ESB til austurs 2004. |
Eðli málsins samkvæmt eru varla veittar varanlegar undanþágur frá tilskipun sem hefur að markmiði að vernda villta fuglastofna. Heimildir til veiða á tilteknum tegundum eru ávallt bundnar því skilyrði að veiðarnar stofni tegundinni ekki í hættu.
Þær tegundir sem eru á lista yfir fugla sem má veiða í öllum aðildarríkjum (viðauki II A) eða í sumum aðildarríkjum (viðauki II B) eru þar ekki í fyrirfram ákveðinn tíma heldur svo lengi sem ástand stofnsins (stærð, landfræðileg dreifing og viðkoma) réttlætir veiðarnar. Aðildarríkjunum ber að tryggja að landsreglur um framkvæmd veiðanna séu í samræmi við meginreglur um skynsamlega notkun og vistfræðilega jafnvæga stjórnun viðkomandi tegunda (4. milligrein 7. greinar fuglatilskipunarinnar). Ennfremur skulu aðildarríkin upplýsa framkvæmdastjórnina um beitingu veiðireglna sinna.
Flestar breytingar sem gerðar hafa verið á viðaukum II A og II B við fuglatilskipunina urðu í tengslum við aðildarsamninga nýrra aðildarríkja. Sem dæmi má nefna að með
aðildarsamningi Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar frá 1994 var tegundinni dalrjúpu (
Lagopus lagopus lagopus) bætt í viðauka II B og svarthæna (
Francolinus francolinus) bættist við sama viðauka með
samningnum um aðild tíu ríkja Mið- og Austur-Evrópu að ESB frá árinu 2003.
Ein breyting á viðauka II B við fuglatilskipunina hefur verið gerð með annarri tilskipun (
nr. 94/24/EC). Sú breyting var gerð í kjölfar þess að nokkur aðildarríki fóru þess á leit við framkvæmdastjórnina og að teknu tilliti til nýjustu upplýsinga um stöðu tiltekinna fuglategunda. Breytingin fól annars vegar í sér að fimm tegundum af ætt hröfnunga (
Corvidae) (skrækskaða -
Garulus glandarius, skjó -
Pica Pica, dvergkráku -
Corvus monedula, bláhrafni -
Corvus frugilegus og svartkráku -
Corvus corone), sem geta valdið skemmdum á uppskeru, var bætt á listann í viðauka II B. Hins vegar var afturkölluð heimild Ítala til að leyfa veiðar á jaðrakan (
Limosa limosa), lappjaðrakan (
Limosa lapponica) og fjöruspóa (
Numenius arquata) vegna þess hve líkar þær eru dílaspóa (
Numenius tenuirostris), sem er í útrýmingarhættu, og því hætt við að þeim yrði ruglað saman.
Í
leiðbeiningum framkvæmdastjórnarinnar um sjálfbærar veiðar í samræmi við fuglatilskipunina kemur fram að sérhver tillaga um breytingar á viðauka II við fulgatilskipunina skuli lögð fram af framkvæmdastjórninni og þarfnist samþykkis ráðsins og Evrópuþingsins til að ganga í gildi. Ákvörðun ráðsins skal tekin með auknum meirihluta og því getur ekkert eitt ríki beitt neitunarvaldi, hvorki af tilfinningalegum ástæðum né öðrum. Aftur á móti þurfa aðildarsamningar nýrra ríkja samþykki allra aðildarríkja til að ganga í gildi. Heldur ólíklegt verður þó að teljast að aðildarríki myndi synja aðildarsamningi nýs ríkis staðfestingar af þeirri ástæðu einni að það vilji af tilfinningalegum ástæðum ekki leyfa veiðar á tiltekinni fuglategund.
Ef Ísland gengur í ESB er líklegast að samið yrði við inngöngu um undanþágur vegna hefðbundinna veiða á fuglategundum þegar íslenski stofninn er ekki talinnn í hættu. Slíkar undanþágur mundu síðan gilda meðan engin hætta vofir yfir stofninum, en ætla má að íslensk stjórnvöld hefðu þá hvort eð er gripið í taumana.
Mynd:
Upprunalega barst spurningin sem athugasemd við svarið við spurningunni
Ég sat í veiðikofa um daginn eftir rólegan rjúpnadag og þá var fullyrt að við inngöngu í ESB mundu veiðar á rjúpu og svartfugli verða bannaðar. Er þetta rétt?
Hér er talað um að tegundir séu alfriðaðar og að sækja þurfi um heimild [undanþágu] til að fá að halda veiðum áfram. Hvernig fer þetta fram? Er sótt um "varanlega" heimild við inngöngu? Eða er sótt um heimild, sem veitt er í ákveðinn tíma og síðan sótt um að hún verði framlengd? Er sótt um heimild til stofnunar eða hafa öll ríki eitthvað um þetta að segja? Geta til dæmis Bretar beitt synjunarvaldi gegn lundaveiðum af tilfinningalegum ástæðum?