Spurning

Af hverju hafa Þýskaland og Frakkland svona mikið að segja í ESB? [Fréttaskýring]

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Þýskaland og Frakkland hafa ávallt verið kjölfestan í Evrópusambandinu og forverum þess, enda liggur ein helsta rót sambandsins í vilja þessara fyrrum óvinaríkja til að koma í veg fyrir stríð þaðan í frá. Þau hafa þó ekki alltaf átt sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þegar Efnahagsbandalag Evrópu var stofnað árið 1958 lá við að upp úr syði milli þeirra, meðal annars vegna landbúnaðarmála, en upp úr því tókust góð kynni með Adenauer kanslara og de Gaulle forseta og þeir leystu ýmis viðkvæm ágreiningsmál í bróðerni. Allar götur síðan hefur oft komið fyrir í sögu ESB að Frakkar og Þjóðverjar hafa fyrst leyst úr ágreiningsmálum sín á milli og síðan lagt sameiginlegar tillögur fyrir stofnanir sambandsins.Charles de Gaulle og Konrad Adenauer.

Hér má hafa í huga að Þýskaland er núna fjölmennasta ríkið í ESB; þar búa nú 82 milljónir manna. Frakkland er í öðru sæti með 64 milljónir íbúa og samanlagt búa í þessum tveimur ríkjum um 29 % af íbúum sambandsins. Hlutfallið er enn hærra í landsframleiðslu því að Þýskaland framleiðir 20 % af vergri landsframleiðslu ESB og Frakkland 14 %, þannig að samanlagt hlutfall þessara tveggja landa er um 34 %.

Þýskaland hefur að mörgu leyti verið forysturíki ESB í seinni tíð, eftir að sambandið sleit barnsskónum. Þjóðverjar hafa alltaf haft mikinn hag af aðild sinni að sambandinu. Bandalögin sem síðar urðu að ESB áttu mikinn þátt í því í upphafi vega að Vestur-Þýskaland fékk smám saman viðurkenndan sess í samfélagi þjóðanna eftir heimsstyrjöldina 1939-1945. ESB hefur æ síðan skapað Þýskalandi mikilvægan og kærkominn markað fyrir iðnaðarvörur sínar og einnig tryggt ríkinu öryggi með samráði og samvinnu við nágrannaþjóðir á alla vegu, ekki síst eftir að Þýskaland var sameinað árið 1990. -- Þjóðverjar hafa líka í verki haft veruleg áhrif á þróun Evrópusambandsins, bæði vegna fólksfjölda, efnahagslegs styrks og stöðugleika. Áhrifin byggjast öðru fremur á þessum staðreyndum en ekki endilega á formlegri stöðu í stofnunum sambandsins.

Við þetta bætist að Angela Merkel hefur að mati fræðimanna getið sér góðan orðstír innan sambandsins sem hæfur stjórnmálamaður og leiðtogi, snjöll í málamiðlunum og úrræðagóð. Sarkozy er önnur manngerð en þau virðast bæta hvort annað upp. Samvinna þeirra og samstaða er til dæmis talin hafa átt mikinn þátt í að Lissabon-sáttmálinn var að lokum undirritaður árið 2007 eftir margra ára þóf (Dinan, 2010, 211; Warleigh-Lack, 2009, 100).

Að öllu samanlögðu er þannig engin furða að menn taki vel eftir þegar leiðtogar Þýskalands og Frakklands koma saman og láta í sér heyra um málefni Evrópusambandsins.

Heimildir og myndir:
  • Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration. 4. útgáfa. Houndmills, Basingstoke: Palgrave/Macmillan.
  • Warleigh-Lack, Alex, 2009. European Union: The Basics. 2. útg. London: Routledge.
  • Mynd af Adenauer og de Gaulle sótt á de.wikipedia.org, 18.8.2011.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.8.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Þórhildur Hagalín. „Af hverju hafa Þýskaland og Frakkland svona mikið að segja í ESB? [Fréttaskýring]“. Evrópuvefurinn 22.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60479. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela