Spurning

Hvað geturðu sagt mér um þrjátíu ára stríðið?

Spyrjandi

Hildur Gunnarsdóttir, f. 1986

Svar

Þrjátíu ára stríðið var háð í Evrópu á árunum 1618-48. Fjöldi ríkja og þjóða dróst inn í átökin vegna trúarbragða, deilna um landsvæði, erfðadeilna eða vegna viðskiptahagsmuna. Stríðið gerbreytti valdahlutföllum og ýmsum hefðum Mið- og Vestur-Evrópu. Holland losnaði undan Spánverjum og Sviss varð sjálfstætt ríki. Fjölmörg þýsk smáríki fengu sjálfstjórn og Þýskaland sameinaðist ekki fyrr en tveimur öldum síðar. Þýsk-rómverska keisaradæmið leið undir lok ásamt þeirri hugmynd um tengingu keisara og páfa sem í því fólst. Hugmyndir skutu rótum um samfélag sjálfstæðra ríkja sem væru fullvalda hvert á sínu svæði. Síðast en ekki síst var vettvangur stríðsins rjúkandi rúst eftir það og allt mannlíf í sárum. – Þannig er óhætt að fullyrða að þetta örlagaríka stríð hafi haft áhrif á söguna allar götur síðan.

***

Þrjátíu ára stríðið hófst vegna trúarbragðadeilna sem síðan mögnuðust upp í valdabaráttu á milli Habsborgarættarinnar, sem réð ríkjum á Spáni og í hinu þýsk-rómverska keisaradæmi, annars vegar og hins vegar Valoisættarinnar, sem réð ríkjum í Frakklandi. Ýmis svæði Vestur-Evrópu loguðu í átökum allt tímabilið en því má skipta í fimm meginkafla. Þeir eru:
  • bæheimska stríðið (1618-20)
  • Pfalz-stríðið (1620-25)
  • danska stríðið (1625-29)
  • sænska stríðið (1630-35)
  • franska stríðið (1635-48)
Samhliða þessu geisuðu þó stöðugir bardagar á milli smáríkja og fylkinga á öllu svæðinu.

Átökin bárust víða um Evrópu þó að einkum væri barist á svæði sem lá frá norðausturhluta Þýskalands til suðvesturs. Flestir herirnir studdust við málaliða en gátu oft og tíðum ekki greitt þeim umsamin laun. Málaliðarnir rændu því og rupluðu í sveitum og bæjum til að hafa í sig og á. Þetta varð raunar eitt aðaleinkenni þrjátíu ára stríðsins og skildi eftir sviðna jörð og eyðileggingu. Stjórnendur herja höfðu oft önnur markmið og metnað heldur en leiðtogar ríkjanna, yfirmenn þeirra, og algengt var að herir mynduðu ný bandalög með stuttum fyrirvara og berðust allt í einu gegn fyrrum samherjum.

Þrjátíu ára stríðinu lauk með samningunum í Vestfalen árið 1648. Þar með breyttust landamæri ríkja Evrópu varanlega í stríðinu og var lagður grunnur að þeirri ríkjaskipan sem enn stendur. Engum stríðsaðila tókst að ná þeim hernaðarlegu yfirburðum sem þurfti til að knésetja andstæðinginn og því varð stríðið svo langt sem raun bar vitni. Þá voru ríkin líka orðin févana enda hafa friðarsamningarnir í Vestfalen oft verið nefndir friður örmögnunarinnar.



Ferdinand II (1578-1637) konungur Bæheims og keisari yfir þýsk-rómverska keisaradæminu, var heittrúaður katólikki enda skólaður af Jesúítum.

Bæheimska stríðið 1618-20 hófst vegna þess að Ferdinand II (1578-1637), konungur Bæheims og verðandi keisari yfir þýsk-rómverska keisaradæminu, ætlaði sér að stöðva uppgang mótmælendatrúar, einkum kalvínisma, og neyða þegna sína til katólskrar trúar. Bæheimsku kalvínistarnir brugðust við með því að henda tveimur katólskum ráðgjöfum Ferdinands II út um glugga í Hradčany-kastala í Prag í maí árið 1618. Það varð ráðgjöfunum til lífs að þeir lentu í mykjuhaug fyrir neðan gluggann.

Friðrik V, kjörfursti af Pfalz, sem nú er í vesturhéruðum Þýskalands, kom Tékkunum til stuðnings ásamt bandalagi kalvínskra fursta eftir að uppreisnarmennirnir buðu Friðriki konungstign yfir Bæheimi. Her keisarans og bandalag katólsku furstanna snerist gegn þeim en hvorugur stríðsaðilinn reyndist nógu öflugur til að vinna fullnaðarsigur. Uppreisnin breiddist nú út um allt Þýskaland og Ferdinand neyddist til að leita eftir stuðningi frænda síns, Filippusar IV (1605-1665) Spánarkonungs. Filippusi var umhugað um að berja á mótmælendum auk þess sem hann ætlaði sér að ná Niðurlöndum aftur á sitt vald, en þau höfðu brotist undan oki Spánar. Filippus sendi því her frá Brussel, sem þá laut Spánverjum undir stjórn Ambrosio Spinola, og keypti aðstoð mótmælendaríkisins Saxlands til að ráðast inn í Bæheim. Sameinaður her keisarans og bandalags katólsku furstanna undir stjórn hershöfðingjans Johans Tzerclaes, greifa af Tilly (1559-1632), sigraði síðan uppreisnarmennina endanlega við Hvítufjöll í grennd við Prag árið 1620.

Í Pfalz-stríðinu sóttist Ferdinand eftir því að leggja undir sig Pfalz-svæðið við Rín sem var öflugasta ríki kalvínista í Evrópu. Þar voru bardagarnir að jafnaði smærri í sniðum og hernaðurinn einkenndist meira af umsátri um borgir. Gekk herleiðangur keisarans vel og her andstæðinganna undir stjórn Mansfeld greifa galt mikið afhroð og reyndi að flýja til Hollands. Tilly sá við þeim og slátraði bókstaflega herliðinu 6. ágúst 1623 í orrustunni við Stadtlohn sem er nú vestast í Þýskalandi skammt frá hollensku borginni Enschede. Af 21.000 manns komst einungis þriðjungurinn undan. Rúmu ári síðar höfðu Habsborgarar friðað Pfalz.

Danska stríðið hófst með innrás Kristjáns IV (1577-1648) Danakonungs inn í Þýskaland árið 1625. Markmið hans var að komast yfir þýsk landsvæði við Eystrasaltið og ná þar með tangarhaldi á mikilvægum verslunar- og efnahagssvæðum. Danakonungur beitti 20.000 manna her málaliða sem Hollendingar kostuðu að hluta því að þeir þörfnuðust bandamanna gegn innrás Spánverja. Til að verjast Dönum samdi Ferdinand II við Albert af Wallenstein (1583-1634) sem var bæheimskur aðalsmaður en katólskrar trúar. Hann léði Ferdinand 30-100.000 manna her sinn gegn því að fá að ræna og rupla á landsvæðunum sem barist væri á. Kristján IV hafði aftur á móti treyst á stuðning frá meðal annars Frökkum og Svíum en báðar þessar þjóðir áttu í stríðum annars staðar. Kristján var að lokum gersigraður í bardaganum við Lutter skammt frá Göttingen árið 1626. Wallenstein hernam síðan Jótland en gat ekki tekið Kaupmannahöfn því að hann skorti flota. Að lokum var samið um frið í Lübeck árið 1629. Þar með lauk stórveldisdraumum Dana.

Íhlutun Skandínava var þó ekki lokið því að árið 1630 réðst Gústaf II Adolf (1594/6-1632) Svíakonungur, oft nefndur herkonungurinn, inn í Þýskaland og þar með hófst sænska stríðið. Svíum fannst að sér vegið þegar Wallenstein náði mikilvægum verslunarhöfnum við Eystrasaltið og tók að smíða herskipaflota. Þeir töldu sig því knúna til hernaðar. Gústaf Adolf var líkt og Kristján IV fjármagnaður af andstæðingum Habsborgara. Richelieu (1585-1642) kardináli í Frakklandi var helsti ráðgjafi Lúðvíks XIII (1601-1643) konungs og sá um utanríkismálin. Honum leist ekki á vaxandi veldi Habsborgara og var því fús til að aðstoða andstæðinga þeirra með peningum. Svíar náðu mörgum svæðum mótmælenda aftur á árunum 1630-1634 og gekk í raun svo vel að Gústaf Adolf ákvað að ganga endanlega frá keisaraveldinu. Ferdinand II neyddist til að leita aftur til Wallensteins eftir að Tilly féll í viðureign við Svía árið 1632 en Svíar unnu Wallenstein við Lützen vestan við Leipzig árið 1634 og Gústaf Adolf féll í bardaganum. Tveimur árum síðar voru Svíar sigraðir við Nördlingen sem nú er í Bæjaralandi. Ferdinand II lét hins vegar handtaka og myrða Wallenstein sama ár því að hann grunaði hann um svik. Svo fór að friður var saminn í Prag árið 1635.



Gústaf II Adolf (1594/6-1632) Svíakonungur reyndist sigursælasti herforingi þrjátíu ára stríðsins og er hér sýndur fagna sigri við Breitenfeld 1631.

Franska stríðið hófst árið 1635 og stóð til 1648. Þetta var í raun endurnýjun fornra átaka milli Habsborgarættarinnar og frönsku Valoisættarinnar frá 16. öld, en með meiri krafti en áður. Frakkar voru ekki sáttir við samningana í Prag því að þeir töldu Habsborgara nú of öfluga. Þó að Frakkland væri katólskt land þá féll þeim ekki að hafa Habsborgarættina bæði við völd á Spáni og í ríkjunum við austurlandamæri Frakklands. Þeir lýstu því stríði á hendur Spánverjum og keisaraveldinu og mynduðu bandalag við Hollendinga og Svía. Spánn og keisaraveldið réðust þá inn í Frakkland, lögðu undir sig héruðin Champagne og Búrgund (Bourgogne) og ógnuðu jafnvel París árið 1636 þegar Frökkum tókst að stöðva framsókn þeirra. Báðar fylkingar kölluðu til bandamenn sér til stuðnings. Habsborgarar leituðu til Póllands. Frakkar til Hollands, Danmerkur, Englands, Rússlands, Úrbans VIII páfa, Savoy, Feneyja og Transylvaníu. Richelieu kardináli lést árið 1642 og ári síðar dó konungurinn. Arftaki hans, Lúðvík XIV, var einungis fjögurra ára og því stjórnaði Mazarin kardináli ríkinu fyrir hans hönd. Svíum og Frökkum tókst að sigra Habsborgara árið 1645 bæði við Jankau í grenndi við Prag og við Nördlingen. Í síðari bardaganum misstu katólikkar færasta herstjóra sinn, Franz von Mercy greifa og árið 1648 beið keisaraherinn afhroð fyrir herjum Svía og Frakka bæði við Zusmarshausen hjá Augsburg og við Lens skammt frá Calais við Ermarsund.

Friður var loks saminn árið 1648 og eru samningarnir kenndir við þýska héraðið Vestfalen því að þeir voru undirritaðir í borgunum Münster og Osnabrück. Frakkland og Spánn héldu þó áfram að berjast til ársins 1659. Með samningunum gerbreyttust valdahlutföll í Evrópu. Hollendingar losnuðu endanlega undan oki Spánar og Frakkar höfðu tekið við af Spánverjum sem öflugasta ríki Vestur-Evrópu. Svíþjóð hafði tryggt sig í sessi við Eystrasaltið. Þýsku ríkin, sem voru um það bil 360 innan þýsk-rómverska keisaradæmisins, öðluðust sjálfstjórn og sú sundrung hélst í tvær aldir. Sviss varð sjálfstætt ríki. Að auki var hugmyndin um rómversk-katólskt stórveldi í Evrópu undir veraldlegri stjórn keisara en andlegri stjórn páfa endanlega gefin upp á bátinn. Nýrri hugmyndir um Evrópu sem samfélag sjálfstæðra ríkja skutu rótum og fallist var á að íbúar hvers ríkis lytu einungis lögum og stjórnendum viðkomandi ríkis.

Efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar þrjátíu ára stríðsins voru að mörgu leyti hörmulegar. Efnahagur Mið-Evrópu varð fyrir verulegum skakkaföllum. Spánn og Frakkland voru bæði gjaldþrota við lok stríðsins og almenningur á stríðssvæðunum þjáðist mjög, eignum var spillt, borgum og bæjum hnignaði og sem dæmi má nefna að íbúum Magdeburgar fækkaði úr 25.000 árið 1618 niður í 2.464 íbúa árið 1644. Viðskipti stöðnuðu á styrjaldarsvæðunum, ánauð á bændum jókst, fólki fækkaði og miklir fólksflutningar áttu sér stað. Lengi vel var talið að um 30% af íbúafjölda Þýskalands hefði fallið en nú taka fræðimenn þeim tölum með meiri varúð. Þó er ljóst að agaleysi hermanna orsakaði mikið af þessum vanda. Í kjölfar málaliða og bardaga fylgdu sjúkdómar, þar á meðal plágan árin 1634-39. Erfitt er að vísu að greina afleiðingar stríðsins frá þeirri efnahagslegu lægð sem var um þessar mundir og setja fram einhverja tölfræði til samanburðar. Sundrað Þýskaland í formi ótal smáríkja festist í sessi næstu tvær aldir.

En það voru líka jákvæðir þættir. Viðskipti jukust yfir Atlantshafið og Eystrasaltið var áfram öflugt verslunarsvæði. Árásir flota Hollendinga og Spánverja á kaupskip hvors annars hækkuðu tryggingagreiðslur og þar með vöruverð. Borgir í Norðvestur-Evrópu, svo sem Amsterdam, Hamborg og Antwerpen, nýttu sér ófriðinn vel og urðu mjög sterkar í viðskiptum. Í raun var Hamborg orðin ríkasta borg Þýskalands árið 1648. Laun hækkuðu nokkuð þegar á heildina var litið og sömuleiðis virðast viðskipti og landbúnaður hafa þróast við að leita nýrra markaða og ræktunar.

Í hernaði urðu svo miklar breytingar að margir fræðimenn hafa talað um byltingu á því sviði. Herir urðu stærri en hafði áður þekkst og fjáröflun heilla ríkja fór nú alfarið í að halda þessum herjum uppi. Afleiðing þess varð meðal annars sú að herjunum var gert að lifa af landinu til að minnka kostnað við uppihald. Þetta leiddi svo til þess að þjáningar almennings af þessu stríði urðu meiri en áður hafði þekkst. Þá sást í fyrsta skipti votta fyrir atvinnuhermönnum í vel þjálfuðum og öguðum her Gústafs II Adolfs og hann kynnti sömuleiðis til sögunnar hertækni sem byggðist á því að herinn sækti stöðugt og hratt fram. Þetta kom í veg fyrir að andstæðingurinn gæti jafnað sig eftir stór áföll en krafðist um leið færni og aga af hermönnunum. Áður fyrr mynduðu hersveitirnar fjórar, stuttar raðir hermanna við orrustu en herkonungurinn lengdi raðirnar og fækkaði þeim um helming. Hersveitirnar urðu þá ekki lengur fyrir eins miklum skakkaföllum af fallbyssuskothríð né ef riddaralið gerði árás frá hlið eða aftan frá á fylkingarnar. Vopn og herbúnaður tók líka framförum auk þess sem framleiðslan var stöðluð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Lee, Stephen J.: Aspects of European History 1494-1789, 2. útgáfa, 2. prentun, Methuen & Co. Ltd., Bretland 1986.
  • Koenigsberger, H.G.: Early modern Europe 1500-1789. A history of Europe, Longman Group UK Ltd., Hong Kong, 1987.
  • Williams, E.N.: The Penguin Dictionary of English and European History 1485-1789, 2. endurprentun, Penguin Books Ltd., Bretland, 1984.
  • Vefsterið Encyclopædia Britannica: Thirty Years' War
  • Vefsetrið History Learning Site: Thirty Years' War
  • Vefsetrið Wikipedia: Albrecht von Wallenstein og Thirty Years' War

Myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.9.2004

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað geturðu sagt mér um þrjátíu ára stríðið?“. Evrópuvefurinn 20.9.2004. http://evropuvefur.is/svar.php?id=4519. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Skúli Sælandsagnfræðingur

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela