Spurning

Hvað mundi tapast og hvað ávinnast með því að segja upp EES-samningnum?

Spyrjandi

Ásgeir Eiríksson

Svar

Í þessu svari er annars vegar tæpt á þeim réttindum sem Íslendingar mundu verða af og hins vegar um það sem mætti kalla ávinning af uppsögn EES-samningsins. Miðað er við að samningurinn félli úr gildi og enginn annar samningur kæmi í staðinn fyrir hann, en deila má um hve raunverulegur sá möguleiki er.

***

Samkvæmt EES-samningnum getur sérhver samningsaðili sagt upp aðild sinni að samningnum „að því tilskildu að hann veiti öðrum samningsaðilum að minnsta kosti tólf mánaða fyrirvara með skriflegum hætti. Jafnskjótt og fyrirhuguð uppsögn hefur verið tilkynnt skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til þess að meta hvaða breytingar sé nauðsynlegt að gera á samningnum.“ (127. grein). Aðildarríkjunum er þar af leiðandi ekki skylt að semja um uppsögn en kvöðin um tólf mánaða fyrirvara ætti þó að veita aðilum nægan tíma til að bregðast við lagalegum áskorunum uppsagnar.

EES-samningurinn er helsta stoðin í samskiptum Íslands við Evrópusambandið en með honum fékk Ísland, auk Noregs og Liechtenstein, aðgang að innri markaði ESB. Samningurinn byggist á reglunni um fjórfrelsið, sem vísar til frjáls flæðis vöru, þjónustu, fólks og fjármagns, en það er grundvöllur innri markaðar ESB. Undir EES-samninginn falla einnig ýmsir málaflokkar sem varða fjórfrelsið, ýmist að fullu eða að hluta til, sem og náin samvinna á nokkrum sviðum utan marka fjórfrelsisins. Eitt af sérkennum EES-samningsins er að hann felur í sér þá skyldu fyrir Íslendinga, sem og aðra aðila samningsins, að innleiða í landslög allar afleiddar ESB-reglur (tilskipanir og reglugerðir) sem settar eru á samningssviðinu.


EES-samningurinn tryggir meðal annars frjálsa för fólks.
Réttindi Íslendinga á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem til dvalar vegna atvinnu eða náms, til stofnunar fyrirtækis, til heilbrigðisþjónustu eða fjárfestinga, byggist á aðild Íslands að EES-samningnum. Vegna aðildarinnar eru Íslendingar skilgreindir sem ríkisborgarar EES-ríkis í landslögum aðildarríkjanna en það veitir þeim margvísleg forréttindi umfram ríkisborgara annarra ríkja. Þannig er aðildarríkjum EES-samningsins í mörgum tilvikum, oft að uppfylltum tilteknum skilyrðum, skylt að veita ríkisborgurum aðildarríkja sambandsins sömu réttindi og eigin borgurum. Uppsögn EES-samningsins mundi þýða að Ísland væri ekki lengur EES-ríki heldur þriðja ríki, samkvæmt lögum í EES-ríkjunum, og mundi þar með tapa forréttindum sínum sem slíkt. Reglur í EES-ríkjunum varðandi réttindi ríkisborgara þriðju ríkja, svo sem til dvalar, atvinnu og fyrirtækjareksturs, eru aðeins að litlu leyti samræmdar og því yrði réttarstaða Íslendinga mismunandi eftir löndum ef EES-samningnum yrði sagt upp.

Af þessu leiðir að uppsögn EES-samningsins hefði í för með sér að Ísland yrði ekki lengur þátttakandi á Evrópska efnahagssvæðinu á sömu forsendum og aðildarríki EES-samningsins. Samkeppnisskilyrði íslenskra fyrirtækja á Evrópumarkaði yrðu ekki jöfn á við fyrirtæki annarra EES-ríkja, meðal annars vegna þess að núgildandi bann við lagningu tolla á tilteknar vörur félli úr gildi. Til viðbótar við EES-samninginn er þó enn í gildi eldri fríverslunarsamningur milli EFTA og ESB frá árinu 1972. Samningurinn snýst að mestu um fríverslun með iðnvörur en hann inniheldur einnig samkomulag um verulegar tollaívilnanir á mikinn hluta af þeim fiski og fiskiafurðum sem þá voru seldar til aðildarríkja ESB. Ekki er ástæða til að ætla að þessi samningur félli sjálfkrafa úr gildi þótt EES-samningnum yrði sagt upp.

Uppsögn EES-samningsins fæli enn fremur í sér að frelsi Íslendinga til að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og fyrirtækjarekstur í öðru EES-ríki og veita þjónustu yfir landamæri, samkvæmt sömu lögum og reglum og viðkomandi ríki setur eigin ríkisborgurum, yrði úr sögunni. Hið sama mundi gilda um frelsi íslenskra ríkisborgara til þess að dvelja í aðildarríkjum EES við nám og vinnu og afleidd réttindi því tengd, svo sem til almannatrygginga og lífeyris. Þá mundi einnig falla úr gildi bann við höftum á fjármagnsflutninga milli Íslands og EES-ríkjanna (slík höft eru raunar nú þegar til staðar vegna íslensku gjaldeyrishaftanna).


Sem aðili að EES-samningnum hefur Ísland enn fremur verið þátttakandi í margvíslegum samstarfsáætlunum ESB en þar má meðal annars nefna Menntaáætlunina, Rannsóknaáætlunina, Heilsuáætlun ESB, Jafnréttis- og vinnumálaáætlunina og Menningaráætlunina (sjá upplýsingar á síðunni evrópusamvinna.is). Með uppsögn EES-samningsins mundi Ísland, að öðru óbreyttu, tapa rétti sínum til þátttöku og styrkja úr þessum áætlunum. Á hinn bóginn mundi falla niður allur kostnaður Íslands við EES-samninginn, en árið 2010 var beint framlag Íslands til framkvæmdar samningsins 3,5 milljarðar króna.

Til ávinnings af því að segja upp EES-samningnum mætti jafnframt telja að þar með yrði bundinn endi á það framsal ríkisvalds til stofnana EFTA og ESB, sem samningurinn fól í sér og aukist hefur með árunum, og lýðræðislegt lögmæti lagasetningar aukast að nýju. Íslensk stjórnvöld eiga til að mynda ekki sæti í þeim stofnunum ESB sem móta og setja reglur sambandsins en þar sitja einungis fulltrúar aðildarríkja ESB. Íslenskir ráðamenn hafa því mjög takmarkaða möguleika til þess að hafa áhrif á mótun og undirbúning regluverks sem Íslandi er eftir sem áður skylt að innleiða í landslög samkvæmt EES-samningnum. Öll lagasetning í þeim málaflokkum sem nú falla undir EES-samninginn mundi með uppsögn hans flytjast alfarið aftur í hendur lýðræðislegra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar.

Evrópusambandið hefur ekki verið viljugt til þess að gera efnislegar breytingar á gildissviði EES-samningsins né verið opið fyrir tillögum Íslands um mögulegar uppfærslur með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á stofnsáttmála ESB. Þrátt fyrir það eru litlar líkur taldar á því að ESB segi upp EES-samningnum. Slík ákvörðun krefðist samþykkis allra aðildarríkja sambandsins, þar á meðal Norðurlandanna og annarra vinaþjóða Íslands sem ekki væru líklegar til að samþykkja slíkar aðgerðir. Aðilar samningsins hafa margoft ítrekað skuldbindingar sínar gagnvart framtíð samningsins.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela