Spurning

Hver er Evrópuhugsjónin og hvaða hugmyndir höfðu menn fyrr á öldum um hana?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Auk þessa svars er fjallað um Evrópuhugsjónina í tveimur öðrum svörum eftir sama höfund:
Ekki er hægt að tala um „Evrópuhugsjón“ sem eitt sérstakt eða afmarkað hugtak, því að tillögur um að sameina álfuna undir eina stjórn eða í einhvers konar ríkjasambandi hafa birst með mismunandi hætti á ólíkum skeiðum sögunnar. Lengi vel þjónaði Rómaveldi sem eins konar allsherjarfyrirmynd slíkra tillagna, eins og sjá má af málflutningi forsvarsmanna stofnana á borð við miðaldakirkjuna, af valdahugmyndum stjórnenda frá Karlamagnúsi (krýndur keisari árið 800) til Napóleons Bónaparte (keisari 1804), eða í nöfnum ríkja á borð við „Hið heilaga rómverska keisaradæmi“. Engin ein hugsjón tengir þó þessa einstaklinga og fyrirbæri saman, þótt tilvísun í hinn „rómverska frið“ (lat. Pax Romana) hafi örugglega hljómað vel á öllum tímum í eyrum fólks sem bjó við stöðug átök milli ríkja og höfðingja.


Áætlun um að koma á varanlegum friði í Evrópu.
Á 17. öld, þegar nútímalegt ríkjaskipulag festi sig í sessi í álfunni, komu fram nýjar hugmyndir um sameiningu Evrópu. Einn helsti frumkvöðull þeirra var franski klerkurinn og stjórnarerindrekinn Charles-Irénée Castel de Saint-Pierre (1658–1743), sem gaf út ritið Projet pour rendre la paix perpétuelle en Europe (Áætlun um að koma á varanlegum friði í Evrópu) árið 1713 (frumútgáfa ritsins, Mémoires pour rendre la paix pérpetuelle en Europe, kom út ári áður). Ritið skrifaði hann sem eins konar uppgjör við stjórnarár Lúðvíks XIV. Frakkakonungs (konungur 1643–1715), en „sólkonungurinn“ hafði leitt miklar hörmungar yfir þegna sína og íbúa nágrannaríkjanna með stöðugu stríðsbrölti. Til að binda endi á slíkt ástand lagði Saint-Pierre til að komið yrði á evrópsku ríkjasambandi (fr. Fédération Européenne), með aðild 18 helstu kristnu ríkja álfunnar, og Evrópuþingi (fr. Diète générale d‘Europe). Markmiðið var að stofna með þessu eins konar „eilífan gerðardóm“ (fr. un Arbitrage perpétuel), sem tryggði stöðugleika í stjórn ríkjanna, kæmi í veg fyrir stríð á milli þeirra og legði grunn að frjálsum viðskiptum á milli þjóða. Með þessu vildi hann auka velmegun þegnanna, því að aukin milliríkjaverslun örvaði efnahagslífið og meiri friður dró úr ríkisútgjöldum og þar með þörf ríkjanna fyrir skattheimtu. Ekkert varð úr þessum áætlunum, en greina má enduróm frá hugmyndum Saint-Pierres í skrifum ýmissa heimspekinga upplýsingarstefnunnar, svo sem Jean-Jacques Rousseaus og Immanuels Kants (sbr. rit hans Zum ewigen Frieden, 1795).

Á 18. og 19. öld blönduðust slíkar friðar- eða samvinnuhugsjónir ýmist saman við eða tókust á við nýjar stjórnmálahugmyndir sem þá ruddu sér til rúms. Þar má helst nefna hugmyndir um fullveldi fólksins, það er að segja þá skoðun að vald í ríkjum ætti að byggjast á óskum íbúanna en ekki vilja æðri máttarvalda eða fulltrúa þeirra á jörðu. Á þessum tíma komu einnig fram hugmyndir um þjóðerni, sem gengu út á það að fólk með sameiginleg menningarleg einkenni og sameiginlega sögu skyldi lúta sömu – og sérstakri – stjórn. Þessar tvær hugmyndir runnu saman í hugsjónum um fullvalda þjóðríki, en þau urðu að ráðandi ríkisformi á 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar, og eru það reyndar enn nú á 21. öldinni.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela