Spurning

Hverjar yrðu helstu breytingar fyrir Íslendinga, ef landið segði sig úr Schengen-samstarfinu?

Spyrjandi

Gunnar Ársælsson

Svar

Ef Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu þyrfti meðal annars að auka landamæraeftirlit til muna og aðgengi að evrópskri lögreglusamvinnu mundi skerðast verulega. Árlegur kostnaður við samstarfið mundi falla niður, en á móti kæmi annar kostnaður svo sem viðamiklar breytingar á innviðum Keflavíkurflugstöðvarinnar. Réttindi EES-borgara til búsetu og dvalar hér á landi mundu ekki breytast þótt Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu.

***

Ísland hefur verið þátttakandi í Schengen-samstarfinu síðan árið 2001. Schengen-samstarfið snýst annars vegar um að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna með afnámi persónubundins eftirlits og hins vegar um að styrkja eftirlit með ytri landamærum svæðisins til að stemma stigu við alþjóðlegri glæpastarfsemi. Nánar er fjallað um Schengen-samstarfið í svari við spurningunni Hvað felst í Schengen-samstarfinu og þarf ég vegabréf til að ferðast innan Schengen-svæðisins?

Samningurinn sem ráð Evrópusambandsins og Ísland gerðu með sér árið 1999 um þátttöku ríkisins í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna hefur að geyma úrsagnarákvæði úr Schengen-samstarfinu (sbr. 16. gr. samningsins). Ísland getur sagt samningnum upp einhliða og honum getur líka verið sagt upp með ákvörðun ráðsins, það er með samhljóða samþykki fulltrúa allra Schengen-ríkjanna. Uppsögn öðlast gildi þegar sex mánuðir eru liðnir frá því að tilkynning um uppsögn berst.


Skýrsla innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið, sem kom út 22. ágúst 2012, hefur að geyma upplýsingar um hugsanlegar afleiðingar þess að Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu. Helstu breytingarnar sem nefndar eru í skýrslunni eru sem hér segir:
  • Setja þyrfti upp landamæraeftirlit vegna alls flugs til og frá Keflavíkurflugvelli, og væntanlega ráða fleiri lögregluþjóna til að sinna landamæraeftirlitinu.
  • Íslensk löggæsla hefði ekki lengur aðgang að Schengen-upplýsingakerfinu (Schengen Information System, SIS), en hægt er að lýsa eftir einstaklingi í SIS-upplýsingakerfinu og þannig má finna hann í öðrum löndum á Schengen-svæðinu og framselja hann eða afhenda á grundvelli samstarfssamninga þar um. Ekki væri lengur mögulegt að fletta tilteknum einstaklingi upp í SIS-kerfinu til að sjá hvort hann hafi brotið af sér og sé eftirlýstur á Schengen-svæðinu. Lögreglan gæti einungis stuðst við gagnabanka Interpol, á vegum Alþjóðasambands sakamálalögreglu, sem er mun takmarkaðri.
  • Aðgengi Íslands að evrópskri lögreglusamvinnu mundi eflaust skerðast, upplýsingaflæði milli íslenskra og evrópskra lögregluyfirvalda mundi dragast saman og verða óskilvirkara því ólíklegt er að ríki Evrópusambandsins kæmu upp sérstöku samvinnukerfi við Ísland ef ríkið stæði utan Schengen.
  • Úrsögn úr Schengen mundi þýða upptöku landamæraeftirlits gagnvart Norðurlöndum og þar með væntanlega úrsögn úr Norræna vegabréfasamningnum; en vegabréfasamstarfið við Norðurlöndin var eitt meginsjónarmiðið sem réði ákvörðun íslenskra stjórnvalda um aðild að Schengen-samstarfinu á sínum tíma.
  • Árlegur kostnaður við Schengen-aðild Íslands mundi falla niður en á móti kæmi kostnaður við að standa utan Schengen þar sem ráða þyrfti fleiri lögregluþjóna og ráðast yrði í viðamiklar breytingar á innviðum Keflavíkurflugstöðvarinnar. Upplýsingar um slíkan kostnað liggja ekki fyrir. Árlegur kostnaður Íslands vegna Schengen-samstarfsins er hins vegar grundvallaður á tilteknum fjárlagalið í fjárlögum (sjá töflu).
    Ár Upphæð í millj. kr.
    2012 112,1
    2011 108,9
    2010 122,3
    2009 106,1
    2008 94,5
    2007 133,5
    2006 100,4
    2005 56,3
    2004 54,4
    2003 53,6

Réttindi EES-borgara til búsetu og dvalar hér á landi mundu ekki breytast þótt Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu. Þau réttindi eru hluti af svokölluðu fjórfrelsi sem er grundvöllur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Fjöldi útlendinga hér á landi mundi því að öllum líkindum ekki breytast. Hins vegar hefðu íslensk löggæsluyfirvöld ekki lengur aðgang að SIS-upplýsingakerfinu, eins og fram hefur komið, og hefði því ekki lengur upplýsingar um eftirlýsta afbrotamenn. Ef engin vitneskja er til staðar um að tilteknir einstaklingar séu eftirlýstir er ekkert sem heftir för þeirra á milli landa.

Fyrir inngöngu Íslands í Schengen voru ekki mörg dæmi þess að glæpamenn væru stöðvaðir á landamærum og því er ekki sjálfgefið að þeir finnist við hefðbundið landamæraeftirlit segi Ísland sig úr samstarfinu. Ekki er heldur hægt að sjá bein tengsl milli aðildar Íslands að Schengen-samstarfinu og þeirri aukningu í skipulagðri brotastarfsemi sem vart hefur orðið hér á landi. Alþjóðleg glæpastarfsemi hefur aukist á síðastliðnum árum og á það ekki einungis við um Schengen-ríkin. Bretar standa til að mynda frammi fyrir mikilli aukningu í skipulagðri glæpastarfsemi þrátt fyrir að Bretland standi utan Schengen.

Með Schengen-aðild hefur Ísland myndað samstarf við ESB á öðrum tengdum sviðum. Þannig hefur Ísland til að mynda gert samninga við Evrópsku réttaraðstoðina (Eurojust), Evrópulögregluna (Europol) og lögregluskóla ESB (Cepol). Ísland er einnig aðili að Landamærastofnun Evrópu (Frontex) og landamærasjóðnum, sem eiga að styrkja eftirlit og öryggi á ytri landamærum Schengen-svæðisins.

Schengen-samstarfið tengist einnig svokölluðu Dyflinnarsamstarfi um meðferð hælisumsókna. Ísland undirritaði Prüm-samninginn árið 2009 sem á að efla alþjóðlegt lögreglusamstarf og veita yfirvöldum nýjar og auknar heimildir í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Um er að ræða uppfærslu á Schengen-upplýsingakerfinu en nýja SIS-kerfið (SIS II) mun veita samstarfsríkjunum aðgang að sameiginlegum gagnagrunni með fingrafara-, erfðaefnis- og ökutækjaskrám lögregluyfirvalda. Tæknilegur undirbúningur og útfærslur á samstarfinu standa yfir. Að öllum líkindum mundu þessir samningar falla niður ef Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur31.8.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hverjar yrðu helstu breytingar fyrir Íslendinga, ef landið segði sig úr Schengen-samstarfinu?“. Evrópuvefurinn 31.8.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62934. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela