Spurning

Af hverju voru stofnríki Evrópusamstarfsins ekki fleiri en þessi sex?

Spyrjandi

Birgitta Þrastardóttir

Svar

Kola- og stálbandalagið var stofnað árið 1952 en Kjarnorkubandalag Evrópu og Efnahagsbandalag Evrópu voru stofnuð árið 1958. Sex ríki, Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland, stofnuðu þessi þrjú bandalög sem runnu síðar saman í Evrópusambandið.

Þessi sex ríki áttu margt sameiginlegt á þessum árum. Þau voru í rúst eftir hernað á svæðinu, bæði á landi, í lofti og á legi, og vildu ekki fá slíkar hörmungar yfir sig aftur. Þau vildu efla efnahagslífið, töldu fríverslun og samvinnu heppilega leið til þess og voru reiðubúin að deila hluta af fullveldi sínu með öðrum í þeim tilgangi. Þau töldust til lýðræðisríkja, þáðu Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum og tóku þátt í að stofna NATO árið 1949. Eins og sést á kortinu mynda þau samhangandi landsvæði utan hvað Sviss og Austurríki skerast inn í það eins og fjörður frá austri. – Allt þetta skiptir máli í samanburðinum við ríki sem kusu aðrar leiðir.

***

Upphafleg spurning var þessi: Hvaða ríki stóðu að stofnun ESB, hvenær og hvers vegna? Henni eru að mestu gerð skil í svörum sama höfundar um jarðveg og aðdraganda Evrópusamstarfsins, og á tímaás Evrópuvefsins. Eftir stendur einkum að fjalla nánar um það, af hverju stofnríkin voru ekki fleiri, og því hefur spurningunni verið breytt.

***

Í svarinu um aðdragandann að ESB kemur meðal annars fram að Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, viðraði hugmyndir um “Bandaríki Evrópu” þegar á árinu 1946 eða fljótlega eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Eyríkið Bretland átti þó ekki eftir að gegna neinu forystuhlutverki í því samrunaferli sem leiddi til Evrópusambandsins.

Árið 1950 setti franski utanríkisráðherrann Robert Schuman fram fræga yfirlýsingu sem við hann er kennd og má lesa í heild á vef ESB. Hún var vandlega undirbúin, meðal annars í samráði við Konrad Adenauer, kanslara V-Þýskalands, og við bandaríska ráðamenn, enda er hún oft talin marka raunverulegt upphaf Evrópusamrunans. Í yfirlýsingunni bauð Schuman til samstarfs öllum Evrópuríkjum sem það vildu þiggja, en þau urðu þó aðeins sex. Ástæðurnar fyrir fjarveru annarra Evrópuríkja eru margar og mismunandi eftir ríkjum eða ríkjahópum.

Bretar höfðu ýmsar ástæður til að taka treglega undir hugmyndir um samstarf Evrópuþjóða á þeim nótum sem höfundar þeirra hugsuðu sér. Tvær ástæður vega þó þyngst. Önnur er sú hugmynd Breta að nýlendur breska heimsveldisins og fyrrverandi nýlendur í Breska samveldinu (British Commonwealth) yrðu þeim á allan hátt mikilvægari en Evrópusamvinnan – en þetta reyndist fljótlega tálsýn. Hin ástæðan var sú að einfalt og óskorað fullveldi Bretlands hefur skipt Breta miklu á síðari öldum, þannig að þeir guldu varhug við því félagsfullveldi (e. shared sovereignty) sem höfundar Evrópusamstarfsins töldu nauðsynlegt að innleiða til að samstarfið næði tilgangi sínum.



Kort sem sýnir Samveldi þjóðanna eins og það er í dag (áður Breska samveldið).

Aðild Breta dróst þannig á langinn og töfin hafði einnig áhrif á nokkur önnur ríki. Þannig töldu ráðamenn Íra, Dana og Norðmanna þjóðir sínar svo háðar Bretum í viðskiptum á þessum tíma að sjálfgefið væri að fylgja þeim hvort sem þeir kysu að vera úti eða inni. Auk þessi hefur hlutleysi Íra trúlega haft nokkur áhrif á afstöðu þeirra þó að þeir létu það að lokum ekki ráða úrslitum um aðild.

Stjórnvöld í Bretlandi, Írlandi, Danmörku og Noregi náðu að lokum samningum um aðild að Evrópusamstarfinu í ársbyrjun 1972. Norðmenn felldu samninginn í þjóðaratkvæði sama ár en Bretar, Írar og Danir gengu í Evrópubandalagið í byrjun árs 1973. (Fjallað er nánar um inngöngu Breta í svari við spurningunni Af hverju tóku Bretar ekki þátt í að stofna til Evrópusamstarfsins á árunum 1950-1960?).

Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Sviss töldust til hlutlausra ríkja eins og Írland. Svíar og Finnar voru auk þess ekki nærri því eins háðir viðskiptum við Breta og systurþjóðir þeirra í Danmörku og Noregi. Finnar voru þar fyrir utan sérstaklega háðir Sovétmönnum, bæði í viðskiptum og stjórnmálum. Austurríki hafði lýst yfir hlutleysi með mikilli áherslu þegar hersetu Bandamanna lauk í landinu árið 1955 og staða þess var afar viðkvæm í kalda stríðinu vegna nábýlis við stuðningsríki Sovétríkjanna í Varsjárbandalaginu. Aðild þessara þjóða að Evrópusamstarfinu kom af þessum ástæðum aldrei til álita í alvöru af þeirra hálfu fyrr en menn sáu fyrir endann á kalda stríðinu um 1990, en þá varð hún að veruleika fyrir þrjár fyrstnefndu þjóðirnar árið 1994 en Svisslendingar felldu aðild að EES í þjóðaratkvæði árið 1992 og hættu þá við umsókn sína um aðild að ESB.

Suður-Evrópuríkin Grikkland, Spánn og Portúgal voru einræðisríki á þessum tíma. Í upphaflegum sáttmálum Evrópusamstarfsins koma orð eins og lýðræði eða mannréttindi ekki fyrir; þau eru ekki sett á blað fyrr en í Lissabon-sáttmálanum frá 2009 (Inngangsorð, 2. málsgrein megintextans) en virðast hafa verið höfð í huga allan tímann. Þannig meta ýmsir fræðimenn það svo að þessi þrjú ríki hafi ekki verið talin stofuhæf í byrjun Evrópusamstarfsins vegna einræðisins, og eins hafi þau ef til vill ekki talið sig eiga þar heima. Portúgal var í NATO frá stofnun þess árið 1949 og Grikkland gekk í bandalagið 1952. Má vel vera að hernaðarbandalagið NATO hafi hentað einræðisherrum Grikklands og Portúgals betur en fríverslun í ESB sem hefði falið í sér stóraukin samskipti við lýðræðisríkin í kring og þannig ef til vill grafið undan einræðinu. Lýðræði komst á í öllum löndunum þremur um 1975 og þau sóttu um aðild að Evrópubandalaginu skömmu síðar. Grikkir tóku þann kost að gera sem minnstar kröfur og gengu í bandalagið fyrstir af þessum ríkjum árið 1981, en hin löndin tvö máttu þreyja þorrann og góuna við samningaborðið allar götur fram til 1986 (Dinan, 2010, 74-78).



Frá fundi framkvæmdastjórnar COMECON.

Í svarinu um aðdraganda Evrópusamstarfsins eru raktar ýmsar ástæður þess að ríkin sex lögðu grunninn að samstarfinu á árunum 1950-1958. Margar af þessum ástæðum áttu ekki við þegar austar dró á meginlandi Evrópu. Þannig var Marshall-aðstoð Bandaríkjanna bundin því skilyrði að viðtökuríkin tækju upp markaðshagkerfi og stuðningsríki Sovétríkjanna í Austur-Evrópu þáðu hana því ekki. Fríverslun hefur líka takmarkað gildi án markaðshagkerfis. Austur-Evrópuríkin þjöppuðu sér saman undir forystu Stalíns og arftaka hans, stofnuðu efnahagsbandalagið COMECON (Council for Mutual Economic Assistance) árið 1949 og síðan varnarbandalagið sem kennt var við Varsjá árið 1955.

Eftir að járntjaldið féll og kalda stríðinu lauk um 1990 hefur þetta hins vegar breyst sem kunnugt er. Mörg ríki Austur-Evrópu hafa gengið í ESB og nokkur í viðbót hafa hug á að gera það þegar þau fullnægja inntökuskilyrðunum. Um þau má lesa nánar í svari Þórhildar Hagalín við spurningunni Hvaða Evrópulönd eru ekki í ESB og hvers vegna?

Heimild og lesefni:

Þakkir

Höfundur þakkar yfirlesurum góðar ábendingar og athugasemdir.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.9.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju voru stofnríki Evrópusamstarfsins ekki fleiri en þessi sex?“. Evrópuvefurinn 16.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=11161. (Skoðað 19.4.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela