Spurning

Af hverju tóku Bretar ekki þátt í að stofna til Evrópusamstarfsins á árunum 1950-1960?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Evrópusamstarfið hófst með stofnun Kola- og stálbandalagsins árið 1952 og gildistöku Rómarsáttmálanna árið 1958. Sex ríki, Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland stóðu að þessu samstarfi sem leiddi síðar til Evrópusambandsins.

Bretar áttu sitthvað sameiginlegt með þessum ríkjum á þessum tíma, svo sem erfiðleika eftir síðari heimstyrjöldina og ósk um endurreisn, vestrænt lýðræði, Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum og þátttöku í NATO frá stofnun þess árið 1949. Ýmis önnur atriði skildu þó í milli. Bretland var enn stórveldi og heimsveldi, átti nýlendur og margar fyrrverandi nýlendur voru í Breska samveldinu. Bretar þurftu tíma til að sjá að þetta kæmi ekki í staðinn fyrir Evrópusamstarfið. Auk þess hefur fullveldi ríkisins lengi skipt Breta miklu og þeim stóð því stuggur af hugmyndum hinna ríkjanna um félagsfullveldi (shared sovereignty).

***

Fjarvist Bretlands stingur óneitanlega í augu eins og spurningin gefur til kynna, bæði með hliðsjón af sameiginlegum aðstæðum sem áður voru nefndar og eins í ljósi þess sem síðar varð. Yfirleitt er talið að höfundar samstarfsins hefðu gjarnan viljað hafa Breta með í hópnum, og Bandaríkjamenn voru lengi vel sama sinnis. En Bretar höfðu sjálfir takmarkaðan áhuga, og kom þar margt til (Dinan, 2010, 18-19).

Nærtækast er að benda á þá sérstöðu Bretlands að Ermarsund hafði komið í veg fyrir að Þjóðverjar réðust inn á breskt land í heimsstyrjöldinni, þó að þeir gerðu hins vegar miklar loftárásir. En eyðilegging stríðsins var að sjálfsögðu minni í Bretlandi en á meginlandinuu af þessari ástæðu og staða efnahagslífsins skárri en ella.



Ermarsund skilur England frá meginlandi Evrópu.

Eyþjóðin Bretar hafði einnig lítinn áhuga á sambúðarflækjum Frakka og Þjóðverja eða öðrum málum sem grannríkin á meginlandinu töldu nú mestu varða. Fyrir þessu afskipta- og áhugaleysi um málaflækjur meginlandsins var löng hefð í Bretlandi; þeir hafa mestan partinn látið sér nægja að stuðla að valdajafnvægi hjá nágrönnum sínum. Hins vegar hafa þeir sem eyríki lagt mikla áherslu á hafið sem vettvang sinn, samanber hinar frægu ljóðlínur „Britannia rules the waves” frá árinu 1740.

Bretland taldist enn til stórvelda eða heimsvelda þegar hér var komið sögu; átti til dæmis enn talsvert af nýlendum, bæði í Afríku og Asíu, og flestar nýlendur sem fengu sjálfstæði voru áfram í Breska samveldinu (British Commonwealth) eins og það hét þá, en nú heitir það Samveldi þjóðanna (Commonwealth of Nations). Breska heimsveldið hafði alla tíð skipt miklu í bresku efnahagslífi, bæði sem gróðalind, markaður fyrir breskar vörur og sem matarkista. Bretar héldu eftir stríðið að svo yrði áfram en þróunin varð á annan veg. Þeir þurftu þá tíma til að átta sig á því að hvorki heimsveldi né Samveldi gætu komið í staðinn fyrir Evrópusamstarfið.

Sérstaða Bretlands sem eyríkis og heimsveldis um aldir átti þátt í að Bretar hafa um nokkrar aldir lagt ríka áherslu á fullveldi; þegar breska heimsveldið stóð með sem mestum blóma var það sannarlega nærri því sjálfu sér nógt um flesta hluti. En ríkin á meginlandi V-Evrópu höfðu hins vegar í huga náið samstarf sem fæli í sér að þau mundu deila með sér ákveðnum þáttum í fullveldi sínu (félagsfullveldi, shared sovereignty).

Bretar litu á sig á þessum tíma – og raunar enn – sem eins konar milligöngumann milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu. Kom þá fyrir lítið að Bandaríkjamenn reyndu að fullvissa Breta um að þeir mundu halda þessari stöðu sinni hvort eð væri.

Ennfremur óttuðust Bretar að aðild að Evrópusamstarfi mundi stofna í hættu bæði tengslum þeirra við nýlendur heimsveldisins, sem raunar fór ört fækkandi, og einnig við ríki Samveldisins sem fór mjög fjölgandi á sama tíma. Þetta atriði varðar ekki einungis stjórnmál heldur einnig efnahagsmál eins og áður er sagt.

Hér við bætist að franski utanríkisráðherrann Robert Schuman styggði Breta með því að hafa aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara að því að láta þá vita um yfirlýsingu sína þar sem hann leggur fram tillögu sína um Kola- og stálbandalagið sem var upphaf Evrópusamrunans. Bretar brugðust hart við og sóttust eftir aðild gegn því að hnekkja hugmyndunum um félagsfullveldi. Höfundar samstarfsins höfnuðu þeim tilraunum því að þeir töldu félagsfullveldið nauðsynlegt til að skila tilætluðum árangri.



Frá undirritun stofnsáttmála EFTA í Stokkhólmi 2. janúar 1960.

Þannig varð ekkert úr því að Bretar tækju þátt í Evrópusamstarfinu í upphafi. Árið 1959 höfðu þeir raunar forgöngu um að stofna önnur samtök, Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA), til höfuðs Efnahagsbandalaginu, en fljótlega kom í ljós að sú leið dugði þeim ekki. Árið 1961 höfðu veður skipast í lofti og þeir börðu þá að dyrum með aðildarumsókn. Hún var þó ekki samþykkt fyrr en árið 1973, einkum vegna andstöðu Charles de Gaulle Frakklandsforseta.

Heimild og lesefni:
  • Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Integration. 4. útgáfa. Houndmills, Basingstokes: Palgrave/Macmillan.
  • Vefsíður sem vísað er til í svarinu.
  • Fyrri mynd sótt 16.9.11 á en.wikipedia.org - English Channel.
  • Seinni mynd sótt 16.9.11 á dw-world.de.

Þakkir

Höfundur þakkar yfirlesurum góðar ábendingar og athugasemdir.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.9.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju tóku Bretar ekki þátt í að stofna til Evrópusamstarfsins á árunum 1950-1960?“. Evrópuvefurinn 16.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60662. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela