Spurning

Hver var Johann Gottfried Herder og hverjar voru hugmyndir hans um Evrópuþjóðir og þjóðir almennt?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Johann Gottfried Herder (1744-1803) var fæddur í bænum Mohrungen í Austur-Prússlandi (nú Morag í Póllandi). Hann lærði guðfræði, heimspeki og bókmenntir við háskólann í Königsberg, þar sem hann kynntist meðal annars bæði Immanúel Kant (1724-1804) og Johann Georg Hamann (1730-1788), en hinn síðarnefndi var einn áhrifamesti gagnrýnandi upplýsingarinnar í Evrópu upp úr miðri 18. öld. Á árunum 1764-69 starfaði Herder sem prestur í borginni Ríga í Lettlandi, sem þá tilheyrði Rússlandi, en að þeirri dvöl lokinni lagði hann í ferð til Frakklands, sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á lífsviðhorf hans og hugmyndir um stöðu mannsins í þjóðfélaginu.


Johann Gottfried Herder (1744-1803).
Á þessum árum var Frakkland forystuland Evrópu, hvort sem var í stjórnmálum eða á menningarsviðinu. Upplýsingin var umfram allt frönsk að uppruna, en hún var eins, og kunnugt er, ríkjandi hugmyndastefna í álfunni á þessum árum, með gagnrýni sinni á hjátrú og hindurvitni, og áherslu á algild náttúrulögmál, hvort sem var í náttúrunni eða samskiptum manna. Í ferðinni snerist Herder öndverður gegn hugmyndum upplýsingarinnar og þá aðallega út frá tveimur forsendum; í fyrra lagi gramdist honum, sem Þjóðverja, yfirburðastaða franskrar menningar í Evrópu, sem kom meðal annars fram í því að þýsk yfirstétt kaus gjarnan að mæla á franska tungu frekar en þýska, enda þótti mun fínna að nota menningartunguna en hið barbaríska jaðarmál. Í seinna lagi hafnaði hann „úniversalisma“ upplýsingarinnar, eða hugmyndinni um að samfélög manna, hvar sem er í heiminum, lúti algildum lögmálum, ótengdum staðbundnum hefðum. Andstaða Herders við upplýsinguna átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á rómantíska hugsun 19. aldar, og þá ekki síst á vöxt þjóðernisstefnunnar í Evrópu ‒ en reyndar var það hann sem fyrstur manna notaði hugtakið nationalismus í þessu sambandi.

Í grófum dráttum byggir þjóðernisstefna Herders á þeirri sannfæringu hans að þjóðerni myndist fyrir stöðugt samspil manns og náttúru. Rök hans fyrir þessu var sú sannfæring að tungumálið, sem honum fannst frumforsenda þjóðernisins, endurspegli náttúrulegt umhverfi mannlegra samfélaga, af því að þau breytast og þróast í stöðugri glímu mannskepnunnar við náttúrulegar aðstæður sínar. Hefðir og venjur eiga, á sama hátt, rætur í náttúrunni, sem veldur því að þær verða mjög ólíkar á milli svæða og menningarheima. Herder skrifar til dæmis í sínu þekktasta verki, Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menschheit (Hugleiðingar um heimspeki mannkynssögunnar, 1784-1791):
Berið saman grænlenska goðafræði og indverska, lappneska og japanska, perúíska og goðafræði blökkumanna; fullkomna landafræði hins skapandi anda. Tæplega kæmi nokkur mynd í huga Bramína þegar Völuspá Íslendinga væri lesin fyrir hann og útskýrð; og Vedakvæðin yrðu Íslendingnum alveg jafn torskiljanleg.

Ofuráhersla Herders á tungumálið helgaðist ekki síst af þeirri vissu hans að það væri í senn lykill að sjálfsskilningi mannsins, vegna þess að við getum einungis fangað hugsanir okkar í orð, og grundvöllur allra samskipta manna á milli. En orðin hafa líka dýpri áhrif á manninn en þau sem í þessu felast, segir Herder, vegna þess að tilfinningalíf okkar er fólgið í móðurmálinu, það er að segja tungumálinu sem við lærum í barnæsku. Fyrstu orðin sem brjóstmylkingurinn lærir af foreldrum sínum móta huga hans og sál, segir Herder í ritgerð um uppruna tungumála (Abhandlung über den Ursprung der Sprache, 1772); það sem eftir er lífsins „lifa þessi fyrstu áhrif frá barnæskunni, þessar myndir úr hugum og hjörtum foreldranna; með orðunum flytjast áfram allar þær tilfinningar sem flæddu um huga hans í upphafi […]“. Manninum gagnast því ekki hvaða tungumál sem er, vegna þess að ekkert tungumál hefur sömu tilfinningalegu skírskotun og móðurmálið ‒ ekkert annað tungumál veitir manninum aðgang að dýpstu fylgsnum sálarlífsins.


Herder leggur mikla áherslu á tungumálið. Fyrstu orðin sem brjóstmylkingurinn lærir af foreldrum sínum móta huga hans og sál, segir Herder í ritgerð um uppruna tungumála.

Kenningar Herders voru, eins og áður sagði, fyrst og fremst settar fram sem andóf gegn hugmyndum upplýsingarinnar um að til væru altæk lögmál um skipan mannlegs samfélags. Sérhver menningarhópur, sem hann nefndi Volk, eða þjóð, átti sér sérstakar hefðir, sem mótuðust af aldalangri sögu hans og fluttust á milli kynslóða með tungumálinu og þjóðlegri menningu alþýðunnar. Herder fannst af þeim sökum að eðlilegast væri, og í bestu samræmi við náttúrulega skipan þjóðfélagsins, að hver þjóð stjórnaði sér sjálf. Þar sem þjóðmenningin endurspeglaði umhverfið, og aðstæður hverrar þjóðar voru sérstakar, var ekki til nein ákveðin algild fyrirmynd um það hvernig haga átti samskiptum þegnanna, heldur hlaut stjórn hvers ríkis að taka mið af hefðbundnum einkennum þjóðarinnar. Ekki þarf því að koma á óvart að Herder var mjög í nöp við „óeðlilega“ stór ríki, þar sem „kynþáttum og þjóðum var blandað saman á villtan hátt undir einum veldissprota […]“, eins og hann orðaði það. Slíkur sambræðingur gat aldrei orðið annað og meira en „brothætt vél, sem nefna mætti ríkisvél, án innra lífs eða samkenndar hinna ýmsu hluta“. Þessum orðum var beint gegn flestum konungsríkjum Evrópu á 18. öld, en á þeim tíma voru öll sterkustu ríki álfunnar samsett úr ósamstæðum héruðum, oft fjöldamörgum, sem sjaldnast áttu annað sameiginlegt en einvaldan erfðakóng.

Kenningar Herders um þjóðmenningu og þjóðríki eru, með einum eða öðrum hætti, uppspretta menningarlegrar þjóðernisstefnu í hvaða mynd sem hún hefur birst síðustu tvær aldirnar. Honum hafa því stundum verið kennd flest þau óbermi sem þessi angi þjóðernisstefnunnar hefur alið af sér, allt frá kynþáttahyggju yfir í hugmyndina um Favoritvolk ‒ hina útvöldu þjóð ‒ sem hefur rétt á troða á öðrum þjóðum að vild í krafti meintra yfirburða sinna. Í raun á Herder betra skilið, af því að hann var alla tíð sannfærður afstæðishyggjumaður um gildi þjóðernis og algerlega mótfallinn því að telja eina þjóð annarri fremri. Hann gerði þannig mjög lítið úr hlutverki kynþátta við myndun þjóðernis ‒ og fyrir vikið gagnrýndu menn á borð við Kant hann fyrir að fara niðrandi orðum um kynþáttahugtakið. Herder gekk reyndar svo langt í að afneita kynþáttahyggjunni að hann fullyrti að Evrópubúar væru ekkert merkilegri íbúum annarra heimsálfa, og hafnaði hann því með öllu bæði nýlendustefnu og þrælahaldi.

Herder dró í raun sjálfur ekki aðrar ályktanir af þjóðernishugmyndum sínum en þær að mannkynið deildist upp í ólík menningarsamfélög sem öll væru jafn rétthá og mikilvæg fyrir framtíð mannkynsins. Um leið benti Herder löndum sínum á að þeir þyrftu alls ekki að skammast sín fyrir sína eigin menningu; þýskt andans líf væri allt eins merkilegt og franskt, jafnvel þótt almennt væri viðurkennt að Frakkar hefðu forystu á meginlandi Evrópu á síðari hluta 18. aldar. Í kvæði sem hann nefndi „An die Deutschen“ sárbændi Herder landa sína um að láta af erlendri eftiröpun:
Og þú Þjóðverji, vilt þú einn heilsa þinni eigin móður

á frönsku, þegar þú snýrð aftur af erlendri grund?

Ó, spýttu út úr þér við húsdyrnar, spýttu út úr þér

andstyggilegri leðjunni úr Signu.

Talaðu þýsku, ó þú Þjóðverji! Ekki eltast við tískuna

í látbragði og siðum. Orð þín

líkjast afreksverkum, líkjast óhagganlegum

björgum sannleikans.

Myndir:


Þetta svar er hluti af grein í málstofu Vísindavefsins sem ber heitið Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.5.2013

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Hver var Johann Gottfried Herder og hverjar voru hugmyndir hans um Evrópuþjóðir og þjóðir almennt?“. Evrópuvefurinn 29.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60897. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarsonprófessor í sagnfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela