Spurning

Hver eru opinber tungumál Evrópusambandsins?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í Evrópusambandinu eru þjóðtungur allra aðildarríkjanna 28, samtals 24 tungumál, skilgreindar sem opinber tungumál sambandsins. Þetta á að tryggja jafnræði íbúa aðildarríkjanna óháð því hvert móðurmál þeirra er. Í daglegum störfum innan stofnana og meðal starfsfólks sambandsins er að mestu stuðst við ensku og frönsku.

***

Þjóðtungur allra aðildarríkjanna 28 eru skilgreindar sem opinber tungumál í Evrópusambandinu. Samtals eru þetta 24 tungumál. Fyrstu fjögur tungumálin (franska, hollenska, ítalska og þýska) voru ákvörðuð í fyrstu reglugerð Efnahagsbandalags Evrópu, forvera Evrópusambandsins, árið 1958 en þetta voru þjóðtungur stofnríkjanna sex. Síðan þá hefur opinberum tungumálum ESB fjölgað í takt við inngöngu nýrra ríkja í sambandið. Hér að neðan má sjá lista yfir tungumálin 24 og hvenær þau urðu að opinberum tungumálum sambandsins.

Ártal Opinber tungumál ESB
1958 franska, hollenska, ítalska og þýska
1973 danska, enska og írska
1981 gríska
1986 portúgalska og spænska
1995 finnska og sænska
2004 eistneska, lettneska, litháíska, maltneska, pólska, slóvakíska, slóvenska, tékkneska og ungverska
2007 búlgarska og rúmenska
2013 króatíska

Opinber tungumál Evrópusambandsins eru færri en aðildarríki þess vegna þess að í Austurríki og Þýskalandi eru þjóðtungurnar þær sömu, gríska er töluð bæði í Grikklandi og á Kýpur og Belgía og Lúxemborg deila þjóðtungum með nágrönnum sínum í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi.

Fjöldi opinberra tungumála Evrópusambandsins á að tryggja að íbúar aðildarríkjanna geti notað sama tungumálið í samskiptum sínum við ESB og stofnanir þess og þeir nota í samskiptum sínum við stjórnvöld í eigin landi. Löggjöf sambandsins er þýdd á öll opinberu tungumálin til að íbúar allra aðildarríkjanna geti kynnt sér lögin og áhrif þeirra óháð kunnáttu í erlendum málum. Þannig reynir ESB að tryggja að jafnræði sé milli þeirra íbúa sem tala útbreidd tungumál eins og ensku eða þýsku og hinna sem tala sjaldgæfari tungumál líkt og slóvensku eða eistnesku.


Evrópuþingið er merkt á öllum opinberum tungumálum Evrópusambandsins.

Þó svo að Evrópusambandið noti 24 tungumál í samskiptum sínum við íbúa aðildarríkjanna er misjafnt hvaða tungumál einstakar stofnanir nota sem vinnumál, stundum nefnd málsmeðferðartungumál (e. procedural languages). Vinnumál framkvæmdastjórnarinnar eru enska, franska og þýska, þó einkum þau tvö fyrstnefndu. Á Evrópuþinginu ávarpa þingmenn þingið alla jafna á móðurmáli sínu og er boðið upp á túlkun á öll opinber tungumál sambandsins. Hið sama er uppi á teningnum á fundum einstakra þinghópa. Við nefndarstörf koma þingmenn sér hins vegar iðulega saman um eitt vinnumál, oftast ensku. Fyrir dómstól Evrópusambandsins er leyfilegt að flytja mál á öllum opinberum tungumálum sambandsins. Misjafnt er hvaða tungumál málsaðilar velja, nema ríkisstjórnir aðildarríkjanna sem ætíð nota opinbert tungumál síns ríkis. Vinnumál dómara við dómstól Evrópusambandsins er á hinn bóginn alltaf franska. Samkvæmt reglum þurfa þeir að ráða ráðum sínum og skrifa drög að dómum á frönsku á lokuðum fundum án þjónustu túlka.

Tungumál sem töluð eru í aðildarríkjunum njóta ekki öll þeirrar viðurkenningar að vera opinber tungumál sambandsins. Sem dæmi má nefna basknesku, galisísku og katalónsku sem eru opinber tungumál á tilteknum svæðum á Spáni. Síðan árið 2006 hefur þó verið tekið sérstakt tillit til þessara tungumála og í tilfellum þar sem það hefur verið talið nauðsynlegt hafa tiltekin skjöl ESB verið þýdd yfir á þessi tungumál á kostnað spænska ríkisins. Þá hafa aðflutt tungumál líkt og tyrkneska, sem töluð er af stórum hópum innflytjenda í Þýskalandi, Belgíu og Hollandi, og tungumál sem töluð eru af innflytjendum frá Indlandsskaganum í Frakklandi, Bretlandi og á Spáni, svo sem maghreb arabíska, úrdú bengalska og híndí, ekki fengið álíka sérstöðu innan sambandsins.

Ef til inngöngu Íslands í Evrópusambandið kæmi yrði íslenska einnig opinbert tungumál sambandsins.

Þetta svar var uppfært 1. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.6.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver eru opinber tungumál Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 14.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65449. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela