Spurning

Er algengt að aðildarríki ESB myndi klíkur eða bandalög?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Aðildarríki Evrópusambandsins starfa gjarnan saman þegar hagsmunir þeirra eiga samleið til að auka áhrif sín innan sambandsins. Þar sem engin tvö ríki eiga nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta eru hagsmunabandalög yfirleitt ekki langlíf heldur einangruð við einstök málefni. Sum hagsmunabandalög hafa þó verið starfrækt lengi líkt og bandalag Hollands, Belgíu og Lúxemborgar, Benelux-landanna, og stórríkjabandalag Þýskalands og Frakklands.

***

Það hefur lengi tíðkast að aðildarríki Evrópusambandsins stofni til bandalaga, til lengri eða skemmri tíma, til þess að gæta hagsmuna sinna innan sambandsins. Slík hagsmunabandalög hafa orðið algengari í seinni tíð eftir því sem aðildarríkjunum hefur fjölgað og erfiðara hefur orðið fyrir einstök ríki að standa vörð um hagsmuni sína án stuðnings annarra ríkja. Þá þykir smærri ríkjum sambandsins sérstaklega eftirsóknarvert að fá til liðs við sig stór aðildarríki, sem eiga svipaðra hagsmuna að gæta, vegna mikillar stjórnsýslugetu þeirra og vægis í ákvarðanatökum í ráðinu.

Eitt elsta hagsmunabandalagið í ESB er bandalag Belgíu, Hollands og Lúxemborgar, Benelux-landanna. Lúxemborg, sem er eitt minnsta og fámennasta aðildarríki ESB, hefur ekki síst notið góðs af þessu bandalagi og meðal annars náð að gæta hagsmuna viðamikillar bankastarfsemi í landinu, en eitt helsta hagsmunamál landsins er að regluverk ESB hefti ekki starfsemi bankanna í landinu. Þekktasta og jafnframt elsta stórríkjabandalagið í sambandinu er bandalag Þýskalands og Frakklands, oft nefnt fransk-þýska bandalagið. Þessi tvö lönd hafa átt í nánum samskiptum svo áratugum skiptir og er bandalag þeirra almennt talið það sterkasta innan Evrópusambandsins.


Forseti Frakklands François Hollande og Angela Merkel kanslari Þýskalands eru nú í forsvari fransk-þýska bandalagsins.

Engin tvö ríki eiga þó nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta og því er samstarfið yfirleitt einangrað við einstök málefni. Ríki geta til að mynda verið sammála á vettvangi umhverfismála en haft ólíkar skoðanir á samgöngumálum. Það er því ekki óeðlilegt að Benelux-löndin eða Þýskaland og Frakkland séu á öndverðum meiði í vissum málum þrátt fyrir bandalög sín. Þannig hafa Írland og Frakkland til að mynda unnið mikið saman í landbúnaðarmálum og Austurríki og Þýskaland í samgöngumálum. Bandalag Benelux-landanna er ennfremur eina smáríkjabandalagið sem hefur haldist til langs tíma því yfirleitt mynda smáríki ekki bandalög nema til skamms tíma, á meðan þau beita sér fyrir sameiginlegum málstað.

Löng hefð er fyrir samstarfi Norðurlandanna í ýmsum málaflokkum í ESB. Í skýrslu Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins er gert ráð fyrir því að ef til aðildar Íslands að ESB kæmi yrði fyrst og fremst litið til samvinnu við önnur Norðurlönd. Sú samvinna færi þó eftir því hvaða málefni væru til umfjöllunar hverju sinni. Einnig gæti Ísland hugsanlega komið að samvinnu Írlands og Frakklands í landbúnaðarmálum.

Þau Norðurlönd sem eiga aðild að ESB, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, hafa jafnan staðið saman til þess að auka áhrif sín innan sambandsins. Að vissu leyti eru Ísland og Noregur hluti af þessu bandalagi án þess að eiga aðild að ESB en Norðurlöndin hafa oft haldið svokallaða forfundi fyrir fundi ráðs ESB þar sem farið er yfir þau mál sem eru á dagskrá ráðsins. Á þessum fundum hefur Ísland getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Að því gefnu að Norðurlöndin séu sammála um tiltekið málefni þá geta ríkin sem eiga aðild að ESB í sumum tilvikum einnig talað máli Íslands og Noregs. Þetta samstarf er hins vegar óformlegt og Norðurlöndin eru ekki endilega sammála í öllum málaflokkum þótt hagsmunir þeirra fari oft saman. Það er því engin trygging fyrir því að Norðurlöndin, sem eiga aðild að ESB, taki málstað Íslands í ráðinu.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.5.2012

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Er algengt að aðildarríki ESB myndi klíkur eða bandalög?“. Evrópuvefurinn 25.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62665. (Skoðað 13.10.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela