Spurning

Hvaða tungumál er mest talað í Evrópu?

Spyrjandi

Fannar Steinn Aðalsteinsson, f. 2000

Svar

Spurningunni er ekki auðsvarað. Ef aðeins er litið til þeirra landa sem aðild eiga að Evrópusambandinu tala flestir þýsku. Þýska er að sjálfsögðu opinbert mál í Þýskalandi þar sem rúmlega 82 milljónir manna búa. Þýska er einnig opinbert mál í Austurríki en svæðisbundið eru þar töluð málin króatíska, slóvenska og ungverska án þess að teljast opinber mál. Þýska er einnig opinbert mál í Sviss ásamt frönsku, ítölsku og retórómönsku. Flestir hafa þar þýsku að móðurmáli eða um 64%. Þá er þýska opinbert mál í Liechtenstein. Í Lúxemborg er hún opinbert mál ásamt lúxemborgsku og frönsku og í Belgíu er hún sömuleiðis opinbert mál ásamt hollensku og frönsku. Áætlað er að um 120 milljónir hafi þýsku að móðurmáli í umræddum löndum.


Ef aðeins er litið til þeirra landa sem aðild eiga að Evrópusambandinu tala flestir þýsku. Í Evrópuhluta Rússlands eru hins vegar líklega heldur fleiri sem hafa rússnesku að móðurmáli en þýsku.

Rússland er langstærsta land heims og nær yfir Austur-Evrópu og Norður-Asíu. Ef aðeins er litið á Evrópuhlutann austur til Úralfjalla eru líklega heldur fleiri sem hafa rússnesku að móðurmáli en þýsku. Rússneska er opinbert tungumál alls Rússlands og það hafa að móðurmáli um 145 milljónir manna.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.1.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvaða tungumál er mest talað í Evrópu?“. Evrópuvefurinn 29.1.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63426. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Guðrún Kvaranprófessor

Við þetta svar er engin athugasemd Fela