Spurning

Norðurlandaráð

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Norðurlandaráð var stofnað árið 1952. Það er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlandanna og sjálfstjórnarsvæða þeirra. Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð voru stofnríki Norðurlandaráðsins en Finnland gerðist aðili að ráðinu árið 1955, Álandseyjar og Færeyjar árið 1970 og Grænland árið 1984.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar voru ýmsar hugmyndir á lofti um hvernig mætti efla norrænt samstarf. Fyrstu tilraunirnar báru ekki ávöxt, til að mynda hugmyndin að norrænu varnarbandalagi sem ekki varð að veruleika vegna svokallaðs samstarfssamnings milli Finnlands og Sovétríkjanna, árið 1948, og inngöngu Danmerkur, Íslands og Noregs í NATO árið 1949.

Ýmis skref í átt að nánara samstarfi milli Norðurlandanna voru stigin fyrstu árin eftir stofnun Norðurlandaráðs; til að mynda var sameiginlegur norrænn vinnumarkaður skapaður og norræna vegabréfasambandinu komið á fót. Áform um sameiginlegt norrænt efnahags- og tollabandalag náðu hins vegar ekki fram að ganga.

Norðurlandaráð samanstendur af þingi, forsætisnefnd, nefndum, sendinefndum, skrifstofu og upplýsingadeild.

Þingið kemur saman tvisvar sinnum á ári; á haustin þegar Norðurlandaráðsþing fer fram og á vorin þegar árlegur þemafundur ráðsins er haldinn. Vorþemaþing var haldið í fyrsta sinn í mars árið 2012 í Reykjavík og fjallaði um málefni tengd Norðurskautssvæðinu. Þegar þingið kemur saman á haustin kýs það, fyrir næsta ár, forsætisnefnd til eins árs, ákveður fjölda nefnda og starfssvið þeirra og setur ráðinu þingsköp. Á þinginu sitja 87 fulltrúar en þeir eru allir þingmenn í heimalöndum sínum og kjörnir af þjóðþingum hvers ríkis í samræmi við tilnefningu innlendra þingflokka. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eiga tuttugu fulltrúa hvert í Norðurlandaráðinu; þar af eru tveir af fulltrúum Danmerkur frá Færeyjum og tveir frá Grænlandi, en tveir af fulltrúum Finnlands koma frá Álandseyjum. Sjö fulltrúar sitja fyrir hönd Íslands.

Forsætisnefndin er æðsta ákvörðunarvald Norðurlandaráðs en hún er kosin af þinginu til eins árs í senn. Ellefu fulltrúar sitja í nefndinni auk forseta og varaforseta. Fulltrúarnir eru kjörnir úr hópi þingmanna sem sitja á þinginu á meðan forsetinn og varaforsetinn koma frá því ríki sem verður gestgjafi hefðbundna haustþingsins á komandi ári og færast embættin því árlega milli ríkja. Forsætisnefndin stýrir og samræmir starf allra starfseininga ráðsins. Hún ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum málefnum, eins og þeim sem snerta utanríkis- og varnarmál, gerir framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun, setur reglur um starf skrifstofunnar og ræður starfsfólk hennar. Nefndin getur þar að auki tekið ákvarðanir fyrir hönd ráðsins milli árlegu þinganna.

Nefndir Norðurlandaráðs eru fimm talsins og fer hver og ein með tiltekið pólitískt málefni, nema utanríkis- og öryggismál sem eru í höndum forsætisnefndarinnar. Tillaga sem lögð er fram af fulltrúa eða fulltrúahópi á þinginu er vísað áfram til umfjöllunar hjá viðkomandi fagnefnd sem skilar álitsgerð til forsætisnefndarinnar eða leggur hana fyrir haust- eða vorþingið til ákvörðunar.

Öll Norðurlöndin hafa starfandi sendinefnd til Norðurlandaráðs. Þær hafa eftirlit með því að ákvörðunum ráðsins sé fylgt eftir í heimalöndunum og starfa innan þjóðþinga aðildarríkjanna.

Skrifstofa Norðurlandaráðs undirbýr og fylgir eftir málum sem fjallað er um í forsætisnefndinni og fagnefndunum og vinnur í samráði við sendinefndir Norðurlandaráðs. Skrifstofan undirbýr einnig haust- og vorþingin. Fimmtán einstaklingar, sem koma frá öllum Norðurlöndunum, starfa á skrifstofunni sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn. Daglegum störfum skrifstofunnar er stýrt af framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs. Núverandi framkvæmdastjóri er Jan Erik Enestam frá Finnlandi og hefur hann sinnt starfinu síðan árið 2007.

Upplýsingadeild Norðurlandaráðs hefur verið rekin frá árinu 1999 og samanstendur af deildarstjóra, upplýsingaráðgjöfum, vefstarfsmönnum, túlkum, þýðendum, útgáfustarfsmönnum, verkefnaráðnum starfsmönnum og námsmönnum í hlutastarfi. Störf þeirra felast í því að miðla upplýsingum og halda samskiptaleiðum opnum milli fulltrúa Norðurlandaráðs til lengri og skemmri tíma.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur26.10.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Norðurlandaráð“. Evrópuvefurinn 26.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63482. (Skoðað 3.11.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela