Spurning

Getum við borið ESB saman við eitthvað annað kerfi í sögunni?

Spyrjandi

Sigurlaug G. Jóhannsdóttir

Svar

Óhætt er að fullyrða að Evrópusambandið er einstætt ríkjasamband og að því leyti er það tæplega sambærilegt við nokkuð annað sögulegt fyrirbæri eða „kerfi í sögunni“. Það sem einkennir sambandið er annars vegar að það er samband fullvalda þjóðríkja, sem halda fast í táknræn gildi þjóðríkisins – það er þau rækta tilfinningu þegnanna fyrir sérstöðu þjóðanna gagnvart þegnum annarra þátttökuríkja sambandsins. Evrópusambandið er að þessu leyti mjög ólíkt Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA), því að þótt einstök fylki BNA hafi vald yfir ýmsum þáttum ríkisvaldsins þá líta Bandaríkjamenn á sig sem eina þjóð og miðstjórnin í Washington talar fyrir hönd þeirra allra á alþjóðlegum vettvangi.

Hins vegar er samstarf ESB-ríkjanna mun nánara og margþættara en gerist í nokkrum öðrum klúbbi sjálfstæðra ríkja fyrr eða síðar. Slík félög eru yfirleitt stofnuð annaðhvort til að leysa tiltekin afmörkuð vandamál (svo sem hernaðarbandalög á borð við NATO), eða þau starfa sem umræðuvettvangur þátttökuríkjanna án miðstýringar eða yfirþjóðlegs boðvalds – þar má nefna Norðurlandaráð og Sameinuðu þjóðirnar.


Stækkun Evrópusambandsins frá 1958 til 2007.

Þótt margt sé sérstakt í starfsemi Evrópusambandsins þá breytir það því ekki að það starfar í sama heimi og þau fyrirbæri sem nefnd voru að ofan. Því er sambandið óhjákvæmilega borið saman við ýmiss konar söguleg kerfi, svo sem sambandsríki eins og Bandaríkin eða herská útþensluríki á borð við Þýskaland nasismans og Sovétríkin. Síðari samanburðurinn er reyndar byggður á misskilningi á eðli sambandsins, og á því engan rétt á sér. Þróun Evrópusambandsins hefur enda fyrst og fremst stýrst af flóknum samningum milli þátttökuríkjanna, þar sem leitað er praktískra lausna á einstökum vandamálum sem upp hafa komið, fremur en að unnið sé eftir einhvers konar hugmyndafræðilegri forskrift.

Fyrri samanburðurinn er réttmætari, því að ýmislegt virðist kalla á enn nánara samband þátttökuríkjanna og er þá gjarnan vísað til Bandaríkjanna sem fyrirmyndar. Efnahagskreppan á evrusvæðinu hefur gefið slíkum hugmyndum byr undir báða vængi, enda hefur reynslan sýnt að erfitt er að nota sameiginlega mynt án miðstýrðrar peningastefnu og fjárlagagerðar. Tilraunir til að þróa Evrópusambandið í þessa átt, til að mynda með sameiginlegri stjórnarskrá, hafa mætt mikilli andstöðu meðal þegna og ráðamanna í mörgum þátttökuríkjum og er því ólíklegt að þær séu raunhæfur grundvöllur fyrir framtíðarskipan sambandsins.

Niðurstaðan virðist því vera sú að hæpið sé að bera Evrópusambandið saman við Bandaríkin eða önnur ríkjasambönd sem við þekkjum til. Sambandið er í eðli sínu nýjung, sem er stöðugt að breytast og mun halda áfram að breytast í framtíðinni. Jafnvel þótt oft hafi hlaupið snurða á þráðinn hefur þróunin til þessa ætíð verið í átt að dýpri samruna og nánara samstarfi þátttökuríkjanna; aldrei hefur verið stigið skref til baka á þeirri braut.

Það sem haldið hefur sambandinu saman er einlægur vilji yfirgnæfandi meirihluta ráðamanna í Evrópuríkjunum til að halda samstarfinu áfram, þótt á því séu auðvitað fjölmargar undantekningar. Þar að baki liggur sú sannfæring að sambandið hafi tryggt frið í álfunni eftir aldalangar deilur ríkja á milli, að samstarf Evrópuríkjanna hafi skilað þegnunum miklum efnahagslegum og pólitískum ávinningi og að áframhaldandi samstarf sé nauðsynlegt til að tryggja stöðu Evrópu í breyttu heimshagkerfi framtíðarinnar. Hvort að sá vilji dugar til að sigla sambandinu í gegnum þann ólgusjó sem það er statt í nú á eftir að koma í ljós.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela