Spurning

Hvaða viðskiptasamningar okkar falla niður við aðild að ESB? Hvaða samningar ESB kæmu í staðinn? Hver yrðu heildaráhrifin?

Spyrjandi

Gunnlaugur Ingvarsson, Egill Almar Ágústsson

Svar

Ef Ísland gengi í ESB þyrfti að segja upp stofnsáttmála EFTA (sjá svar við spurningunni Hver er munurinn á EFTA og ESB?) og fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að sem EFTA-ríki. Sömuleiðis þyrfti að segja upp tvíhliða fríverslunarsamningum og gera breytingar á öðrum gildandi viðskiptasamningum svo að þeir samræmist regluverki ESB. Ísland myndi gerast aðili að fríverslunarneti ESB og stofnanir sambandsins myndu koma fram fyrir Íslands hönd í öllum fríverslunarviðræðum, sem og á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Fríverslunarnet EFTA-ríkja annars vegar og ESB hins vegar eru í megindráttum svipuð. Þó er ljóst að við mögulega aðild að ESB yrði í einhverjum tilvikum breyting á markaðsaðgangi íslenskra fyrirtækja. Markaðsaðgangur áynnist inn á einhverja markaði utan sambandsins en tapaðist á öðrum. Mismunur á ávinningi og tapi er óverulegur sem hlutfall af heildarveltu og ógerningur að segja til um á hvorn veginn hann verður fyrr en samningsdrög liggja fyrir.

***

Sameiginleg viðskiptastefna Evrópusambandsins er einn veigamesti þátturinn í utanríkisstefnu þess. Undir viðskiptastefnuna fellur meðal annars gerð viðskiptasamninga við ríki og ríkjahópa utan sambandsins og ýmis önnur atriði er varða milliríkjaviðskipti.



Ef Ísland gengi í ESB þyrfti að segja upp stofnsáttmála EFTA og fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að sem EFTA-ríki en í staðinn fengjum við aðild að samningum sem ESB-ríki.

Samkvæmt ákvæðum Lissabon-sáttmálans fer ESB með fullar valdheimildir (e. full competence) á sviði sameiginlegu viðskiptastefnunnar. Þannig fara stofnanir sambandsins með framkvæmd stefnunnar og sjá um samningsgerð um viðskipti við öll ríki eða ríkjahópa utan sambandins. Ráðið veitir framkvæmdastjórn sambandsins heimild til að hefja viðræður um gerð viðskiptasamninga við þriðjuríki og heldur utan um þær viðræður í samráði við viðskiptastefnunefnd ESB (e. Trade Policy Committee). Sú nefnd heyrir undir ráðið og í henni sitja fulltrúar allra aðildarríkja og framkvæmdastjórnarinnar. Þar koma aðildarríki sambandsins hagsmunum sínum og sjónarmiðum á framfæri. Í samningaviðræðum heldur framkvæmdastjórnin Evrópuþinginu upplýstu, auk þess sem þingið þarf að staðfesta niðurstöðu samningaviðræðna um viðskiptasamninga, þar með talið fríverslunarsamninga.

Sjá nánar um stefnu ESB gagnvart viðskiptum við þriðjuríki í svari við spurningunni Hver er stefna ESB þegar kemur að viðskipta- og fríverslunarsamningum Við samanburð á núgildandi neti íslenskra fríverslunarsamninga annars vegar og neti ESB hins vegar má sjá að þau ná í flestum tilvikum til sömu ríkja og veita sambærilegan markaðsaðgang fyrir helstu vörur sem eru meðal útflutningsafurða Íslands, þó að það sé ekki algilt.

EFTA hefur gert fríverslunarsamninga við 22 ríki og ríkjahópa: Albaníu, Egyptaland, Flóaráðið (GCC, Gulf Cooperation Council; aðilar eru Barein, Katar, Kúveit, Óman, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin), Ísrael, Jórdaníu, Kanada, Kólumbíu, Króatíu, Líbanon, Makedóníu, Mexíkó, Marokkó, palestínsk yfirvöld, Perú, Serbíu, Síle, Síngapúr, Suður-Kóreu, Tollabandalag Suður-Afríkuríkja (SACU, Southern African Customs Union: Botsvana, Lesótó, Namibía, Suður-Afríka og Svasíland), Túnis, Tyrkland og Úkraínu. Ísland er einnig með tvíhliða fríverslunarsamninga við Færeyjar (Hoyvíkursamninginn), Grænland og ESB.



Ef Ísland gengi í ESB myndi það gerast aðili að fríverslunarneti sambandsins.

ESB hefur gert fríverslunarsamninga við þessi sömu samstarfsríki EFTA að undanskildu Flóaráðinu, Kanada, Singapúr og Úkraínu. Til viðbótar hefur ESB gert samninga við Andorra, San Marínó, Bosníu og Hersegóvínu, Alsír, Sýrland, CARIFORUM-ríkin (fimmtán ríki í Karíbahafi), Fílabeinsströndina og Kamerún, auk Noregs og Sviss. Þess ber að geta að ESB á sem stendur í viðræðum við Kanada, Úkraínu og fleiri ríki um gerð fríverslunarsamnings. Ef samkomulag næst má gera ráð fyrir að aðgangur ESB að þeim mörkuðum verði svipaður þeim sem EFTA-ríkjum býðst samkvæmt fríverslunarsamningi þeirra.

Með samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES; European Economic Area, EEA) frá 1994 var stofnað til fríverslunarsvæðis milli EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein (EFTA/EES ríkin) annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Við mögulega aðild Íslands að ESB yrði Ísland sem fyrr aðili að EES-samningnum, þó sem ESB-ríki en ekki EFTA-ríki eins og nú. Framkvæmdastjórn ESB myndi þannig sjá um rekstur EES-samningsins fyrir Íslands hönd.

Í greinargerð samningahóps íslenskra stjórnvalda um utanríkisviðskipti í viðræðum Íslands við ESB segir að íslensk stjórnvöld muni í samningaviðræðum við sambandið leggja áherslu á að tryggja markaðsaðgang fyrir helstu útflutningsvörur og -þjónustu Íslands á mikilvægustu mörkuðum ESB og í fríverslunarsamningum eða -viðræðum ESB þar sem Ísland á hagsmuna að gæta. Þarna er átt við tilteknar iðnaðarvörur, sjávarafurðir og landbúnaðarvörur og mikilvæg þjónustusvið. – Sömuleiðis þarf að tryggja að í fríverslunarsamningum eða -viðræðum ESB við ríki utan sambandsins verði innflutningstollar ESB afnumdir eða lækkaðir á innflutningsvörum frá þriðjuríkjum sem eru mikilvægar fyrir Ísland eða að sambærilegur aðgangur til Íslands verði tryggður með öðrum leiðum. Er þar sérstaklega litið til hráefna til iðnaðar og fiskvinnslu frá ríkjum utan sambandsins. – Jafnframt skal leitast við að tryggja hliðstæðan markaðsaðgang fyrir viðskipti með þjónustu og með vörur. – Loks er tekið fram að finna þarf lausnir vegna Hoyvíkursamningsins við Færeyjar á þeim sviðum þar sem hann gengur lengra en fríverslunarsamningur ESB og Færeyja, til að tryggja viðskiptatengsl við Færeyjar.

Til að meta heildaráhrifin af þeim breytingum á viðskiptasamningum sem hér um ræðir, þarf að bera saman tvær stórar tölur, um viðskipti fyrir og eftir breytingu, þar sem að minnsta kosti seinni talan er háð talsverðri óvissu. Af svarinu í heild má sjá að mismunur þessara talna er óverulegur miðað við tölurnar sjálfar. Þegar svo stendur á er ógerningur að segja með marktækum hætti fyrir um það, hvorum megin við strikið mismunurinn lendir, fyrr en þá eftir að samningsdrög liggja fyrir ásamt traustara mati á viðskiptum eftir breytingu. Eftir stendur sú ályktun ein að þessi mismunur, hreinn ávinningur eða tap, verður væntanlega óverulegur.

Heimildir og mynd:

Upprunalegar spurningar:

  1. Hvaða fríverslunar- og viðskiptasamningar eru það sem falla niður við önnur ríki verði af ESB-aðild? Hefur verið metið hvað áhrif niðurfelling þessara samninga hefði á íslenskt atvinnu- og athafnalíf og hafa þessir samningar þannig verið metnir fjármunalega og hagsmunalega séð fyrir íslensku þjóðina? Það er hvað tapast í fjármunum og viðskiptamöguleikum ef þeir falla niður?
  2. Svo aftur á móti hvaða aðrir fríverslunar- og viðskiptasamningar sem ESB er nú þegar aðili að kæmu þá í staðinn ef Ísland gengi inn? Hafa áhrif þeirra fríverslunar- og viðskiptasamninga verið metin fyrir íslenskt atvinnulíf og atvinnustarfsemi? Fjárhagslega og hagsmunalega? Þá óskast það sundurliðað og sundurgreint og bent á skýrslur og annað sem máli skiptir því til stuðnings?
  3. Vinsamlegast fjallið um núverandi fríverslunarsamninga Íslands og hversu mikil viðskipti Ísland á við þau lönd. Er EES fríverslunarsamningur? Berið saman viðskiptasamninga Íslands og ESB. Við hvaða ríki hefur ESB gert viðskiptasamninga eða fríverslunarsamninga? Hver verða áhrifin á utanríkisviðskipti Íslands, aðgang að mörkuðum o.s.frv. við inngöngu í ESB? Mun innganga í ESB leiða til meiri frjálsra viðskipta (þ.e. betri eða sambærilegs markaðsaðgangs að öllum eða flestum ríkjum heimsins) eða minni?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.8.2011

Tilvísun

Atli Ísleifsson. „Hvaða viðskiptasamningar okkar falla niður við aðild að ESB? Hvaða samningar ESB kæmu í staðinn? Hver yrðu heildaráhrifin?“. Evrópuvefurinn 24.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60185. (Skoðað 23.4.2024).

Höfundur

Atli Ísleifssonalþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Egill Almar Ágústsson 25.8.2011

Var ESB ekki að gera fríverslunarsamning við Suður-Kóreu?

Atli Ísleifsson 26.8.2011

Jú, það passar. Ritað var undir samninginn í október 2010 og hefur honum verið beitt síðan í júlí sl.