Spurning

Hvað teljið þið helst til tíðinda í yfirlýsingu Merkel og Sarkozys frá 16. ágúst? [Fréttaskýring]

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í fyrsta lagi gefur yfirlýsing Merkel og Sarkozys tilefni til að hugleiða stöðu smáríkja sem hafa barist í bökkum að undanförnu. Í öðru lagi förum við nokkrum orðum um stöðu evrukerfisins, kosti þess og galla. Þá ræðum við hugmyndir um samræmdan fyrirtækjaskatt í Þýskalandi og Frakklandi, og að lokum er hér fjallað um tillögur um skatt á fjármagnstilfærslur eða fjármálaviðskipti, en þess konar skattur er oft kenndur við bandaríska hagfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann James Tobin.

Staða smáríkjanna

Þrátt fyrir efnahagslegan styrk sinn hafa stóru ríkin í ESB oft átt við ramman reip að draga í vaxandi hópi smáríkja. Smáríkin vita sem er að efnahagslegt vægi þeirra á markaðstorginu er lítið og áhrif þeirra léttvæg eftir þeirri leið. Mörg smáríki óttast að þróun sambandsins skerði fullveldi þeirra um of og leitast því við að hafa sem mest áhrif í valdastofnunum þar sem fulltrúatala þeirra eða atkvæðavægi er talsvert umfram beint hlutfall við íbúafjölda eða efnahagslegt vægi. En þótt smáríkin nái stundum talsverðum árangri í þessari eftirsókn eftir formlegu valdi kann það að koma fyrir lítið þegar blákaldur veruleiki efnahagslífsins er annars vegar eins og við sjáum núna.

Líklega er tilgangurinn með útspili Merkel og Sarkozys meðal annars sá að leiða í ljós að leiðtogar smáríkja sem eiga nú í verulegum efnahags-erfiðleikum og sækjast eftir aðstoð annarra ríkja eru milli steins og sleggju. Ef þeir kjósa að skella skollaeyrum við hugmyndum um aukið og nánara samstarf eiga þeir á hættu að tapa samúð stóru ríkjanna sem eru yfirleitt talin geta veitt þá hjálp sem mundi duga. Ef leiðtogarnir kjósa hins vegar að fallast á kröfurnar um samstarf og samræmingu eiga þeir á hættu að það verði skilið sem fullveldisskerðing heima fyrir og leiði til óvinsælda og atkvæðataps, að minnsta kosti í bráð.

Hugmyndin um evruna

Einn af helstu hornsteinum Evrópusambandsins í öndverðu var hin fræga hugmynd um fjórfrelsið, það er að segja um frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu innan sambandins til að tryggja samkeppni á jafnréttisgrunni sem yrði öllum í hag þegar til lengdar lætur. Kringum 1990 höfðu menn náð umtalsverðum árangri í átt til fjórfrelsis á ýmsum sviðum, einkum í flæði vöru og þjónustu. Menn þóttust þá hins vegar sjá að þessu markmiði yrði ekki náð til fulls varðandi fjármagnsflæði nema sami gjaldmiðill yrði tekinn upp í aðildarríkjum sambandsins. Og eftir langan og strangan undirbúning var evran tekin upp í tólf ríkjum ESB árið 2002.

Meðan hægviðri ríkti í efnahagskerfi Vesturlanda má segja að allt hafi leikið í lyndi með evruna. Aðildarríkjum hennar fjölgaði og þau eru nú 17 talsins. Hins vegar var stundum slakað á ýtrustu reglum eða byggt á ótraustum upplýsingum þegar ný ríki bættust við og það sagði því miður til sín þegar veður versnuðu í efnahagsmálum heimsins.

Eins og flest mannanna verk hefur hugmyndin um sameiginlega mynt í efnahagsbandalagi fullvalda ríkja bæði kosti og galla, miðað við hinn kostinn, að hvert ríki hafi sinn gjaldmiðil. -- Annars vegar dregur evran meðal annars úr sveiflum í gengi gjaldmiðilsins og skapar smáríkjum skjól gegn árásum braskara á mynt sína, en slíkt verður sífellt auðveldara með örum rafrænum og óheftum viðskiptum, skortsölu og öðrum þess háttar umdeilanlegum aðferðum. -- Hins vegar dregur sameiginlega myntin líka úr möguleikum á því að gengi gjaldmiðils nýtist til aðlögunar að gengissveiflum í einstökum ríkjum; það er að sumu leyti eins og eitt verkfærið hafi horfið úr verkfæratösku þeirra sem fást við hagstjórn.

Hér við bætist að evran sjálf eða gengi hennar er lítt nothæf sem markvisst efnahagslegt stjórntæki fyrir aðildarríkin í heild vegna þess hve sundurleit þau eru í ýmsum málum sem þarna koma við sögu. Frá upphafi hugmynda um sameiginlega mynt í ESB fylgdu þeim gagnrýnisraddir, sem héldu því fram að forsendan fyrir því að myntbandalag sambandsins gæti gengið upp væri einmitt sú samræming í ríkisfjármálum aðildarríkjanna sem Merkel og Sarkozy hafa nú kallað eftir með áformum um „alvöru“ efnahagsbandalag. Þau virðast þannig ætla sér að bjarga evrusamstarfinu með því að byggja loksins grunninn sem hefði þurft að vera fyrir hendi í byrjun.

Skattar á fyrirtæki

Evrópusambandið hefur hingað til ekki haft afskipti af skattamálum einstakra aðildarríkja. Væntanlega hafa skattar á einstaklinga verið taldir hafa hverfandi áhrif á fjórfrelsið og hitt hefur verið viðkvæmt að taka upp afskipti af skattamálum fyrirtækja. Þannig hafa sum aðildarríkin, svo sem Írland og Lúxemborg, og einnig einstök svæði eins og Ermarsundseyjarnar gert út á það að hafa skatta á fyrirtæki lægri en annars staðar eða veita aðra svipaða fyrirgreiðslu til að laða fyrirtæki og fjármagn til sín.Nicolas Sarkozy og Angela Merkel fyrir framan Elysée-höllina 16.8.2011.

Merkel og Sarkozy hafa lengi verið talsmenn þess að samræma skatta á fyrirtæki í aðildarríkjum evrunnar. Rökin eru ekki langsótt þar sem þetta þýðir auðvitað samræmingu á samkeppnisaðstöðu og þar með ennþá „frjálsara“ flæði fjármagns milli ríkjanna innan ESB. Framkvæmdastjórn sambandsins hefur ítrekað borið upp tillögur um sameiginlegan matsgrunn fyrirtækjaskatta en þær hafa allar verið felldar í leiðtogaráðinu. Merkel og Sarkozy gera nú ekki tillögur um samræmdar aðgerðir í sambandinu öllu á þessu sviði, heldur lýsa þau yfir vilja til að Frakkar og Þjóðverjar samræmi skatta á fyrirtæki sín á milli, bæði að því er varðar skattstofn og -hlutfall. Líklegt er að þarna ráði raunsæi ferðinni; þau telji ekki að meiri samræming en þetta geti náð fram að ganga núna, en það kunni ef til vill að breytast síðar.

Skattur á fjármálaviðskipti

Önnur hugmynd Merkel og Sarkozys er um skatt á öll fjármálaviðskipti af því tagi sem kennt hefur verið við bandaríska hagfræðinginn og Nóbeslverðlaunahafann James Tobin (1918-2002), prófessor í hagfræði við háskólana í Harvard og Yale. Hann setti hugmynd sína um svonefndan Tobin-skatt upphaflega fram árið 1972. Hann lagði þá til að menn mundu skattleggja brask sem fylgdi sveiflum í gengi gjaldmiðla og hann taldi bæði hættulegt og óarðbært fyrir heildina. Síðar hafa menn bent á að sama hugsun á einnig við um verðbréfaviðskipti og verslun með hvers konar fjármálagjörninga sem svo eru kallaðir. Nánar má lesa um Tobin-skattinn í svari Gylfa Magnússonar á Vísindavefnum frá árinu 2002 við spurningunni Hvað er Tobin-skattur? Yrði hann skaðlegur fyrir heimsbyggðina?

Bæði Frakkar og Þjóðverjar hafa um nokkurt skeið talað fyrir Tobin-skatti á vettvangi Evrópusambandsins og þær hugmyndir hafa einnig fengið skýran meirihlutastuðning í Evrópuþinginu. Þar telja menn að skatturinn muni stuðla að stöðugleika í fjármálakerfum með því að draga úr sveiflum sem verða oft af verðbréfabraski eins og menn þekkja af langri reynslu. Menn hafa annars lengi velt fyrir sér hvert tekjurnar af slíkum skatti ættu að renna en Merkel og Sarkozy leggja til að hann verði virkjaður ásamt öðru til að styrkja undirstöður fjármálakerfisins.

Eins og við er að búast vekur þessi hugmynd strax mikil andmæli, ekki síst í fjármálaheiminum en einnig í mörgum aðildarríkjum. Engum þarf að koma á óvart að þeir sem telja sig eiga mestra hagsmuna að gæta rísi öndverðir, það er að segja fjármálafyrirtæki og starfsmenn þeirra. Hin rökin vega þyngra að starfsemin sem átti að skattleggja kann að færa sig út fyrir gildissvæði skattsins ef það nær ekki um allan heim. En bæði kann að vera hægt að sjá við því og eins gæti verið að reynslan af skattinum yrði þannig að hann yrði tekinn upp í öllum verðbréfaviðskiptum.

Þeirri skoðun vex nú fiskur um hrygg að áhrif fjármálamarkaðarins séu alltof mikil í vestrænum samfélögum nútímans og Tobin-skatturinn kunni að vera ein leið til að hafa hemil á þessum áhrifum. Hugmyndin minnir raunar á hvers konar hemla sem menn nota oft gegn hreyfingum án þess að stöðva þær endilega alveg. Eitt dæmi um slíkt er höggdeyfar (demparar) í bílum sem hafa það hlutverk eitt að deyfa sveiflur. Ekki er heldur verra að hafa hemla í bíl þegar hann mundi ella renna viðstöðulaust niður brekku og fyrir björg.

Lokaorð

Hér hefur verið rætt um ýmis atriði í tillögum þeirra Merkels og Sarkozy, einkum í því skyni að dýpka skilning lesandans á þeim, sýna bakgrunn og annað þess háttar, og vekja til umhugsunar. Sumir munu segja að verðbréfamarkaðurinn hafi þegar dæmt tillögurnar óhæfar með fyrstu viðbrögðum sínum. En sá markaður er ekki æðsti dómari í öllum málum.

Tillögurnar þurfa að hljóta samþykki allra evruríkjanna 17 til þess að vera bindandi fyrir evruríkin. Það gæti reynst þrautin þyngri. Nú þegar hafa vandamálin á evrusvæðinu kostað það að horfið hefur verið frá mikilvægum meginreglum evrusamstarfsins eins og þeirri að ekkert ríki þurfi að borga fyrir skuldir annars ríkis. Fleiri skref í þessa átt munu óumflýjanlega verða til þess að einstaklingar, leiðtogar og ríki velti því vandlega fyrir sér hvort ávinningurinn af heildarþróuninni og einstökum skrefum, standi undir því sem menn telja sig tapa.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.8.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Þórhildur Hagalín. „Hvað teljið þið helst til tíðinda í yfirlýsingu Merkel og Sarkozys frá 16. ágúst? [Fréttaskýring]“. Evrópuvefurinn 22.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60462. (Skoðað 19.6.2024).

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela