Spurning

Snúast fríverslunarsamningar um algjörlega frjáls viðskipti án tolla og hafta? Er EES-samningurinn fríverslunarsamningur?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Fríverslunarsamningar snúast fyrst og fremst um niðurfellingu tolla. Tollar eru hins vegar langt í frá einu hindranirnar í viðskiptum milli ríkja. EES-samningurinn er fríverslunarsamningur milli EFTA/EES-ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein, og Evrópusambandsins.

***

Oft er talað um fríverslunarsvæði (e. free trade area) sem annað stig efnahagslegs samruna. Það vísar til þess þegar tvö eða fleiri ríki sammælast um að afnema tolla og kvóta á innfluttum vörum sín á milli. Sérhver aðili að samningi um fríverslun ákveður þó sjálfur hversu háa tolla hann leggur á innfluttar vörur frá löndum utan svæðisins. Fyrsta stig samruna af þessu tagi er viðskiptasvæði með ívilnunum (e. preferential trading area, PTA) sem einkennist af gagnkvæmum tollaívilnunum á takmörkuðum sviðum, án þess að tollar milli samstarfsríkjanna séu felldir alveg niður. Tollabandalag (e. customs union) er þriðja stig efnahagslegs samruna. Það er bandalag sem tvö eða fleiri ríki gera með sér um að efla viðskipti sín á milli. Auk niðurfellingar viðskiptahindrana á borð við innflutningstolla felur tollabandalag í sér að komið er á sameiginlegum tollum gagnvart ríkjum utan bandalagsins.


Fulltrúar EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands við undirskrift fríverslunarsamnings milli ríkjanna.

Hefðbundnir fríverslunarsamningar eru ekki færir um að koma á algjörlega frjálsum viðskiptum. Í fyrsta lagi eru tollar ekki einu hindranirnar í viðskiptum milli ríkja. Þar kemur einnig til óbein skattheimta, mismunandi kröfur milli landa til að mynda um heilbrigði dýra og plantna sem og ólíkir öryggis- og gæðastaðlar og ýmislegt fleira. Hindranir sem þessar hafa í auknum mæli verið viðfangsefni fríverslunarsamninga. Fyrstu fríverslunarsamningarnir voru svokallaðir fyrstu kynslóðar samningar sem náðu aðeins til vöruviðskipta og reglna um uppruna vara. Á síðari tímum hafa komið til svokallaðir annarrar kynslóðar samningar sem ná einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, samkeppnismála og verndar höfundarréttar. Í öðru lagi ná fríverslunarsamningar oft aðeins til viðskipta með ákveðnar tegundir vara og eru þannig takmarkaðir að umfangi. Inntak fríverslunarsamninga er því breytilegt eftir því hvaða ríki eiga í hlut.

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var stofnað til fríverslunarsvæðis milli EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. EES-samningurinn er þó ekki hefðbundinn fríverslunarsamningur því auk frelsis í viðskiptum með vörur og þjónustu kveður hann á um frjálsa för fólks og frjálsa flutninga fjármagns sem og sameiginlegar samkeppnisreglur. Í samningnum var ennfremur lögð áhersla á afnám óbeinna (tæknilegra) viðskiptahindrana með samræmingu staðla á öllu EES-svæðinu. Nánari umfjöllun um sérstöðu EES-samningsins er að finna í svari við spurningunni Hvert er eðli EES-samningsins? EES-samningurinn felur ennfremur ekki í sér fríverslun með allar vörur, þannig eru landbúnaðarvörur í stórum dráttum undanþegnar samningnum og ekki er um að ræða fríverslun með allar tegundir sjávarafurða.


Helsti munurinn á fríverslunarsamningum EFTA annars vegar og ESB hins vegar við þriðju ríki er að ESB leitast yfirleitt eftir því í samningum sínum að fríverslun nái til allra iðnaðarvara auk þess að fá markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur en mörg samningsríki eru ekki reiðubúinn til þess að opna fyrir svo ríkan aðgang að mörkuðum sínum. EFTA-ríkin hafa yfirleitt sett fram skilyrði um fulla fríverslun með sjávarafurðir en ESB hefur jafnan ekki gengið jafnlangt í þeim efnum. Þar að auki eru jafnan gerðir sérstakir tvíhliðasamningar milli hvers og eins EFTA-ríkis og viðkomandi samningsríkis um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Slíkir samningar eru ekki gerðir af hálfu ESB því framkvæmdastjórn ESB fer með forræði í samningagerð við þriðju ríki fyrir hönd aðildarríkjanna.

EFTA-ríkin hafa, samkvæmt EES-samningnum, sjálfræði í gerð viðskiptasamninga við þriðju ríki. Í mörgum tilvikum hafa EFTA-ríkin þó nýtt sér þau tækifæri sem hafa skapast til samningsgerðar í kjölfar samninga ESB við þriðju ríki. EFTA-ríkin hafa þannig fylgt í kjölfar ESB í gerð fríverslunarsamninga og samið við sömu ríki og ESB. Þessi viðleitni hefur tryggt fyrirtækjum innan EFTA-ríkjanna að mestu svipaðan aðgang að mörkuðum og fyrirtæki innan ESB njóta. Yfirlit yfir þá fríverslunarsamninga sem Ísland á aðild að er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 1.6.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Snúast fríverslunarsamningar um algjörlega frjáls viðskipti án tolla og hafta? Er EES-samningurinn fríverslunarsamningur?“. Evrópuvefurinn 1.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60510. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela