Spurning

Hvaða hugmyndir hafa menn haft um Evrópuhugsjónina og Evrópusamruna frá síðari heimsstyrjöld og til okkar daga?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Auk þessa svars er fjallað um Evrópuhugsjónina í tveimur öðrum svörum eftir sama höfund:

Hugmyndir um evrópska samvinnu komust á nýtt stig eftir síðari heimsstyrjöld. Þar skipti mestu máli að leiðtogar Vestur-Evrópu sannfærðust um að slík samvinna væri bæði forsenda þess að ríkin gætu endurreist efnahag sinn úr rústum styrjaldarinnar og að eina leiðin til að koma á varanlegum friði í álfunni fælist í stofnun einhvers konar ríkjasamtaka. Lykilmenn í þessari þróun voru Konrad Adenauer (kanslari Vestur-Þýskalands 1949–1963) og franski ráðherrann Robert Schuman (forsætisráðherra 1947–1948 og utanríkisráðherra 1948–1953), en á fundum þeirra árið 1949 lagði Adenauer til að stofnað yrði til efnahagssamtaka hinna fornu fjandmanna, Þjóðverja og Frakka, en deilur þeirra um forystu á meginlandi Vestur-Evrópu höfðu lengi verið ein helsta undirrót ófriðar í Evrópu. Í framhaldinu (9. maí 1950) gaf franska stjórnin út yfirlýsingu sem er yfirleitt kölluð Schuman-yfirlýsingin, þar sem lagt var til að framleiðsla kola og stáls í Frakklandi og Þýskalandi yrði sett undir sameiginlega yfirstjórn (fr. Haute Autorité commune), innan samtaka sem „væru opin öðrum Evrópulöndum sem vildu taka þátt“, eins og segir í yfirlýsingunni (sjá Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 2. Aðdragandinn eftir Þorstein Vilhjálmsson).


Robert Schuman flytur Schuman-yfirlýsinguna, þann 9. maí 1950.

Segja má að þessi yfirlýsing hafi hrundið af stað því ferli sem kallað hefur verið Evrópusamruninn (e. European integration). Það sem einkenndi þróunina í byrjun var bæði ákveðnar hugsjónir og pragmatísk eða jarðbundin nálgun. Schuman gerði sér fulla grein fyrir því að hugmyndafræði öfgakenndrar þjóðernisstefnu hafði leitt til blóðugra átaka milli Frakka og Þjóðverja, og henni þurfti að breyta. Í hvoru landi fyrir sig höfðu stjórnmálamenn og alls kyns æsingamenn kynt undir hatri á íbúum hins, þar sem krafist var uppgjörs vegna raunverulegra og ímyndaðra misgjörða í fortíðinni. Þetta hafði leitt til vítahrings hefnda og andsvara sem virtist útilokað að rjúfa þannig að öllum líkaði. Því lagði Schuman til að komið yrði á samvinnu ríkjanna á ákveðnum sviðum, með þátttöku eins margra annarra Evrópuríkja og vildu vera með. Slík samvinna ætti að leiða til víðtækara pólitísks samstarfs þegar til lengdar léti. Í hugsýn hans var þessu samstarfi alls ekki stefnt gegn þjóðríkjunum, því að hann taldi þau alltof rótgróin til að þeim yrði útrýmt, heldur vildi hann endurskilgreina landamæri í álfunni þannig að þau tengdu ríkin saman fremur en skildu þau að.

Að baki Evrópusamrunans liggur í raun sama hugmynd og fékk Saint-Pierre til að skrifa bók sína um eilífan frið í álfunni fyrir réttum þremur öldum (sjá fyrra svarið sem nefnt var hér á undan). Í heimi þar sem ríki eru aðskilin og fullvalda hefur ávallt reynst stutt í ófrið og deilur á milli þeirra. Þar reisa ríkin líka gjarnan viðskiptamúra til að verja raunverulega eða ímyndaða hagsmuni þjóðanna – eða valdahópa innan þeirra. Reynslan af samvinnu Evrópuríkjanna í þá sex áratugi sem liðnir eru frá því að Kola- og stálbandalag Evrópu tók til starfa hefur líka sýnt að hún stuðlar að friði og velsæld í álfunni. Margar blikur eru þó á lofti og þær tengjast flestar því hversu óljós „Evrópuhugsjónin“ er í hugum manna. Þar kemur einkum tvennt til.

Annars vegar hefur forystumönnum ESB reynst erfitt að skapa tilfinningaleg tengsl á milli íbúanna – borgaranna – og sambandsins, eitthvað í líkingu við þjóðerniskennd í þjóðríkjunum. Afleiðingin er sú að sambandið er flestum fjarlægt og þykir heldur óspennandi sem þýðir aftur að þótt borgararnir njóti ýmiss konar ávinnings af starfsemi þess þá þykir þeim það ekki koma sér við. Ásýnd ESB tengist reyndar oftast skriffinnum – eða „möppudýrum“ – og óskiljanlegu regluverki frekar en hugsjónum um frið og samvinnu.

Hins vegar er óútkljáð hvar draga á valdamörk á milli þjóðríkjanna og sambandsins, og linnulaus togstreita ríkir um það. Þótt stundum sé talað um ESB sem eins konar sambandsríki (e. federation eða Bandaríki Evrópu) eða jafnvel sem heimsveldi (e. empire), þá er ESB og hefur alltaf verið samband fullvalda ríkja. Ríkin hafa afhent suma þætti ríkisvaldsins til yfirþjóðlegra stofnana en halda þó flestum þráðum þess í eigin höndum og hafa ýmsar leiðir til að stöðva þær ákvarðanir sambandsins sem einstökum ríkisstjórnum líkar ekki. Afleiðingin er sú að allt starf ESB snýst um stöðugar málamiðlanir, þar sem leyst er úr smáum og stórum ágreiningsmálum. En um leið þrýstir ýmislegt í eðli samvinnunnar ríkjum sambandsins í átt til sífellt víðtækari og dýpri samþættingar, eins og sést glöggt í viðbrögðum við skuldavanda sumra evruríkjanna um þessar mundir.

Þótt ekkert einfalt svar sé til við spurningunni „hvað er Evrópuhugsjónin?“, er þó ljóst að draumurinn um frið og hagsæld í álfunni drífur allar tilraunir til samvinnu Evrópuþjóðanna áfram. Saga Evrópu hefur einkennst af stöðugum styrjöldum á milli ríkja og vitundin um hörmungar síðari heimsstyrjaldar lifir enn með íbúum álfunnar. Ábyrg stjórnvöld í aðildarlöndum ESB, og það jafnvel í ríkjum þar sem efasemdaraddir um Evrópusamstarfið eru hvað háværastar, hafa því staðið vörð um samvinnuna og lagt sitt af mörkum til að leysa þau erfiðu vandamál sem hafa komið upp. Það er og hefur verið styrkasti grunnur Evrópusambandsins.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela